Eigendur sjávarjarða njóta eignaréttar innan netlaga og netlög teljast til eignar þeirra
Tilefni þessara greinaskrifa er frumvarp Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra, sem hún mælti fyrir á Alþingi þann 14. apríl sl., um breytingu á lögum nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða (veiðistjórn grásleppu).
Með frumvarpinu var lagt til að aflamarksstjórn verði tekin upp við veiðar á grásleppu en fram til þessa hefur stjórn veiða á grásleppu verið háð rétti til veiða og leyfum Fiskistofu.
Virða skal réttindi sjávarjarða
Landssamtök eigenda sjávarjarða voru stofnuð 5. júlí 2001 og eru félagsmenn um 500 talsins. Á Íslandi eru um 2.240 jarðir sem liggja að sjó og um 1.240 jarðir með útræðisrétt. Markmið samtakanna er að gæta sameiginlegra hagsmuna eigenda sjávarjarða. Eitt helsta baráttumál samtakanna er að tryggja að eignarréttindi sjávarjarða innan netlaga, sem og tiltöluleg eignarhlutdeild í sjávarauðlindinni í heild, verði virt og í heiðri höfð.
Samkvæmt íslenskum lögum fer eigandi sjávarjarðar með öll hefðbundin eignarráð jarðar, þar með talið landsvæði innan netlaga í sjó. Verði frumvarp matvælaráðherra óbreytt að lögum verða réttindi landeigenda í netlögum áfram virt að vettugi. Samtökin beina því til ráðherra að endurskoða efnisatriði frumvarpsins með tilliti til ótvíræðs einkaréttar eigenda sjávarjarða til fiskveiða innan netlaga sinna.
Skortur á samráði við gerð frumvarps
Landssamtök eigenda sjávarjarða gera alvarlegar athugasemdir við frumvarpið sem samið var án samráðs við eigendur sjávarjarða. Í frumvarpinu er ekki tekið tillit til eignarréttar landeigenda í netlögum, þrátt fyrir að veiðar á grásleppu fari fram innan netlaga sjávarjarða. Ráðherra ætti að vera kunnugt um að svæðið innan netlaga er hluti fasteignar sem leiðir til þess að öll hagnýting réttinda innan netlaga verður ekki heimiluð án samþykkis eiganda fasteignarinnar.
Í frumvarpinu er hvergi getið um samráð við eigendur sjávarjarða um grásleppuveiðar í netlögum eða hlutdeild sjávarjarða í arði af veiðum í netlögum, þrátt fyrir ótvíræðan eignarrétt landeigenda í netlögum. Það er mat samtakanna að boðaðar breytingar ráðherra brjóta í bága við gildandi lög sem tryggja eigendum sjávarjarða eignarrétt í netlögum.
Endurskoða þarf fyrirkomulag grásleppuveiða í netlögum
Samkvæmt núverandi fyrirkomulagi grásleppuveiða takmarkast veiðarnar við ákveðin skip sem hafa rétt til að fá útgefið sérstakt leyfi Fiskistofu til grásleppuveiða. Fyrirkomulaginu var í upphafi komið á um 1990 með reglugerð um grásleppuveiðar.
Þrátt fyrir að veiðar á grásleppu fari fram í netlögum sjávarjarða að hluta hafa stjórnvöld tekið einhliða ákvarðanir um nýtingu réttinda í netlögum án samráðs og samþykkis eigenda sjávarjarða. Þetta fyrirkomulag er brot á stjórnarskrárvörðum eignarrétti landeigenda. Samtökin hafi um árabil bent stjórnvöldum á að allir eigendur sjávarauðlindarinnar þurfi að koma að ákvörðunum um ráðstöfun hennar, þ.m.t. eigendur sjávarjarða, sem eiga allar eignarheimildir innan netlaga, nema þær sem eru takmarkaðar af lögum. Samtökin hafa ítrekað bent á að samkvæmt íslenskum rétti verða eigendur sjávarjarða ekki sviptir auðlindum og hlunnindum sem tilheyra jörðum þeirra nema komi fullt verð fyrir.
Netlög sjávarjarða og dýptarregla Jónsbókar
Í íslenskum lögum er víða getið um netlög. Í Jónsbók, sem lögfest var á Alþingi 1281, er netlaga getið í 2. kapítula rekabálks og er afmörkun þeirra miðuð við tiltekna dýpt frá landi þannig að ytri mörk netlaga eru talin nema 4 föðmum eða 6,88 metra dýpi á stórstraumsfjöru samkvæmt útreikningum Páls Vídalín.
Afmörkun netlaga í ákvæðum laga í seinni tíð hefur hins vegar miðast við fjarlægðarreglu, sbr. veiðitilskipunin frá 1849 en þar eru netlög skilgreind sem 60 faðmar (112,98 metrar) frá stórstraumsfjörumáli. Þess má geta að veiðitilskipunin byggir á grundvallarreglu Jónsbókar um að veiðiréttur fylgir jörð.
Það er mikilvægt að líta til þess að veiðitilskipunin, þar sem afmörkun netlaga miðast við fjarlægðarregluna, breytti ekki gildandi reglum Jónsbókar um fiskveiðar og því gildir dýptarreglan um fiskveiðar í netlögum.
Þrátt fyrir að frumvarp matvælaráðherra fjalli ekki um nýtingu sjávargróðurs í netlögum er ástæða til að minna á að dýptarregla 2. kapítula rekabálks Jónsbókar gildir einnig um þangslátt í fjöru eða netlögum. Í þessu samhengi benda samtökin á álit Skúla Magnússonar, umboðsmann Alþingis, áður dómstjóra við Héraðsdóm Reykjavíkur og dósent við lagadeild Háskóla Íslands, um stjórnskipulega vernd fiskveiðiréttar sjávarjarða, sem unnið var í september 2001 að beiðni nefndar um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða. Í álitinu kemst Skúli að þeirri niðurstöðu að við ákvörðun netlaga með hliðsjón af fiskveiðirétti landeiganda ber að miða ótvírætt við dýptarreglu Jónsbókar, en ekki fjarlægðarreglu veiðitilskipunarinnar og síðari laga.
Hvað varðar ýmis önnur mikilvæg réttindi landeiganda innan netlaga gildir hins vegar almennt reglan um 115 metra frá stórstraumsfjörumáli. Samkvæmt framangreindu ber að afmarka netlög sjávarjarðar með hliðsjón af fiskveiðirétti samkvæmt reglu 2. kapítula rekabálks Jónsbókar.
Hæstiréttur Íslands hefur að minnsta kosti í tvígang komist að sömu niðurstöðu og Skúli um að miða skuli við dýptarreglu Jónsbókar en ekki fjarlægðarreglu veiðitilskipunarinnar og síðari laga. Það er ástæða til að benda ráðherra á að ákvæði rekabálks Jónsbókar hefur aldrei verið fellt úr gildi með ákvörðun Alþingis, hvorki að því er varðar fiskveiðirétt í netlögum né skilgreiningu á netlögunum sjálfum.
Grásleppuveiðar í netlögum eru háðar leyfi eigenda sjávarjarða
Samtökin benda ráðherra á að veiðar á grásleppu í netlögum hafa í mörgum tilvikum verulegar fjárhagslegar skerðingar í för með sér fyrir eigendur sjávarjarða. Þetta á sérstaklega við um sjávarjarðir í Breiðafirði þar sem æðarvarp og dúntekja eru á meðal helstu hlunninda jarða sem margar hverjar hafa tekjur af sölu æðardúns.
Landssamtök eigenda sjávarjarða skora því á matvælaráðherra að leggja fram nýtt frumvarp í haust til laga um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um stjórn fiskveiða (veiðistjórn grásleppu) þar sem annars vegar er lagt til að samþykki eigenda sjávarjarða sé gert að skilyrði fyrir grásleppuveiðum innan netlaga og hins vegar að tryggt sé að eigendur sjávarjarða, sem heimila grásleppuveiðar í netlögum, fái hæfilega hlutdeild í arði af veiðunum.
Með slíkri réttarbót væri langvarandi órétti gagnvart eigendum sjávarjarða eytt og eignarréttur þeirra í netlögum virtur í eitt skipti fyrir öll.