Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 mánaða.
Erpur-ET 20402.
Erpur-ET 20402.
Á faglegum nótum 29. janúar 2024

Niðurstöður skýrsluhaldsársins í nautakjötsframleiðslunni 2023

Höfundur: Guðmundur Jóhannesson og Sigurður Kristjánsson, ráðgjafar hjá RML

Niðurstöður skýrsluhaldsársinsí nautakjötsframleiðslunni 2023 hafa verið reiknaðar og birtar á vef Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, www.rml.is. Hér verður farið yfir helstu tölur úr uppgjörinu.

Uppgjör fyrir nautakjötsframleiðsluna hefur nú verið birt í rúmlega fimm ár og nær það uppgjör til þeirra búa sem halda holdakýr. Enn er þetta yfirlit þó þeim annmörkum háð að niðurstöður ná ekki yfir þær holdakýr sem eru á búum þar sem einnig er um að ræða mjólkurframleiðslu. Þetta hefur sína kosti og galla. Kosturinn er sá að uppgjörfið tekur til sérhæfðra búa með holdakýr en gallinn er sá að ekki eru allar holdakýr með í uppgjörinu.

Skýrsluhald nautakjötsframleiðslunnar árið 2023 nær til 122 búa og þar af er að finna holdakýr af erlendu kyni á 92. Búunum fækkar því um fjögur milli ára eða jafnt og búum þar sem er að finna holdakýr af erlendu kyni. Kýr á þessum búum voru við uppgjör ársins 3.445 talsins, sem er fjölgun um 93 frá árinu áður. Meðalfjöldi kúa á búi var 28,2 samanborið við 26,6 árið áður og reiknast þessar kýr yfir í 25,8 árskýr á bú en voru 25,9 árið 2022. Alls var um að ræða 2.706 skráða burði á þessum búum á árinu 2023 sem jafngildir 0,79 burðum/kú. Þetta er fækkun um 204 burði og samdráttur um 0,08 burði á kú milli ára.

Kjötframleiðsla og flokkun ársins 2023

Heildarframleiðsla ársins á þessum 122 búum nam um 846 tonnum sem er samdráttur um 39 tonn milli ára. Þetta þýðir að þessi bú framleiða nálægt 17% alls nautgripakjöts á landinu. Meðalframleiðsla á bú var 6.934 kg en heildarfjöldi slátraðra gripa var 3.242. Sambærilegar tölur frá fyrra ári eru 7.023 kg og 3.557 gripir. Meðalfallþungi kúa frá þessum búum var 225,6 kg, en hann reyndist 214,0 kg árið áður og meðalþungi ungneyta var 267,9 kg en þau vógu til jafnaðar 257,8 kg 2022. Til jafnaðar var ungneytunum fargað 721,3 daga gömlum eða 6,5 dögum yngri að meðaltali en á árinu 2022. Það jafngildir vexti upp á 343,7 g/dag, reiknuðum út frá fallþunga, en sambærileg tala frá fyrra ári var 335,6 g/dag. Til samanburðar var slátrað 9.553 (10.166) ungneytum á landinu öllu sem vógu 256,4 (251,5) kg að meðaltali við 743,1 (747,7) daga aldur. Tölur innan sviga eru frá 2022. Þessi sérhæfðu bú sem yfirlitið nær til ná því gripunum þyngri við lægri aldur að jafnaði eins og verið hefur undanfarin ár. Heilt yfir eru ungneyti þyngri en árið áður þrátt fyrir að vera alin aðeins færri daga.

Ef litið er á flokkun gripanna var meðalflokkun ungneyta á þessum búum 6,1 (5,5) á meðan meðalflokkun ungneyta yfir landið er 4,9 (4,7). Flokkun er því mun betri á þessum búum til jafnaðar, rétt eins og árið áður, og sá munur fer vaxandi.

Rétt er að hafa í huga að meðalflokkun er reiknuð þannig að flokkunum er gefið tölugildi þar semP=2,O=5,R=8,U=11ogE = 14. Meðalgripurinn á landinu öllu er því nálægt því að flokkast í O.

Frjósemi

Á árinu 2023 fæddust 2.706 kálfar á þessum búum og reiknast meðalbil milli burða 451 (465) dagur. Bil milli burða er því nálægt 15 mánuðum sem er töluvert lengra en svo að meðalkýrin nái einum burði á ári. Framleiðsla nautakjöts með holdakúm verður tæpast arðbær hérlendis nema að þessi þáttur taki breytingum til batnaðar. Við þetta bætist að hlutfall dauðfæddra kálfa við 1. burð er 14,1% (16,7%), 4,7% (5,5%) við aðra burði og vanhöld frá 0-6 mánaða 3,3% (3,4%) þannig að fjöldi kálfa til nytja verður töluvert langt innan við kálf á kú á ári. Tölur í svigum hér eru frá fyrra ári.

Sæðingum á þessum búum heldur áfram að fækka og liggur við að sæðing á holdakú teljist til fréttnæmra viðburða. Þannig var sædd 451 kýr á árinu 2023 samanborið við 512 kýr árið áður. Hlutfall sæddra kúa lækkar því í 13,1% úr 15,3%. Fjöldi sæddra kúa af erlendu kyni var 321 af þessum 451 sem sædd var. Til jafnaðar voru kýrnar sæddar 1,3 (1,3) sinnum og að meðaltali liðu 103,4 (104,3) dagar frá burði til 1. sæðingar. Þær kýr sem eru sæddar þetta löngu eftir burð munu ekki bera með 12 mánaða millibili en þó hafa mál færst til betri vegar hvað þetta snertir. Tilkoma Angus-sæðis frá Nautgriparæktarmiðstöð Íslands jók notkun sæðinga milli 2020 og 2021 en nú virðist ákveðnum toppi náð. Notkun sæðinga á kjötframleiðslubúum nam aðeins 0,7% af öllum sæðingum á árinu 2023. Samtals voru notaðir 1.445 skammtar af holdasæði hér á landi á síðasta ári.

Við verðum því einfaldlega að spyrja okkur þeirrar spurningar hve miklu má kosta til þegar um svona örnotkun er að ræða.

Tölur úr skýrsluhaldinu styðja að mörgu leyti það sem afkomutölur hafa sýnt. Búum fer nú fækkandi, meðalbúið stækkar og bilið milli þeirra sem gera hlutina vel og illa breikkar. Þá er greinilegt á þunga- og gæðatölum að nýja Angus-erfðaefnið er farið að láta til sín taka þó svo sæðingar með holdasæði fari að heyra sögunni til nema á örfáum búum.

Mestur þungi og vöxtur

Þyngsta ungneytið sem slátrað var á árinu var naut nr. 1412 á Breiðabóli á Svalbarðsströnd. Þessi gripur var holdablendingur, 50% Angus og að hálfu íslenskur, undan Val-ET 19402 og vó 570,9 kg er honum var slátrað við 29,2 mánaða aldur. Hann flokkaðist í UN R+4. Í töflu 2 má sjá þau ungneyti sem náðu yfir 500 kg fallþunga á árinu 2023 en þau voru níu talsins og frá fjórum búum. Í þessu sambandi er rétt að minna á að ungneyti eru gripir sem fargað er við 12-30 mánaða aldur. Þetta eru allt gripir sem hafa náð sérlega miklum vexti og þar með þunga en athygli vekur að þarna skila bæði Valur-ET 19402 og Draumur-ET 18402 ákaflega góðu.

Í töflu 3 má sjá þau ungneyti sem náðu mestum daglegum vexti reiknuðum út frá fallþunga. Miðað er við að gripirnir hafi náð a.m.k. 15 mánaða aldri við slátrun og reiknað er með 20 kg fallþunga við fæðingu. Mestum eða hröðustum vexti ársins náði naut númer 1382 í Nýjabæ undir Eyjafjöllum. Sá gripur var holdablendingur, u.þ.b. 2% Limousine, 83% Angus og u.þ.b. 15% íslenskur. Vöxtur þessa grips reiknast miðað við áðurnefndar forsendur 795,5 g/dag sem er geysigóður vöxtur.

Þessar tölur og listar yfir þá gripi sem eru þyngstir og vaxa mest sýna vel hve holdablendingarnir skara fram úr, einkum og sér í lagi synir yngri Angus-nautanna frá einangrunarstöðinni á Stóra- Ármóti. Nánast öll þyngstu ungneytin og þau sem náðu mestum vexti eru undan nýju Angus- nautunum eða sonum þeirra en S-A Dalmar í Hofsstaðaseli er sonur Draums-ET 18402.

Ef við skoðum meðfylgjandi graf sjáum við að afkvæmi nýju Angus- nautanna ná meiri þunga á styttri tíma, þ.e. þau vaxa hraðar en önnur ungneyti sem slátrað var á síðasta ári. Þegar reiknaður er meðalvaxtarhraði á dag út frá fallþunga kemur í ljós að afkvæmi nýju Angus-nautanna uxu sem nam 456,4 g/dag meðan að önnur ungneyti náðu vexti sem nam 315,3 g/dag. Þarna munar rúmlega 140 grömmum á dag sem þýðir að á einni viku ná afkvæmi nýju Angus- nautanna 1 kg meira af kjöti en hinir gripirnir. Tölur um flokkun segja sömu sögu. Afkvæmi nýju Angus- nautanna voru með meðalflokkun upp á 7,66 á árinu 2023 þegar sambærileg tala fyrir önnur ungneyti var 4,69. Nýju Angus-nautin skila því gripum í R að jafnaði með að hin ungneytin flokkast í O að jafnaði.

Tölur ársins 2023 sýna að eldi sláturgripa fer fram og vegur þar tilkoma nýja Angus-erfðaefnisins án efa þungt en tilkomu þess er farið að gæta í sláturtölum. Hins vegar er breytileikinn alltof mikill eins og grafið sýnir okkur. Ótrúlegur fjöldi ungneyta nær ekki 200 kg fallþunga við slátrun. Greinilega er enn verk að vinna í því að bæta eldi og atlæti þeirra gripa sem aldir eru til kjötframleiðslu þannig að þeir nái ásættanlegum fallþunga. Það er eina leiðin til að framleiða gott nautakjöt á arðbæran hátt.

Að lokum er full ástæða til þess að óska þeim framleiðendum sem náð hafa góðum árangri við framleiðslu á nautakjöti til hamingju með þann árangur.

Tafla 1: Ársuppgjör nautakjötsframleiðslunnar 2023,
Heimild og töflur / Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...