Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Steinhúsið sem John Bartram byggði, skömmu eftir landakaupin 1728. Myndir / Kristján Friðbertsson.
Steinhúsið sem John Bartram byggði, skömmu eftir landakaupin 1728. Myndir / Kristján Friðbertsson.
Á faglegum nótum 15. maí 2020

Til voru fræ, fljótandi félaga á milli

Höfundur: Kristján Friðbertsson

Í fílaborginni Delfía, innan Pennsylvaníuríkis Bandarík­janna, heimsótti ég þennan garð, sólríkan dag júlímánaðar. Hafandi oft rekist á texta um John Bartram og fjölskyldu hans, fannst mér áhugavert að geta heimsótt garð þeirra.

Ekki skemmir fyrir að hann er talinn elsti upphaflegi grasagarður N-Ameríku. Grasagarðurinn sem slíkur er stofnaður þegar Bartram flytur þangað árið 1728 og hófst þá bygging steinhússins í garðinum, hannað og byggt af John Bartram sjálfum.

Líklega flokkast þetta sem lítill garður, einungis 3,2 ha að flatarmáli, skilgreindur sem grasagarður og trjásafn. Honum tilheyra þó einnig aðrir 16 ha, og þess gætt að halda honum sem garði fyrir allan almenning, með góðri tengingu við nærsamfélagið. Aðgangur er frír, svæðið mjög opið og óformlegt, og fólk hvatt til að koma með fjölskylduna og jafnvel vera með samkomur á svæðinu. Barnaafmæli var einmitt í fullum gangi þegar við heimsóttum garðinn og jók á ánægjuna að sjá hversu mikla tengingu nágrannafjölskyldur hafa við garðinn.

Við Schuylkill-ána eru bátar til siglinga en einnig er blómaræktun á flotpramma sem er fallegt og eflaust vel þegið af flugum og öðrum áhugasömum um litla eyju.

Sýnishorn af grænmetisræktun er til staðar og rétt fyrir utan sjálfan garðinn er svo býflugnarækt til hunangsframleiðslu fyrir hverfin í kring. Svæðið í heild liggur niður að ánni Schuylkill, en meðfram henni er hægt að ganga, hjóla, veiða og sigla, eða bara slaka á og njóta kyrrðarinnar. Einnig er fuglalíf þarna þónokkuð og að sjálfsögðu er garðurinn ekki laus við íkorna. Hefur garðurinn yfir sér ákveðinn afslappaðan sjarma og gaman að sjá samfélagslegu tenginguna við eitthvað svona sögulegt sem hefur hlutverk almenningsgarðs um leið. Eitthvað sérlega notalegt að geta haft svona í hverfinu sínu, en fyrir utanaðkomandi er sennilega lítið þangað að sækja nema að sumri til.

Úr flórnum í flóruna?

Fyrir þá sem þekkja ekki til þá var John Bartram merkur plöntusafnari, landkönnuður og grasafræðingur og rétt að fara leifturhratt yfir helstu atriði lífshlaups hans. Fæddur 1699 í Pennsylvaníu, ólst upp á býli foreldra sinna, snemma heillaður af plöntum og náttúrunni almennt, en ekki síst nytjaplöntum sem tengdust góðri heilsu. Síðar kemur áhugi hans á viðskiptahliðinni, varðandi sölu á plöntum, svo líklega má flokka hann einnig sem viðskipta- eða verslunarmann, eða kannski bara sem góðan bónda.

Meðal hans þekktustu afreka má nefna að hann var stofnmeðlimur, ásamt ekki ómerkari mönnum en Benjamin Franklin og fleirum, í American Philosophical Society. Hann er ekki síður þekktur fyrir ritun ferðasagna sem veittu mjög áhugaverða innsýn í Ameríku þess tíma og skrásettu jafnt ferðalög, samskipti og flóru.

Bartram er oft nefndur faðir amerískrar grasafræði og var einn fyrsti samstarfsmaður hins sænska Kalla Linnulausa (Carls Linnaeus) í N-Ameríku. Sá merki maður gekk það langt að kalla Bartram eitt mesta náttúrutalent grasafræðinga heimsins.

Lítill íkorni laumast til að narta í eitthvað gott í grasi grasagarðsins.

Áskriftarboxarinn Bartram

Bartram var um tíma ein helsta uppspretta Linnaeusar af lýsingum og sýnum úr flóru þessa svæðis enda þá einn helsti fræsafnari amerískrar flóru. Hann uppgötvaði afar mikið af áður óskráðum plöntum í N-Ameríku á ferðum sínum en flestar voru þær nefndar af móttakendum þeirra í Evrópu, þ.á m. Linnaeus.

Bartram sendi plöntur sem honum var fullljóst að voru ólíkar því sem áður var þekkt, tók það jafnvel fram, en eftirlét móttakanda staðfestinguna á því sem og heiðurinn af nafngiftinni. Þær plöntur sem hafa þó verið við hann kenndar má þekkja á orðinu „bartramia“ í latneska heitinu. Með tímanum dró úr samskiptum þeirra Bartrams og Linnaeusar en áætlað er að Bartram-feðgarnir hafi sameiginlega uppgötvað yfir 200 amerískar plöntutegundir.

Söfnunarferðir hans þróuðust yfir í að senda árlega safn fræja og plantna, alla jafna þurrkaðra, til Evrópu í kössum sem hægt var að panta í áskrift og voru kenndir við hann (e. „Bartram´s boxes“). Eins og mörgum er eflaust ljóst var ekki alltaf auðvelt að halda uppi reglulegum sendingum yfir Atlantshafið á þessum tíma og settu m.a. stríð strik í reikninginn. Oftast tókst það þó á endanum, þökk sé alþjóðlegum hópi fólks sem áttaði sig á mikilvægi þess að koma sendingunum á leiðarenda. Um það og margt fleira er fjallað m.a. í ágætis bók sem nefnist „The Brother Gardeners“ eftir Andrea Wulff og óhætt er að mæla með fyrir áhugasama.

Allt ofangreint, en þó sérstaklega síðastnefndir flórukassar, leiddi til þess að hann var skipaður sérlegur konunglegur N-Ameríku grasafræðingur Bretakonungsins Georgs III síðustu 12 ár ævinnar og fyrir vikið áskotnaðist Kew Gardens mikið af fræjum frá honum og fóru sýni einnig til garðanna í Oxford og Edinburgh svo dæmi sé tekið. 

Skilti við eitt af elstu trjám garðsins, talið ræktað úr fræi sem barst þeim undir lok 18. aldar.

Frá Jóni til Jóns

En John er ekki sá eini í fjölskyldunni sem enn er minnst því sonur hans, William, var einnig álitinn mikill náttúrufræðingur, auk þess að hafa ritað ekki síður áhugaverðar sögur af landkönnun sinni og því til viðbótar alger snillingur í teikningum af plöntum og dýrum, sérstaklega fuglum.

Hann hafði fylgt föður sínum í mörgum ferðum hans en gengið illa að koma upp eigin býli. Dag einn (þó ekki B. Eggertsson), árið 1773, tókst honum að sannfæra annan John, Bretann og lækninn, dr. John Fothergill, um að styrkja sig í könnunar- og fræsöfnunarferð. Læknir sá var efnaður og afkastamikill plöntusafnari og byggði sjálfur upp afar merkan grasagarð í London. Eftir honum er nefnd ættkvíslin Fothergilla. Með notkun glerhýsa tókst lækninum að búa til safn sjaldgæfra plantna frá öllum heimshornum og því auðvelt að skilja áhuga hans á ferðalagi Williams.

Krókódílar og andlát

Við tók fjögurra ára ævintýri um Suðurhluta Bandaríkjanna, frá N-Karólínu niður til Flórída og vestur til Louisiana. Eftir að hafa upplifað samskipti við allt frá frumbyggjum til krókódíla, snýr hann til baka til Fíladelfíu um svipað leyti og andlát föður hans ber að, árið 1777. Tekur hann þá yfir, ásamt bróður sínum, John yngri, rekstur plöntustarfseminnar og umsjá garðsins. Um það leyti þroskast starfsemin í fullvaxna gróðurstöð og gefa þeir bræður út fyrsta pöntunarlista amerískra plantna. Starfsemin er rekin áfram af þeim bræðrum, og síðar afkomendum Johns yngri, en síðar meir lætur lestarframleiðandinn Andrew Eastwick æskudraum sinn rætast og kaupir allt af þeim. Það er okkur öllum til happs að Eastwick nær að halda þessu gangandi í gegnum alla uppbygginguna á svæðinu, án þess að byggja sjálfur eða selja.

Ferðalag Williams var einnig vel skjalfest, gefið út á prenti víða um heim og lengi talið eitt helsta náttúrufræðirit síns tíma. Vinsældirnar komu þó ekki síður frá því hversu laginn hann reyndist í því að færa sig frá þeirri köldu samantekt vísindalegra staðreynda sem tíðkaðist þá, yfir í nokkuð rómantískari stíl. Í dag er ritið enn gefið út og gengur undir nafninu „Bartram‘s Travels“ eða einfaldlega Ferðalög Bartrams. Ferðalagið var talið nægilega merkilegt til þess að stofnað var félag um það 200 árum síðar og í dag er slóðinn sem hann ferðaðist eftir einkenndur með nafninu „Bartram Trail“ eða Slóði Bartrams. 

Sérlega vinsæll hjá göngufólki er víst 185 km „spotti“ slóðans sem liggur frá fjöllum N-Georgíu upp til N-Karólínu og eflaust áhugavert fyrir útivistarfólk héðan að flækjast um þær söguslóðir, vilji menn á annað borð tilbreytingu frá hinu fallega landslagi Íslands. Faðirinn náði 78 ára aldri og sonurinn var orðinn 84 ára þegar að andláti kom. Hlýtur að teljast ansi gott hraustleikamerki hjá þeim báðum, á þeim tíma, að ná svo háum aldri. Held þó aftur af mér að fullyrða um of varðandi mikilvægi garðyrkju og plantna fyrir heilsuna að sinni.

Mexíkóska jólamjólkin

Í lokin má draga jólastjörnuna frægu inn í söguna, plöntuna fögru af mjólkurjurtarætt, sem við tengjum svo oft við jólin, Euphorbia pulcherrima. Sú vex á Vesturströnd Mexíkó og var mikið notuð af Aztekum sem litarefni, auk þess að safinn ku hafa verið notaður í tengslum við lækningar. Þó það virðist ljóst að landkönnuðir frá Evrópu hafi rekist á hana í ferðum sínum, virðist hún ekki hafa ratað með þeim í neins konar ræktun í heimalandinu. Það var því bandaríski sendiherrann í Mexíkó, Joel Roberts Poinsett, sem var lengi talinn hafa verið fyrstur til að kynna hana utan Mexíkó, er hann sneri með hana til baka til Bandaríkjanna árið 1830. Þrátt fyrir að vera ekki fyrstur til að finna hana var hún af þessari ástæðu kennd við hann um langan tíma. Jafnt með gamla fræðiheitinu Euphorbia poinsettia og eins því að í dag er hún enn víða kölluð almenna nafninu Poinsettia.

Árið sem Ibsen, Tolstoy og leyndardómsfulli Snæfellsjökuls penninn Jules Verne fæddust var einnig merkilegt í sögu jólastjörnunnar. Árið er 1828 og frændi Bartram-fjölskyld­unnar annars vegar og hins vegar gamall vinur Poinsett, William Maclure, ferðast saman til Mexíkó. Ekki er pláss til að greina frá ferðasögunni hér, en ýmsar plöntur og fræ rak á fjörur þeirra, sem þeir sendu beint frá Mexíkó til gróðrarstöðvar Bartrams. Síðar sama ár snúa þeir til baka úr för sinni og kemur þá Maclure sjálfur með viðbót til gróðrarstöðvarinnar. Á meðal þess sem ferðaðist með þeim til baka, var áðurnefnd jólastjarna.

Robert nokkur Buist staðfestir m.a. í skrifum sínum árið 1828 að hafa séð þessar plöntur í fyrsta sinn á ævinni, einmitt hjá Bartram-fjölskyldunni. Sami maður fékk svo heiðurinn af því að kynna plöntuna áfram fyrir Evrópubúum, ekki síst gegnum tengingar sínar við James McNab hjá Grasagarði Edinborgar. Buist var einmitt áður við læri í Edinborg. Það er því miður sami Buist sem heldur á lofti í Evrópu hinni röngu sögu að plantan hafi fundist fyrir tilstilli Poinsett, vitandi þó sjálfur betur að hún kemur fyrst til Bandaríkjanna gegnum Bartram-fjölskylduna og tengingar hennar. 

Skiptir það máli? Í raun ekki, þó eintök Bartram-garðsins hafi líklega verið fyrstu lifandi plönturnar sem fluttar voru frá Mexíkó og fóru svo í almennilega ræktun þá var plantan vel þekkt í Mexíkó um langa tíð áður. Einnig var hún þekkt í Evrópu upp að vissu marki þar sem nokkrir landkönnuðir höfðu tekið með heim sýni af henni, þó ekki hafi verið um lifandi plöntuvefi að ræða. Meðal þeirra má t.d. nefna hinn merka mann Alexander von Humboldt en hann var ekki einu sinni fyrstur þeirra. Fróðlegt þótti mér engu að síður hversu áhugaverðar tengingar má finna hjá þessari vel þekktu plöntu og að hún skuli þar draga inn Bartram-fjölskylduna. http://bartramsgarden.org/

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...