Betur má ef duga skal
Til að reka þjóðfélag með skilvirkum hætti er lykilatriði að samgöngur séu greiðar og allir innviðir vegakerfis, flugvalla og hafna séu eins góðir og mögulegt er. Það á líka við heilbrigðiskerfið, löggæslu og skóla. Ef þessir hlutir eru í lagi á að vera hægt að tryggja skilvirkni og hámarks arðsemi af allri starfsemi þjóðfélagsins. Því miður hefur hver úttektin af annarri sýnt að þessir hlutir eru bara alls ekki í lagi.
Í úttekt ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey er íslenski Landspítalinn borinn saman við háskólasjúkrahúsið í Umeå í Svíþjóð og Karolinska háskólasjúkrahúsið þar sem þeim svipar til hans en á ólíkan hátt. Landspítalinn, sem nú er rekinn sem háskólasjúkrahús, sogar stöðugt til sín aukið fjármagn og á sama tíma berast látlausar fréttir af vandamálum við reksturinn og að hann nái að sinna sínu hlutverki.
Kemur m.a. fram í skýrslu McKinsey að afköstin hjá Landspítalanum eru minni en áður þó stöðugildin séu fleiri og kostnaður meiri. Í ráðleggingum McKinsey segir m.a. að Landspítalinn þurfi að skilgreina skýrar mælieiningar og setja sér markmið með tilliti til framleiðni. Bregðast þurfi við fráflæðivandanum með því að bæta ferla innan sjúkrahússins.
Varðandi samgöngukerfið þá er vandinn gríðarlegur þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á að ekki skortir tekjuinnstreymið t.d. af notkun þjóðvegakerfisins. Um árabil hafa skattar á innflutning og notkun bíla skilað ríkissjóði um og yfir 80 milljörðum króna. Aðeins hluti af heildartekjum ríkisins af bílum og umferð fer í nýbyggingu og viðhald vegakerfisins. Sem dæmi var áætlað að verja 29 milljörðum í endurbætur og viðhald á vegakerfinu á árinu 2019 og 30 milljörðum á árinu 2020. Á árinu 2021 er talað um að veita 27 milljörðum í þennan málaflokk. Þetta eru 86 milljarðar á þrem árum. Það þýðir að af skatttekjum vegna umferðarinnar á þremur árum er verið að nota tekjur sem svara nokkurn veginn innkomu eins árs og eftir standa 154 milljarðar króna af umferðartekjunum sem renna þá til annarra verkefna ríkisins.
Í nýlegri skýrslu Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafarverkfræðinga er staðfest að mikið vantar upp á að ríkið sé að sinna viðhaldi og uppbyggingu innviða samgöngukerfisins.
Vegakerfið á Íslandi er um 26.000 kílómetrar að lengd. Þar af eru þjóðvegir um 12.900 km og sveitavegir um 12.800 km. Samgöngukerfið samanstendur síðan af vegakerfi, flugvöllum og höfnum. Endurstofnverð þessa kerfis er metið á 1.525 milljarða króna.
Til að viðhalda samgöngukerfinu þarf að verja miklum fjármunum á hverju ári. Ef það er ekki gert, eins og raunin hefur verið í fjölmörg ár, þá drabbast kerfið niður og grunnstoðir eyðileggjast. Þegar svo farið er í viðhald allt of seint verður kostnaðurinn oft margfalt meiri en hann þyrfti að vera. Án viðhalds minnkar skilvirkni í framleiðslu þjóðarbúsins þar sem öruggir flutningar um vegina eru oft lykilatriði.
Í skýrslu SI segir að ónóg fjárfesting í innviðum hér á landi hefur valdið því að ástand þeirra er víða óviðunandi og uppsöfnuð fjárfestingarþörf er talsverð. Að meðaltali fá innviðir sem skýrsla þessi nær til ástandseinkunnina 3 en einkunnagjöfin er á bilinu 1 til 5 þar sem 1 er lægsta einkunn og 5 sú hæsta. Þetta myndi teljast falleinkunn í öllum venjulegum skilningi. Það er alveg ljóst að ef það hefur einhvern tíma verið lag til að taka betur á í þessum efnum, þá er það núna meðan íslenska ríkið nýtur sérlega lágra vaxtakjara. Það er með öllu óafsakanlegt að nota ekki þetta tækifæri.