Skógarþröstur
Skógarþröstur er einn algengasti fuglinn í skóglendi og í byggð. Það er ekki óalgengt að á þessum stöðum séu þeir með fyrstu fuglunum sem taka á móti manni. Hann er að mestu leyti farfugl en engu að síður er talsvert magn af þeim sem halda sig hérna yfir veturinn. Þeir eru félagslyndir utan varptíma og koma gjarnan í stórum hópum sem ganga yfir landið. Þá skyndilega fyllast skóglendi og garðar af skógarþröstum sem byrja strax að syngja af miklu kappi. Hans helsta kjörlendi eru birkiskógar og þar getur varpþéttleikinn þeirra orðið mjög mikill. Hann er afkastamikill varpfugl og þrátt fyrir okkar stutta sumar ná þeir að verpa tvisvar til þrisvar yfir sumarið, 4-6 eggjum í senn. Yfir sumar og varptíma borða þeir helst skordýr en síðsumars og á haustin sækja þeir í alls konar ber. Það getur farið ansi vel um þá ef þeir finna sér góðan rifsberjarunna og er hætta á að lítið verði eftir af uppskerunni ef þeir fá að sitja um hana óáreittir. Þegar líður á haustið sækja þeir einnig í reyniber og er skógarþrösturinn á myndinni við það að gleypa ber af koparreyni.