Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Karlkynhirslur á lindifuru.
Karlkynhirslur á lindifuru.
Mynd / Pétur Halldórsson
Á faglegum nótum 23. janúar 2024

Sembrafura / Lindifura (Pinus cembra / Pinus sibirica)

Höfundur: Pétur Halldórsson kynningarstjóri.

Á tímum loftslagsbreytinga kemst ekki eingöngu los á fólk sem flýr náttúruhamfarir og versnandi búsetuskilyrði í heimahögum. Fleiri lífverur þurfa að flýja.

Sumar geta tekið til fótanna eða flogið á vængjum sínum. Aðrar þurfa tíma til að flytja sig úr stað. Þannig er um trén. Eitt af því sem skógræktarfólk hugar nú að víða um lönd er að hjálpa trjátegundum að flytja sig til og setjast að þar sem skilyrði henta þeim í breyttum heimi. Auðvitað flytja trén sig ekki til beinlínis heldur spretta ný tré af fræjum þeirra í nýjum heimkynnum. Í gömlu heimkynnunum þurfa aðrar trjátegundir að taka við keflinu, jafnvel sums staðar skógleysi.

Til eru trjátegundir sem fyrir löngu hafa hörfað til fjalla undan samkeppni við aðrar tegundir eða vegna breytinga á vaxtarskilyrðum. Fjallaþinur í Norður-Ameríku vex til dæmis á nokkrum svæðum hátt til fjalla og getur verið langt á milli slíkra búsvæða. Þá geta þróast sérstök kvæmi með áhugaverð einkenni og hafa Íslendingar sótt á slík svæði efnivið til jólatrjáa- ræktunar, bæði bláleitan og grænleitan fjallaþin. Enginn veit hver framtíð þessara kvæma verður í fjöllunum vestra. Víst er að ekki geta þau hörfað endalaust upp á við með hlýnandi loftslagi.

Svipaða sögu er að segja um tvær furutegundir sem eru svo náskyldar að þær þekkjast ekki í sundur nema með smásjá og erfðagreiningu. Sembrafura með latneska heitið Pinus cembra vex í Ölpunum og austur í Karpatafjöllum. Sums staðar í þessum fjöllum er tegundin á einangruðum svæðum og gæti veslast þar upp og horfið með hækkandi meðalhita. Einkum er útbreiðslusvæðið slitrótt í Karpata- fjöllum Slóvakíu, Ungverjalands og Rúmeníu og trén víða komin í sjálfheldu hátt til fjalla. Lindifura með latneska heitið Pinus sibirica vex austur í Altai-fjöllum í sunnanverðri Síberíu og Mongólíu. Útbreiðslusvæði hennar er mun stærra en sembrafuru en fer þó einnig minnkandi.

Ung lindifura í Hallormsstaðaskógi.

Tegundir sem ógnað er með þessum hætti í heimkynnum sínum gætu vel átt framtíð annars staðar. Til dæmis gæti Ísland átt þátt í að bjarga trjátegundum sem verða heimilislausar með röskun loftslags á jörðinni. Í það minnsta hafa bæði lindifurur og fjallaþinir dafnað vel á Íslandi þó ekki sé áfallalaust með öllu. Mun meira hefur verið gróðursett hér á landi af lindifuru en sembrafuru og verður nánari lýsing á lindifuru látin duga, enda notum við gjarnan lindifurunafnið á þær báðar. Lindifura er miðlungsstórt tré sem getur orðið 500-1.000 ára gamalt. Hún fer fyrst að þroska fræ um fimmtíu ára aldur eða enn eldri. Þetta er myndarleg trjátegund en telst þó ekki til hinna stórvaxnari. Hún nær gjarnan 25-35 metra hæð í átthögum sínum og gæti vafalaust gert það á Íslandi líka með tímanum.

Lindifuran vex alltént hægt, enda hefur hún tímann fyrir sér. Lengi héldu menn að hún þyrfti skógarskjól í æsku, en nýlegri reynsla sýnir að hún þrífst betur á berangri. Mjúkar nálar hennar samanborið við t.d. stafafuru eða skógarfuru eru nokkuð blekkjandi því hún þolir bæði vindálag og saltákomu betur en hinar tvær tegundirnar. Með tímanum verður hún einstofna, beinvaxið tré með breiða, keilulaga krónu. Hún hefur fimm nálar í knippi, langar nálar sem gefa trjánum mjúklegt yfirbragð. Í vindi liðast greinarnar tígulega. Lindifura vex víða um land en síst þó í lágsveitum á Suður- og Vesturlandi. Þar er henni hættast við helsta skaðvaldinum sem herjar á tegundina, sveppsjúkdómnum furubikar eða furugreni (Gremmeni- ella abietina). Skemmdir vegna sjúkdómsins virðast vera að aukast á Suðvesturlandi og jafnvel víðar, líklega vegna þess að hún hefur verið látin vaxa í þéttum skógum eða í skugga annarra tegunda. Hvert lindifurutré þarf mikið rými og ríkulegt sólskin til að njóta sín. Ekki ætti að spara grisjun í lindifurureitum.

Lindifura er ekki álitleg til timburframleiðslu sökum hægs vaxtar en timbrið er engu að síður gott til ýmissa nota líkt og furutimbur jafnan er. Í margra augum er hún líka fyrirtaks jólatré. Hún er til mikillar prýði sem aukategund í skógum en ekki síður í görðum og á útivistarsvæðum. Fræ hennar eru stór og matarmikil fyrir mýs og að henni eru því góðar nytjar fyrir lífríkið. Lítið var gróðursett af lindifuru á Íslandi lengi vel en gömul tré er þó víða að finna í eldri skógarreitum, til dæmis á Hallormsstað og á Grund í Eyjafirði þar sem fundist hafa sjálfsánar lindifurur. Meira hefur verið gróðursett af lindifuru frá aldamótum og gæti fólk farið að taka eftir tignarlegum lindifurum hér og þar á komandi áratugum og vonandi öldum. Mikilvægt er að leyfa komandi kynslóðum að upplifa öldunga meðal trjáa, bæði í skógum og í þéttbýli. Gömul og stór tré gegna sérstöku hlutverki, bæði fyrir menn og lífkerfi.

Skylt efni: lindifura

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...