Engir bændur – enginn matur!
Höfundur: HKr.
Á morgun, miðvikudaginn 23. mars, munu leigubílstjórar og bændur lama alla umferð um miðborg Lundúna. Markmiðið er að vekja stjórnmálamenn til umhugsunar um sinnuleysi kerfisins gagnvart þessum stéttum. Einnig að mótmæla græðgi verslunarinnar á kostnað bænda.
Breskir bændur mótmæla stöðugt lækkandi afurðaverði og leigubílstjórar mótmæla akstri réttindalausra Uber-bíla með farþega án afskipta yfirvalda. Allt á þetta sér vissa samsvörun í íslenskum veruleika. Hvorki íslenskir leigubílstjórar né bændur hafa þó gripið til viðlíka aðgerða og kollegar þeirra í Bretlandi og víðar um Evrópu hafa staðið í að undanförnu.
Búist er við að breskir bændur mæti þúsundum saman til höfuðborgarinnar þar sem þeir munu sérstaklega mótmæla aðför verslunarfyrirtækja að matvælaframleiðendum og skipulögðum þvingunum þeirra til að lækka verð frá framleiðendum. Er svo komið að þúsundir bænda hafa farið á hausinn og eru breskir bændur greinilega búnir að fá meira en nóg af ástandinu.
Áætlað er að 10 þúsund leigubílar muni fylla götur miðborgar London og aka að bústað forsætisráðherra Breta í Downingstræti og væntanlega munu þúsundir breskra bænda marsera við hlið þeirra. Hafa bændur úr öllum búgreinum verið hvattir til að mæta með trommur, sekkjapípur, lúðra og önnur verkfæri til að vekja sem mesta athygli í borginni. Unnið hefur verið að skipulagningu þessara mótmæla í samvinnu við lögreglu, en tíu mínútum fyrir brottför mótmælenda úr miðborginni munu bílstjórar og bændur sameinast í allsherjar þögn.
David Handley, formaður aðgerðarhóps bænda, „Farmers For Action“, segir að búast megi við frekari aðgerðum bænda í kjölfarið. „Fólkið sem ber ábyrgð á ástandinu ætti að vera mjög áhyggjufullt núna. Því við munum koma aftur og heim að þeirra dyrum.“
Svipaðar aðgerðir fóru fram í miðborg Helsinki í Finnlandi á dögunum. Þá mættu yfir þrjú þúsund bændur á um 600 dráttarvélum og stilltu sér upp á torginu við þinghúsið í því sem þeir kölluðu neyðarkall til pólitíkusa. Mótmæltu þeir harðlega þátttöku finnskra yfirvalda í gegnum ESB í viðskiptabanni gegn Rússum sem stórskaðað hefur finnskan landbúnað. Á borða sem þeir héldu á lofti voru m.a. letruð slagorðin, „Engir bændur – enginn matur“.
Niðurbrot landbúnaðar hefur hvergi verið meira innan ESB-landanna en í Finnlandi á undanförnum árum. Á síðasta ári lækkuðu tekjur finnskra bænda um 40% miðað við árið 2014. Þá gagnrýna bændur harðlega stuðningsgreiðslukerfi CAP sem sé að drukkna í skrifræði og hafi algjörlega brugðist finnskum bændum. Ofan á tap vegna lokunar á Rússlandsmarkaði er verslun m.a. kennt um að hafa með innflutningi á ódýrum matvörum neytt finnska bændur til að lækka verð á sinni framleiðslu enn frekar og langt undir kostnaðarverð. Eru fyrirtækin sögð hafa nýtt sér offramboð á kjöti og mjólkurvörum inna ESB-ríkjanna vegna viðskiptabannsins á Rússa til að knýja bændur í Finnlandi, Bretlandi og víðar til að lækka verð á sínum framleiðsluvörum. Miðað við hamagang forsvarsmanna stærstu íslensku matvælakeðjunnar er varla hægt að skilja annað en að íslensk verslunarfyrirtæki ætli að nýta sér þessa stöðu á svipaðan hátt. Hluti af þeirri baráttu er afnám tollverndar samfara vaxandi gagnrýni á íslenskan landbúnað.