Breytt matvælaumhverfi á Íslandi og afleiðingar óveðurs
Ágætu lesendur. Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir samfylgdina á því sem nú er liðið.
Talsverð umræða var á síðastliðnu ári um yfirvofandi innflutning á fersku ófrosnu kjöti og eggjum frá löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Hæstiréttur og EFTA-dómstóllinn höfðu áður komist að þeirri niðurstöðu að íslensk stjórnvöld hefðu brotið gegn EES-samningnum með innflutningstakmörkunum. Ýmsir sérfræðingar fjölluðu ítarlega um málið og lýstu áhyggjum sínum, rétt eins og bændur sem bentu á þau neikvæðu áhrif sem innflutningur á hráu ófrosnu kjöti og eggjum gæti haft fyrir heilsu dýra og manna.
Um áramótin varð innflutningurinn leyfilegur og við verðum að horfast í augu við breytt umhverfi matvæla á Íslandi. Aðgerðaráætlun, sem ætlað er að tryggja matvælaöryggi, vernda búfjárstofna og efla samkeppni innlendrar framleiðslu, er að hluta komin til framkvæmda en vinna í öðru er mislangt á veg komin. Meðal aðgerða er átak um betri upplýsingar til neytenda um uppruna matvæla og íslenskar upprunamerkingar. Starfshópur landbúnaðarráðherra mun á næstu mánuðum skila tillögum þar að lútandi.
Sýklalyfjaónæmi er alvöru mál
Baráttan gegn sýklalyfjaónæmi er liður í aðgerðaáætlun ráðherra og þar eru tveir vinnuhópar að störfum. Í nýlegri frétt á vef atvinnuvegaráðuneytisins segir að stefnt sé að því að Ísland verði í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Þar er sagt frá því að stofnun Sýklalyfjaónæmissjóðs sé langt á veg komin en honum er m.a. ætlað að tryggja fjármögnun vegna skimunar og vöktunar á sýklalyfjaþoli í dýrum, matvælum, fóðri, áburði og sáðvöru. Auk þess á sjóðurinn að fjármagna vísinda- og grunnrannsóknir á sviði sýklalyfjaónæmis.
Göngum á eftir upplýsingum um uppruna matvæla
Það er mjög mikilvægt að landsmenn séu vel upplýstir um þær breytingar sem nú verða við innflutning á hráu ófrosnu kjöti og eggjum. Við erum öll neytendur hvort sem við erum verslunarstjórar, alþingismenn, bændur eða sérfræðingar. Neytendur eiga ekki að hika við að spyrja um uppruna matvöru, lesa sér til um innihaldsefni og leita annarra upplýsinga sem er að finna á merkingum. Við eigum öll rétt á að vita hvað það er sem við látum ofan í okkur. Íslenskir bændur vilja að upplýsingar og merkingar á matvælum séu greinargóðar og aðgengilegar. Það þýðir að letur sé í læsilegri stærð og enginn eigi að þurfa að taka kaupákvörðun án þess að geta fengið réttar upplýsingar. Við viljum enn fremur hvetja neytendur til að ganga eftir upplýsingum þar sem þær skortir, hvort sem um er að ræða innlenda eða erlenda vöru.
Eftirmál óveðurs
Sérstakur átakshópur var settur á fót á vegum fimm ráðuneyta í kjölfar óveðursins á Norðurlandi 10.–11. desember sl. og er það vel. Aftakaveðrið olli bæði fjarskipta- og rafmagnsleysi og varði það sums staðar í marga daga samfleytt. Hópnum er ætlað að skoða þessi mál ásamt dreifikerfi RÚV og fleira. Við þurfum á því að halda að geta verið í sambandi við umhverfið í kringum okkur, vitað hvað er að gerast og hvers ber að vænta. Það er erfitt að setja sig í þau spor, sitjandi við tölvuna með kaffibollann og símann sítengdan að hafa ekkert samband við umheiminn og vita ekki einu sinni af næsta nágranna. Taka þarf tillit til breytts tíðarfars og veðurfars og meta þá grunninnviði í flutningi og dreifikerfi raforku og fjarskipta sem við treystum á að séu til staðar. Öll erum við mjög háð rafmagni og fjarskiptum. Við þurfum að læra af þessu veðri og gera áætlanir um allt land til að vera sem best í stakk búin til að takast á við viðlíka aðstæður, ofsaveður eða aðrar náttúruhamfarir.
Bændur urðu fyrir umtalsverðu tjóni
Afleiðingar óveðursins eru ekki allar komnar í ljós. Tjón á girðingum skýrist þegar snjóa leysir en viðbúið er að það sé verulegt um mestallt norðanvert landið. Afurðatap hjá kúabændum vegna rafmagnsleysis varð víða en afleiðingar þess þarf að meta til lengri tíma. Talsvert gripatjón varð í óveðrinu, einkum á hrossum í Húnavatnssýslum.
Bændasamtök Íslands hafa óskað eftir því að átakshópurinn fjalli einnig um leiðir til að mæta því tjóni sem bændur urðu fyrir í óveðrinu. Tryggingar á almennum markaði ná ekki yfir ofangreind tjón en við sambærilegar aðstæður hafa stjórnvöld jafnan brugðist sérstaklega við. Ástæða er til að hvetja bændur til að halda vel utan um allar upplýsingar um tjón af völdum óveðursins.
Upplýsingafundir á næstu vikum
Búnaðarsambönd á Norðurlandi stefna á upplýsinga- og fræðslufundi fyrir bændur vegna óveðursins í samstarfi við sveitarfélögin. Á þeim fundum munu fulltrúar frá Almannavörnum m.a. ræða við bændur sem geta þá komið hugmyndum um úrbætur á framfæri. Fundirnir verða nánar auglýstir í staðarmiðlum þegar dagsetningar og dagskrá liggur fyrir.