Sauðfjárdómar og forystufé
Fagráð í sauðfjárrækt samþykkti tvær breytingar á dómstiganum sem notaður er við lambadóma, nú í ágúst. Annars vegar er um að ræða breytingar á viðmiðum fyrir einkunn fyrir bak og hins vegar eru það breytingar á dómum fyrir ull.
Þegar hrútum er gefin einkunn fyrir bak er haft til hliðsjónar kröfur um vöðvaþykkt, fitu og lögun bakvöðva auk þess sem tekið er tillit til þroska gripsins. Á síðustu árum hafa orðið talsverðar framfarir í þykkt bakvöðva. Var því orðin nokkur samþjöppun í einkunnum fyrir bak þar sem algengasta einkunnin er 9,0. Ákveðið hefur því verið að auka kröfurnar um 2 mm fyrir hverja einkunn dómstigans fyrir bak.
Einnig var ákveðið að gera þá breytingu að fyrir hæstu bakeinkunnir eru nú gerðar meiri kröfur um lágmarksfitu og kröfur um hámarksfitu rýmkaðar, en viðmiðið er nú að 45 kg lambhrútur hafi 2 til 4 mm þykka fitu yfir bakvöðvanum til að hljóta hæstu einkunnir (9,0 eða hærra).
Hin breytingin sem gerð var á dómstiganum er meiri grundvallarbreyting. Það er gagnvart ullinni, en nú var það skref stigið til fulls að aftengja lit kindarinnar ullardómnum. Hingað til hafa aðeins hreinhvítar kindur geta fengið hæstu einkunnir fyrir ull.
Áherslan fer því alfarið á ullargæðin og ullarmagnið og reynt að ná betur fram breytileika innan hvers litar. Vonast er til þess að með þessari breytingu færist þetta ullarmat nær því að ná utan um eðlisgæði ullarinnar. Breytingin ætti að skapa betri grundvöll til þess að nýta þessa einkunn í framtíðinni til að reikna kynbótamat fyrir ull.
Breytingar þessar munu væntanlega hafa þau áhrif, að væg gengisfelling verður á hrútadómunum þar sem kröfur um vöðvaþykkt hafa aukist. Þá ætti ekki lengur að vera þörf fyrir það á hrútasýningum að hafa sérstaka flokka fyrir mislitt fé.
Drög að ræktunarmarkmiðum fyrir forystufé og dómstigi fyrir þann merkisfjárstofn hafa legið fyrir í nokkurn tíma og mönnum gefist kostur á að gera athugasemdir áður en þetta plagg yrði afgreitt af fagráði. Í sumar voru þessi ræktunarmarkmið yfirfarin og hafa nú verið samþykkt af fagráðinu. Þeir sem standa fyrir hrútasýningum á komandi hausti eru hvattir til þess að bjóða upp á sérstakan flokk fyrir forystufé sem vonandi myndi auka áhuga á forystufénu og hlúa að varðveislu þess og ræktun.
Á heimasíðu RML má nálgast uppfærðan dómstiga fyrri lambadóma og endanlega útgáfu af ræktunarmarkmiðum og dómstiga fyrir forystuféð.