Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Almannagæði og kolefnissamlag
Mynd / smh
Skoðun 2. júlí 2021

Almannagæði og kolefnissamlag

Höfundur: Kári Gautason

Það er hinn versti misskilningur að markaður eigi að stýra stóru og smáu í lífinu. Markaðurinn er fyrst og fremst gagnlegur þar sem aðilar með góða yfirsýn hafa eitthvað til þess að skiptast á og verðleggja í samskiptum.

Nokkuð hefur verið um það skrafað að í hinu nýja mælaborði landbúnaðarins sé hægt að fá yfirlit yfir flest það sem bændur framleiði.

Satt er og rétt að þar er hægt að fletta upp framleiðslu á ýmsum kjöttegundum og grænmeti. Mjólkina vantar þó inn í. Og það vantar öll önnur verðmæti sem verða til hjá bændum. Það vantar yfirlit yfir almannagæðin: Búseta hringinn í kringum landið, slegin tún og bleikir akrar. Rauð þök og hvítir veggir. Skógar og skjólbelti. Uppgræðsla og menning. Hestamaðurinn á fljúgandi skeiði við hringveginn að sumarkvöldi. Allt eru þetta almannagæði og fyrir þetta fá bændur stuðning í formi almannafjár.

Sköpun almannagæða

Síðustu vikur hefur verið farinn fundahringur um landið, þar sem landbúnaðar- og sjávar­útvegs­ráðherra hefur rætt „Rækt­um Ísland“ – við bændur og aðra áhugasama. Með ráð­herra í för voru höfundar skýrsl­unnar. Umræðuskjali þessu er ætlað að mynda grunn fyrir samninga við bændur um næstu búvörusamninga. Talað er um mikilvægi þess að nýta sem mest og best land­kosti á hverjum stað til hvers kyns verðmætasköpunar, án þess að gengið sé á gæði landsins. Þessi stefna – um fjölbreytta verðmætasköpun er nokkuð áhugaverð nálgun. Víða í kringum okkur, í löndum Evrópusambandsins og núna í Bretlandi eftir að þeir gengu úr tollabandalaginu, hefur þróunin verið sú að aftengja stuðning við framleiðslu á vörum en tengja þess í stað styrki til bænda við sköpun ákveðinna almannagæða. Þessi almannagæði eru stundum skilgreind sem byggðalandslag eða líffræðilegur fjölbreytileiki, nú eða þá að draga úr notkun áburðarefna vegna mengunar. Ástæðuna fyrir breytingunni er að leita í smjörfjöllum og vínvötnum níunda áratugarins, þegar offramleiðsla gerði það óhjákvæmilegt að breyta kerfunum.

Kaupa skal meiri bindingu

Hvað flokkast sem almannagæði er einfaldlega samkomulag hverju sinni – ákvörðun sem í eðli sínu er pólitísk en byggir á almennum stuðningi. Sú mynd sem dregin er upp af stjórnvöldum í „Ræktum Ísland“ er að það þurfi að kaupa meira af umhverfislegum almannagæðum af bændum. Það helgast einkum af metnaðarfullum markmiðum í loftslagsmálum. Þau gera ráð fyrir að eyjan okkar verði kolefnishlutlaus eftir nítján ár. Það markmið mun ekki nást nema bændur stórauki kolefnisbindingu á sínum vegum. Bændur hafa sjálfir sett sér umhverfisstefnu og ætla ekki að liggja á liði sínu í að ná árangri. Helsti vandinn er að byrja – og þar eiga stjórnvöld hlutverki að gegna með því að gefa rennistart og sjá til þess að hagrænir hvatar séu til staðar.

Samlag verði til um kolefni

Kolefnisbinding í stórum stíl er fjármagnsfrek og verður ekki framkvæmd með hugsjóninni einni saman. Valkvæðir kolefnismarkaðir hafa rutt sér til rúms í nálægum löndum. Þar er um að ræða leiðir fyrir fyrirtæki, sem vilja draga úr kolefnisfótspori sínu, að greiða fyrir bindingu. Í slíku fyrirkomulagi felast tækifæri fyrir íslenska bændur. Til þess að grípa þau tækifæri þurfa bændur að eignast markaðstorg. Torg sem tengir þá saman sem vilja kaupa bindingu við þá sem geta komið henni í framkvæmd. Þetta er í eðli sínu ekki ólíkt því sem gerðist þegar bændur stofnuðu afurðafélög um sölu á kjöti og mjólk. Framfaramenn á fyrri hluta tuttugustu aldar sáu sem var að saman gætu bændur náð bestum samningum um sölu á sínum afurðum. Það hygg ég að sé einnig framtíðin með bindingu.

Með því að koma upp kolefnissamlagi mætti koma verði á þau almannagæði sem binding á kolefni eða samdráttur á losun eru. Fordæmin spretta upp um allar koppagrundir þessi misserin. Í Sviss geta fyrirtæki til dæmis keypt einingar sem felast í því að kúabú gefa gripum efni sem draga úr metanlosun. Svipaða sögu er að segja frá Bandaríkjunum. Hér á landi eru nú þegar til ákveðin markaðstorg, Votlendissjóður og Kolviður. En þau skortir aðföngin sem bændur eiga – það er að segja jarðirnar.

Aðkallandi verkefni

Ég tel að bændur geti byggt upp öfluga hliðarbúgrein í formi kolefnisbúskapar á næstu árum. Þeir geta boðið upp á mikilvæg gæði til þess að skiptast á við stjórnvöld og fyrirtæki og verðleggja í skynsamlegum sam­­skiptum. Kolefnissamlag bænda og markaðsrammi af hálfu stjórnvalda eru aðkallandi verkefni í þágu almannagæða og sjálf­bærni í loftslagsmálum.

Kári Gautason
sérfræðingur hjá BÍ

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir
Skoðun 12. desember 2024

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir

Kvenfélag Akrahrepps var stofnað 20. desember 1919 af bjartsýnum stórhuga konum.

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það
Skoðun 9. desember 2024

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það

Ég fletti Bændablaðinu eins og venjulega. Þar er síðustu misserin mikið skrifað ...

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...