Verðlagsgrunnur mjólkur og skekkjurnar sem í honum finnast
Nýlega var birtur nýr verðlagsgrundvöllur mjólkurframleiðslu, sá annar á þessu ári. Birtir hann verðlagningu á aðföngum, þjónustu og öðrum nauðsynlegum rekstrarliðum fyrir mjólkurframleiðendur.
Þessi grunnur er síðan forsenda breytingar á heildsöluverði mjólkur en það verð er ákveðið af verðlagsnefnd búvara ársfjórðungslega, beint í kjölfar uppfærslugrunnsins.
Í kostnaðarliðnum eru mældar verðbreytingar á 11 kostnaðarliðum mjólkurbús, allt frá áburði yfir í laun, og inniheldur hver kostnaðarliður tvo til fimm undirliði.
Allt í allt 44 mælingar sem taka mismiklum breytingum á milli uppfærslna.
Í nýjustu útgáfunni, 1. júní 2023, var tilkynnt að rekstrarkostnaður þess bús sem miðað er við, 40 kýr með geldneytum, hafi hækkað um 1% frá síðustu útgáfu. Í hækkunum munar mest um hækkun launa, 3% á milli fjórðunga sem samsamar rétt rúmlega 600.000 króna hækkun fyrir býlið á ársgrundvelli, auk 80.000 króna hækkun á launatengdum gjöldum. Mesta lækkunin er á kjarnfóðri, lækkun upp á rétt tæplega 180.000 krónur.
Eftir þessa tæplega 700.000 króna hækkun á launum og launatengdum kostnaði eru laun á kúabúi áætluð 24,1 milljón á ári, eða um milljón á mánuði fyrir tvo starfsmenn. Er sú upphæð ekki í samræmi við niðurstöður rekstrarverkefnis RML sem sýndi fram á að launakostnaður meðalbús árið 2021 voru aðeins um 11,5 milljónir árið 2021, auk 1,4 milljóna í hagnað af rekstri. Hafi þau laun og hagnaður haldist í við þróun launavísitölu frá upphafi árs 2021 og til júní 2023, ættu þau að vera 18.450.000 á ári.
Töluverður munur þar en við það má einnig bæta að meðalbúið árið 2021 hafði 59 kýr en ekki 40 eins og verðlagsgrunnurinn gerir ráð fyrir þannig ekki er aðeins að vinna fyrir lakari kjör en gert er ráð fyrir í endursöluverði vörunnar, heldur er vinnuframlag þeirra einnig að meðaltali meira.
Aðrir liðir verðlagsgrunnsins eru einnig oft á skjön við það sem margir kúabændur segjast þekkja úr sínum rekstri. Þessar breytur hafa leitt til þess að mörgum þykir kostnaður, sér í lagi fjármagnskostnaður og afskriftir, vera vanmetinn í grunninum. Árið 2001 var metið að meðalverðmæti húsa sem nýtt eru til mjólkurframleiðslu ætti að vera 22,4 milljónir og véla væri 18,4 milljónir. Síðan þá hefur þetta verð verið uppreiknað með tilliti til byggingavísitölu annars vegar og gengisvísitölu Seðlabanka Íslands hins vegar. Í enda árs 2022 var meðalvirði húsnæðis samkvæmt verðlagsgrunninum rétt rúmlega 80 milljónir og meðalvirði véla 31,2 milljónir.
Ef virði véla væri hins vegar uppreiknað með verðvísitölu innflutnings á annaðhvort framleiðsluvörum eða véla og samgöngutækja, sem margir myndu áætla að væri réttari samanburður, væru vélar metnar tvöfalt verðmætari í verðlagsgrunninum, rúmlega 60 milljónir í stað 31 milljónar, og afskriftir og vaxtakostnaður í samræmi við það. Þykir það vera nær því sem gerist í raun.
Samband verðlagsgrunnsins og mjólkurverðs helst ekki alltaf í hendur heldur er það í höndum verðlagsnefndar búvara að taka ákvörðun um verðhækkanir. Eins og sést á grafi hérna sem ber saman þróun kostnaðar í verðlagsgrunni og verðlagsvísitölu mjólkurverðs, hækkar verð stundum meira en hækkun grundvallarins. Vert er þó að hafa í huga að verðlagsvísitala mjólkur mælir verð á mjólk út í búð og því eru fleiri þættir sem hafa áhrif á hana en ákvarðanir verðlagsnefndar. Frá byrjun árs 2010 hefur verð á mjólk útí búð þó hækkað meira en kostnaður mjólkurframleiðenda eins og hann kemur fram í grundvellinum. Fyrir hvert prósent sem framleiðslukostnaður hækkar samkvæmt verðlagsgrundvelli hefur verð á mjólk hækkað um 1,29%. Þar sem mat grundvallarins er ekki alveg í samræmi við upplifun bænda, og það svo stutt með gögnum úr rekstrarverkefni RML, væri óeðlileg krafa að verð á mjólk myndi til lengri tíma haldast algjörlega í hönd við kostnað eins og hann er reiknaður í verðlagsgrundvellinum.
Nú er verið að vinna að nýjum verðlagsgrunni og ber því að fagna. Ljóst er að núverandi útgáfa sýnir skakka mynd af rekstri búa og afkomu bænda og ekki er réttlátt að eingöngu sé tekið mið af honum í ákvörðunum sem hafa bein áhrif á störf og lífsgæði kúabænda.