Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Jarðvegur er í raun magi plantna og yfirborð jarðvegs munnur hennar.
Jarðvegur er í raun magi plantna og yfirborð jarðvegs munnur hennar.
Á faglegum nótum 5. desember 2023

Verður bóndinn læknir framtíðarinnar?

Höfundur: Cornelis Aart Meijles, ráðgjafi hjá RML,cam@rml.is.

Tilhneiging okkar til að trúa því að meira sé betra leiddi til þess að við fórum að líta á hitaeiningar sem einhvers konar staðgengil fyrir næringu.

Við viljum alltaf rækta fleiri og helst stærri kartöflur undir einu grasi, stærri epli, stærri tómata, fleiri og stærri hveitikorn á hverju strjái og meiri mjólk og jafnframt meira kjöt frá hverri kú. Bóndinn fær jú greitt fyrir magn afurða sinna í kílóum, ekki innihaldi næringarefna.

Við erum með þessum hætti í raun að blekkja okkur sjálf og vanrækja heilsu okkar.

Hvað er næring?

Við innbyrðum sífellt fleiri hitaeiningar til að fá sama magn af okkar öðrum nauðsynlegum næringarefnum á borð við vítamín, snefilefni og prótín. Smám saman erum við þó að vakna til vitundar og að komast að því að það er meira sem þarf að huga að varðandi heilsuna en að borða nægar hitaeiningar. Í lögbundnum næringaryfirlýsingum á pökkuðum matvælum eiga a.m.k. að koma fram eftirfarandi atriði en þau beinast oft aðallega að orku og orkuefni:

Stöðluð lágmarks innihaldslýsing á pökkuðum matvælum. Heimild / Mast.is

Vítamín og steinefni eru oft kölluð „örnæringarefni“ sem endurspeglar að við þurfum á þeim að halda í litlu magni. Og þó svo að við þurfum kannski ekki mikið af frumefninu kopar, til dæmis, þá er það lykilatriði í starfsemi ónæmiskerfisins okkar. Samt getum við ekki borðað málmgrýti, hráan málm eða smáaura. Við verðum að fá kopar í gegnum næringuna. Án kopars eða annarra örnæringarefna, eins og sinks, járns, mangans og selens, verður heilsunni fórnað fyrir þjáningu. Á heimsvísu er næringarskortur nú algengari en ófullnægjandi hitaeiningar. Járnskortur hrjáir um tvo milljarða manna. Sinkskortur hefur áhrif á að minnsta kosti fimmtung mannkyns. En hvernig komumst við að því hversu mikið af örnæringarefnum eru í matvælum sem við kaupum?

Um 400 f.Kr. sá læknirinn Hippókrates samhengið milli mataræðis og heilsu manna. Honum var ljóst að skilningur á því hvað maðurinn borðar og hvernig matvæli verða til, er nauðsynlegur til að átta sig á því flókna samspili og viðkvæma jafnvægi sem ákvarðar hvernig heilsa manna verður. Hollt fæði væri skilvirk vörn gegn veikindum og sjúkdómum.

Bændur vilja helst vera við stýrið

Nútímalandbúnaðaraðferðir byggja að verulegu leyti á mikilli jarðvegsvinnslu, notkun á (innfluttum) tilbúnum áburði og varnarefnum.

Einnig hafa markvissar kynbætur nytjaplantna og búfjár fyrst og fremst verið miðuð að meiri uppskeru og einsleitum afurðum sem hægt er að uppskera og vinna með vélrænum hætti. Eftir uppskeru liggur akurinn gjarnan ber fram að næstu sáningu, sem sagt stóran hluta ársins.

Plógurinn er tvíeggjað sverð fyrir bændur og jarðveginn. Hann er frábært tæki til að undirbúa jarðveginn fyrir sáningu eða gróðursetningu, bæta vatnsbúskap og hefta illgresi.

Í reynd gerir jarðvinnsla vatni erfiðara fyrir að síast niður í jörð vegna þess að plógurinn brýtur náttúrulegar rásir sem flytja vatn niður í jarðveginn – göng, krókar og kimar. Plæging malar jarðveginn og myndar þannig duftlíkt yfirborð sem verður að harðri skorpu eftir miklar rigningar. Regnvatnið á erfiðara með að síga niður í slíkan jarðveg. Súrefni úr andrúmsloftinu kemst síður inn í hann og sömuleiðis koltvísýringur upp úr honum, þannig að jarðvegurinn súrnar. Plógurinn drepur ekki einungis orma en sneiðir líka í gegnum umfangsmikið net sveppaþráða og rótarlíkra hnýða og skrúfar þannig fyrir allt sem streymir í gegnum þau – steinefni, vatn og önnur efnasambönd sem gagnast plöntum sem þau búa í samlífi með. Og þegar flög eru látin liggja ber eftir uppskeru getur jarðvegur hlaðinn áburði fokið burt sem og skordýraeitur með tilheyrandi umhverfisskaða annars staðar.

Landbúnaði hefur tekist að halda framleiðslunni í takti við fjölgun jarðarbúa þökk sé tilkomu tilbúins áburðar. Justus von Liebig (1803– 1873) er talinn vera upphafsmaður tilbúins áburðar snemma á 20. öld. Með rannsóknum sínum leysti hann úr læðingi sannkallaða efnabyltingu í jarðveginum. Nokkru seinna á lífsleiðinni skildi hann og viðurkenndi þó, að plöntur lifa ekki einungis á einfaldri næringu (köfnunarefni, fosfati, kalí) heldur að 

„löglegt samband er á milli allra fyrirbæra í ríki steinefna, plantna og dýra, svo að ekkert eitt fyrirbæri standi eitt og sér heldur sé alltaf tengt ..., eins og bylgjuhreyfing í hringrás.“

Þetta er merkileg tilvitnun sem lesa má í bókinni hans, Leitin að hringlaga landbúnaði. Farið var að gera tilraunir með tilbúinn áburð hér á landi seint á 19. öld þótt ekki væri farið að nota hann hjá bændum fyrr en á 20. öld, þó lítið fyrir 1920.

Tilbúinn áburður dregur úr virkni sveppa og baktería í jarðvegi, sem kemur í veg fyrir afhendingu þeirra á örnæringarefnum sem eru mikilvæg fyrir næringu plantna og þar með heilsu ræktunar og búfjár – og fólks. Lengi hefur verið deilt um kosti og galla köfnunarefnisáburðar, oft af mikilli ástríðu. Talsmenn hefðbundinna aðferða benda oft á meiri uppskeru og stökkva beint í rökin „án-efna-áburðar-munum- við öll-svelta“. Áburðarefni sem bændur bera á eru frekar illa nýtt. Stór hluti niturs t.d. skolast burt eða rýkur og skilar sér þar af leiðandi ekki í afurðir.

Notkun á tilbúnum áburði hefur í för með sér að lífræn efni í jarðvegi brenna upp, líffjölbreytileiki minnkar og jarðvegslífið undir fótum okkar sveltur.

Þó að tilbúinn áburður hafi haldið uppskeru nógu mikilli til að við horfum framhjá vandamálinu við að minnka lífrænt efni í jarðvegi, skiljum við nú betur afleiðingarnar. Sveltandi örverusamfélög í jarðvegi takmarka getu þeirra til að skila lykilörnæringarefnum og öðrum gagnlegum efnasamböndum til plantna. Víðtæk jarðvegsrýrnun varð til þess að bændur notuðu – og treystu algjörlega á – efnafræðilegan áburð sem og skordýraeitur sem þróuð voru til að drepa skordýr, illgresi og sveppi. Þessar nýju vörur juku uppskeruna svo mikið að „gamaldags“ ræktunaraðferðir sem einu sinni héldu frjósemi í jarðvegi eru vanræktar, settar til hliðar eða yfirgefnar. Heimurinn virðist vera upptekinn af uppskeruþráhyggju og bændur eru margir hverjir fastir í vítahring nauðsynlegrar hagræðingar og þörf á sífellt meiri uppskeru til að halda rekstrinum gangandi.

Nærðu jarðveginn, ekki plöntuna

Heilbrigði jarðvegs takmarkast ekki við magn auðleysanlegra næringarefna sem plöntur geta tekið upp eins og margir halda en er flókið samspil efnisfræðilegra, eðlisfræðilegra og líffræðilegra þátta.

Planta er bundin við þann stað sem hún vex á. Hún getur ekki fært sig til í leit að næringu og er því háð því rótarkerfi sem hún hefur myndað. Segja má að jarðvegur og rótarkerfi séu í raun magi plantna. Það þýðir að stærð og virkni rótarmassa plantna hefur mikil áhrif á heilsu hennar og vörn gegn sjúkdómum.

Heilbrigður jarðvegur, sem er ríkur af moldarefni (e. humus) er iðandi af lífi og getur skilað heilbrigðum afurðum sem innihalda öll okkur nauðsynlegu næringarefni og það í réttum hlutföllum, og leikur með því stórt hlutverk í að viðhalda heilsu okkar.

Næringargildi matvæla hefur hrapað

Í Bretlandi og Bandaríkjunum fara fram reglulegar athuganir á efnainnihaldi matvæla. Lesa má úr þessum heimildum, sem spanna nokkra áratugi, að innihald af tilteknum vítamínum og okkur nauðsynlegum snefilefnum í helstu matvælum sem við neytum –
grænmeti, kornmeti, mjólkurvörum og kjötmeti – hefur snarminnkað á síðustu öld, sum þeirra jafnvel meira en 40%.

Í dag þarftu semsagt að borða fleiri en eitt epli á dag til að ́keep the doctor away ́. Margir af þeim krónísku sjúkdómum og kvillum sem hrjá okkur í dag eru tengdir mataræði. Ein aðalorsök langvinnra heilsukvilla í dag er ofþyngd eða offita. Eru skilaboðin þá þau að næringarskortur og leifar af eiturefnum sem finna má í mörgum matvælum sé einfaldlega verðið sem þarf að greiða fyrir sífellt aukna uppskeru í nútímalandbúnaði?

Kannski liggur svarið í því að leyfa plöntum betur að flytja steinefni úr jarðvegi yfir í ræktun frekar en að neyta meira matar sem er minna næringarríkur og getur auðveldlega leitt til offitu. Það felur í sér nýja nálgun sem er þörf varðandi hvernig matur okkar verður til og sem má í stuttu máli orða þannig: „Nærðu jarðveginn, ekki plöntuna.“

Nýjar ræktunaraðferðir

Það er full ástæða að við förum að endurhugsa nútíma ræktunaraðferðir. Hér má meðal annars horfa til lífrænnar ræktunar og landbúnaðar sem byggist á henni. Mikilvægur liður í umskiptingunni er að efla rannsóknir um mögulegar leiðir fyrir bændur að notfæra sér, á markvissan hátt, mátt náttúrunnar við ræktunina sína. Víðs vegar í heiminum eru bændur að leggja plógnum sínum með það að markmiði að hlúa að jarðvegslífi og spara um leið vinnu og eldsneyti.

Að lágmarka jarðvinnslu, rækta frekar fjölær yrki en einær og að draga úr notkun kemískra næringar- og varnarefna eru einnig öflugar leiðir fyrir bændur til að geta notfært sér betur krafta náttúrunnar. Með þessum aðgerðum má byggja upp fjölbreyttari sveppasamfélög sem stækka í raun rótarkerfi plantna og þar með upptökugetu næringarefna, auka heilbrigði plantna og vörn þeirra gegn sjúkdómum. Og gefa af sér næringarríkari uppskeru.

Svo að bóndinn geti orðið hinn raunverulegi “læknir framtíðarinnar“.

Innihald tiltekinna steinefna og vítamína í nokkrum grænmetistegundum á árunum 1985, 1995 og 2002.
Heimild: Pharmaceutical Company Geigy, Switzerland: Food laboratory Karlsruhe/Sanatorium Oberthal

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...