Stonehenge stærra en talið hefur verið
Fornleifafræðingar á Bretlandseyjum telja sig vera búna að finna leifar af steinagerði sem bendir til þess að minjarnar við Stonehenge séu mun stærri en áður hefur verið talið.
Með jarðsjá hefur tekist að greina tæplega hundrað bautasteina sem eru allt að 4,5 metrar að lengd. Steinarnir sem liggja á hliðinni mynda svo reglulega röð að ómögulegt er annað en að menn hafi komið þeim fyrir. Til aðgreiningar frá því steinagerði sem þekkist í dag er farið að kalla nýja fundinn ofurgerðið vegna stærðar þess.
Síðastliðin fimm ár hefur verið unnið að því að skanna stórt svæði nálægt Stonehenge með jarðsjá og verið er að teikna það upp með steinafundunum merktum inn. Stór hluti ofurgerðisins liggur skammt frá Stonehenge, í um þriggja kílómetra fjarlægð, og er það talið vera hluti af helgu svæði sem tengist steinagerðinu fræga.
Reynist rétt vera að um ofurgerði sé að ræða er það stærsta steinagerði sem fundist hefur í Evrópu og væntanlega munu rannsóknir á því veita nýja innsýn í sögu og tilgang Stonehenge.