Veiða og sleppa
Þeir sem haft hafa fyrir því að lesa pistlana sem ég hef ritað í Bændablaðið hafa án vafa orðið þess áskynja að ég hef flest á hornum mér varðandi kvótakerfið, ráðgjöf Hafró og fleira varðandi stefnu stjórnvalda í sjávarútvegsmálum.
Það væri lítið mál í þetta skipti að skeyta skapi sínu á nýjustu tíðindum frá Hafró. Stofnunin leggur til rúmlega 1,2% aukningu í þorski. Hjálpi mér allir heilagir! Þvílík nákvæmni sem vísindin hafa náð!
Nú er genginn í garð tími sumarfría og því ætla ég að láta af hinu hefðbundna háttalagi og fjalla um allt annað þó mér takist nú örugglega að koma einhverju tuði að um fiskveiðistjórnunina. Engu að síður tengist þetta veiðiskap og er eflaust „heitasta kartaflan“ hvað varðar stangaveiðar.
Það er stutt síðan að „Veiða/ Sleppa“ (V/S) var tekið upp á Íslandi, fyrst og fremst við stangaveiðar á laxi og í vaxandi mæli á silungi.
Því fer þó fjarri að V/S sé nýtt af nálinni. Til eru heimildir sem greina frá því að á annað hundrað ár eru síðan farið var að beita þessari aðferð í Bretlandi í tilfellum vatnafiska þegar svo virtist sem þeir ættu á brattann að sækja. Telja verður líklegt að veiðimenn hafi, löngu fyrir þann tíma, talið sér til hagsbóta að drepa ekki allt sem þeir klófestu.
Það er með ólíkindum hversu öfgakennd umræðan hérlendis hefur verið. Annars vegar eru þeir sem fordæma athæfið og kalla þá sem sleppa fiski að lokinni viðureign öllum blótsyrðum sem fyrirfinnast í íslensku orðasafni og hins vegar þeir sem telja það nánast villimennsku að drepa einn einasta fisk veiddan á stöng.
Þeir sem fordæma V/S eru þá væntanlega þeirrar skoðunar að allir fiskar sem menn hafa hendur á skuli drepnir og það valdi minni röskun á lífshlaupi fiskanna en að drepa þá.
Hinn hópurinn sem grætur hvern drepinn fisk, er að mínu mati ekki hótinu skárri. Það eru þessar öfgar sem ég þoli ekki. Allt í hófi best.
Eitt af því sem haldið hefur verið fram er að um hreint og klárt dýraníð sé að ræða þegar fiski er sleppt – þeir séu sárþjáðir, sjokkeraðir og upp til hópa dauðvona eftir að hafa glapst á öngul og barist um. Sem fiskimaður í hartnær hálfa öld, bæði sem atvinnumaður til sjós og „sport“veiðimaður til lands gef ég nákvæmlega ekkert fyrir þennan málflutning. Hann er byggður á yfirgripsmilli vanþekkingu.
Í tilefni allra fullyrðinga þess eðlis að ekkert bíði slepptra fiska annað en dauðinn vil ég taka til tvö dæmi.
- Árið 2008 tók Kristinn Ólafur Kristinsson að sér það verkefni í samvinnu við bændur við Laxá í Aðaldal og Orra Vigfússon (báðir fallnir frá) að festa senditæki í bak 60 hrygna fyrir neðan Æðarfossa. Senditækin gerðu Kristni kleift að fylgjast með ferðum þeirra fram í veturinn. Aðeins ein þessara hrygna drapst, sú fyrsta sem var merkt og Kristinn áttaði sig strax á því hvað fór úrskeiðis. Allar hinar lifðu og hrygndu um haustið.
- Í Sandá í Þistilfirði fór af stað verkefni sama ár sem fólst í því að safna löxum í kistur fyrir neðan Sandárfoss, sem er ólaxgengur, tæpa 10 km frá sjó. Fyrir ofan foss er u.þ.b. 20 km búsvæði þar sem urriðar á stangli ráða ríkjum. Á árabilinu 2008 –2020 var 302 löxum safnað í þar til gerðar kistur fyrir neðan fossinn og fluttir á svæðið fyrir ofan. Aðeins einn lax drapst í kistu, sá eini sem var með maðköngul í kokinu.
V/S er stundað í fiskveiðum úti um allan heim. Þeir sem hafa fylgst með sjónvarpsþáttum á National Geographic á borð við „Deadliest Catch“ og „Wicked Tuna“ sjá veiðimennina henda hluta aflans í hafið í nafni þess að veiða betur síðar. Af sjónvarpsþáttunum að dæma er ekki að sjá að þeir líti á þetta sem tækifæri til að fá útrás fyrir annarlegar hvatir til að níðast á fiskum né kröbbum.
Reyndar er það svo að flestar ef ekki allar veiðar á skelfiski í heiminum eru háðar stærðartakmörkum. Hringinn í kringum hnöttinn er að finna reglur sem skylda veiðimenn til að sleppa fiskum, skeldýrum og fleiri sjávardýrum undir tilteknum stærðarviðmiðunum eða kyni.
Það er svo annað mál hvort þetta sé ætíð það skynsamlegasta í stöðunni. Í því sambandi bendi ég á grjótharða stefnu Hafró til áratuga (allt frá „Svörtu skýrslunni“ 1972) að vernda beri smáfisk með öllum ráðum svo veiða megi þá stóra nokkrum árum síðar.
Það vantar ekkert upp á að í áratugi hefur skyndilokunum verið beitt, hólfum lokað og veiðarfærum breytt með reglugerðum. Árangurinn er glæsilegur! Við erum að veiða mun minna af þorski í dag en í upphafi kvótakerfisins árið 1984.
Hin stóra spurningin varðandi V/S er siðferðileg.
Hvers konar hegðun veiðimanna er það eiginlega að draga fisk á land og sleppa honum?
Er ekki markmiðið með veiðum að skaffa í matinn, drepa og draga björg í bú? Vissulega og í fiskveiðum heimsins er það höfuðreglan.
Mér er í fersku minni hversu ókvæða ég brást við þegar ég fyrst heyrði af þessu V/S „kjaftæði“. Þvílíkt óeðli! Til hvers að veiða fisk og sleppa honum!? Ég gætti þess reyndar ekki að líta sjálfum mér nær.
Ég veiddi minn fyrsta lax árið 1976 og hef frá þeim tíma veitt rúma 1.000 laxa. Svo vildi til árið 1980 að ég veiddi vel á Staðartorfunni í Laxá í Aðaldal og lét Kristján heitinn, bónda á Hólmavaði vita af því. Ástæðan var sú að ég hafði frétt að illa gengi að ná í klakfisk fyrir Norðurlax, seiðaeldisstöðina við Laxamýri. Úr varð innileg vinátta og til margra ára skaffaði ég fiska í þetta verkefni bænda. Ég komst jafnframt að því að ég hafði mun meiri ánægju af því að vita af fiskunum sem ég veiddi lifandi en ekki í plastpoka í frystikistunni.
Ég hef áratuga reynslu af því að eiga fleiri laxa í frystikystunni að vori en ég hef not fyrir. Hvort er siðlegra? Að safna meiru en maður nýtir eða sleppa hluta aflans?
Sú hæfni mannsins að safna upp reynslu og þekkingu forveranna leiddi til hjarðbúskapar. Þetta er ein stórtækasta umbreytingin í framvindu mannkynssögunnar.
Í stað þess að einstaka veiðimenn færu út á mörkina í leit að bráð áttuðu forfeður okkar sig á því að hægt var að brjóta vilja tiltekinna dýrategunda til undirgefni. Svín, geitur og sauðfé lágu beinast við og fjölmargar dýrategundir fylgdu í kjölfarið.
Fiskimenn nútímans eru í raun að fylgja sama mynstrinu. Þeir eru að færast á stig bóndans, þ.e. að nýta/ drepa hluta hjarðarinnar en láta hinn hluta hennar lifa til uppskeru morgundagsins.
Dæmið sem Íslendingum er nærtækast er sauðfjárbúskapur. Bændur reka fé síðla hausts til byggða og færa lömbin frá til slátrunar. Þeir „veiða“ rollur og lömb á fjalli en sleppa umtalsverðum hluta „veiðinnar“ við akstur í sláturhúsið.
Eru bændur með þessari hegðan að stunda níðingshátt gagnvart skepnunum? Varla. Ég þekki engan bónda sem hefur af því ánægju að færa í sundur. Það mætti frekar segja mér að þeir gleðjist fyrir hönd þeirra lamba sem fá að lifa. Er hegðan fiskveiðimanna, sem sleppa hluta af því sem þeir veiða eitthvað frábrugðin hegðan bændanna?