Þátttaka í ræktunarstarfinu að eflast
Höfundur: Eyþór Einarsson ábyrgðarmaður í sauðfjárrækt - ee@rml.is
Dómar á lömbum er eitt af stærstu verkefnum sem tengjast ræktunarstarfi í sauðfjárrækt. Tilgangur þeirra er fyrst og fremst að veita bændum upplýsingar sem þeir geta nýtt sér við ásetningsvalið. Einnig er um að ræða söfnun upplýsinga til að fá afkvæmadóma bæði fyrir heimahrúta og sæðingastöðvahrúta.
Hér verður gefin stutt samantekt á helstu niðurstöðum úr lambaskoðunum haustið 2019.
Aukin þátttaka
Sauðfjárræktin hefur gengið í gegnum talsverðar þrengingar á síðustu árum og hafa afleiðingar þess m.a. komið niður á þátttöku í ræktunarstarfinu, þ.e.a.s. sæðingum og lambadómum. Í haust sáust þess þó merki að áhugi fyrir ræktunarstarfinu væri heldur að aukast. Bæði var farið í fleiri heimsóknir til bænda í haust en haustið áður og skoðuðum lömbum fjölgaði þrátt fyrir að framleiðsla hafi dregist talsvert saman. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í Fjárvís.is frá 11. desember sl. voru stigaðir 12.038 Lambhrútar í haust en á sama tíma í fyrra lágu fyrir upplýsingar um 11.321 hrútlamb. Lokatalan var síðan aðeins hærri þegar öll kurl voru komin til grafar líkt og fram kemur í töflu 1. Skoðaðar gimbrar í haust voru 50.456 talsins sem er rúmlega 3.600 gimbrardómum fleiri en lágu fyrir á sama tíma í fyrra.
Lömbin væn
Tíðarfar sl. vor og sumar var víða á landinu fremur kalt og þurrt. Þrátt fyrir það var vænleiki lamba að jafnaði góður í haust. Meðalfallþungi dilka var 16,52 kg samkvæmt niðurstöðum frá sláturhúsunum og er það svipað og árið áður, en þá var hann 16,56 kg og var þá næstmesti meðalþungi sem mælst hefur. Lambhrútarnir sem komu til skoðunar í haust voru svipaðir að þyngd og í fyrra, með aðeins þykkari vöðva og stiguðust heldur hærra líkt og sjá má í töflu 1. Þetta er í ágætu samræmi við niðurstöður slátrunar þar sem lömbin voru heldur léttari en gerðareinkunn sláturdilka potaðist upp á milli ára úr 8,99 í 9,04.
Efstu hrútar
Í töflu 2. Er að finna yfirlit yfir 5 hæststigðu lambhrúta í hverju héraði. Séu hrútar jafnir að stigum, ráða samanlögð stig fyrir frampart, bak, malir og læri. Séu einhverjir enn jafnir er næst tekið tillit til bakvöðvaþykktar, þá fituþykktar og síðast er það lag bakvöðvans sem sker úr um röðun.
Tafla 2
Hæststigaði lambhrúturinn í haust er frá Landamótsseli í Suður-Þingeyjarsýslu með 92,5 stig. Þetta er annað árið í röð sem hæst stigaði lambhrútur landsins kemur frá þessum bæ. Þessir stigakóngar eru albræður undan Belg 17-166 og Gyltu 15-648. Belgur er sonarsonur Gaurs 09-879 og dóttursonur Snæs 07-867. Gylta er af heimakyni en í langfeðratali má rekja ættir hennar til sæðingastöðvahrútanna Grána 03-957, Hriflons 07-837, Ljúfs 05-968, Kalda 03-989, Þráðar 06-996 og Lóða 00-871.
Næstur í röðinni með 91,5 stig er annar Suður-Þingeyingur sem hlotið hefur nafnið Toppur 19-123. Toppur er frá Búvöllum undan kaupahrút frá Bassastöðum í Steingrímsfirði sem Glanni heitir, sonur Fáfnis 16-995 frá Mýrum 2. Móðurföðurfaðir Topps er Bekri 12-911 frá Hesti.
Þá koma einir 8 hrútar með 91 stig. Efstur af þeim raðast Neró 19-166 frá Mýrum 2. Gríðarþykkur bakvöðvi hans skaut honum fram fyrir aðra hrúta í uppröðun. Hann mældist með 43 mm þykkan vöðva. Neró er sonur Kögguls 17-810 frá Hesti. Móðir hans er tvævelta, ákaflega efnileg með 9,9 afurðastig. Hún rekur ættir sínar m.a. í Danna 12-923 frá Sveinungsvík og Guma 09-880 frá Borgarfelli.
Synir stöðvahrútanna
Í Hrútaskránni má finna yfrlit yfir meðaltöl allra sona sæðingastöðvahrútanna sem skoðuð voru ásamt nýju kynbótamati fyrir holdfyllingu og fitu. Þær niðurstöður gefa besta mynd af því hvernig þessir kynbótagripir standa sig. Það er einnig áhugavert að skoða hvaða stöðvahrútar eiga stærsta hlutdeild í toppunum í hverri sýslu. Af þeim 100 lambhrútum sem birtast í töflu 2 þá eru 31 lambhrútur undan sæðingastöðvahrútum. Af þeim á Mávur 15-990 frá Mávahlíð flesta eða 7 talsins. Mávur hefur sannað sig sem mjög öflugur lambafaðir en afkvæmi hans eru bæði vel gerð og skarta góðri ull sem gerir gæfu muninn í heildar stigum. Tvistur 14-988 frá Hríshóli á næstflesta syni eða 4. Þá koma þeir Bergsson 14-986 frá Valdasteinsstöðum og Guðni 17-814 frá Miðdalsgröf með 3 syni hvor.
Að lokum
Að bæta vaxtarlag sauðfjár er langhlaup. Þar hafa margir ræktendur náð frábærum árangri á síðustu áratugum. Góð þátttaka í lambamælingum og sæðingum hefur án efa skilað þar gríðar miklu og er augljós sá munur sem fram kemur í öllum eiginleikum sem unnið er með í ræktunarstarfinu ef skoðuð eru meðaltöl búa sem eru virk í ræktunarstarfinu og þeirra sem ekki taka þátt í þessum lykilverkefnum. Þótt gæðin þokist upp á við að jafnaði þá er stærsta sóknarfærið í því að lyfta upp meðaltölum á landsvísu, hvort sem það er fyrir skrokkgæði eða afurðaeiginleika ánna, að virkja þann hluta bænda sem á inni mikil sóknarfæri.