Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir, oddviti VG í Suðurkjördæmi og Álfhildur Leifsdóttir oddviti VG og óháðra í Skagafirði.
Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir, oddviti VG í Suðurkjördæmi og Álfhildur Leifsdóttir oddviti VG og óháðra í Skagafirði.
Lesendarýni 20. febrúar 2024

Gerist ekkert hjá VG?

Höfundur: Álfhildur Leifsdóttir og Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir, sitja í stjórn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Nú á tímum orkuskipta er mikilvægt að næg orka sé til svo hægt verði að halda áfram á þeirri braut í þágu þjóðar, umhverfis og náttúru.

Þar er mikilvægt að gæta hagsmuna almennings og heimila í landinu með jöfnuð og hófsemi að leiðarljósi. Orkan er nefnilega sameiginleg auðlind þjóðarinnar sem á að nýtast okkur öllum á sem hagstæðustu verði. Þar er aldeilis ekki skynsamlegt að framleiða stöðugt meira náttúrunni okkar til skaða, heldur verður að staldra við og leggja allt kapp á að nýta betur aflið frá þeim auðlindum sem þegar hafa verið virkjaðar. Um leið þarf að skilgreina í hvað orkan fer og bæta flutningsleiðir hennar þannig að hún dreifist vel um landið og ekki þurfi að notast við mengandi orkugjafa. Þá fyrst verður hægt að fara skynsamlega af stað í næstu skref.

Landsvirkjun heldur stöðugt uppi svörtustu sviðsmynd af orkuskorti, hugsanlega vegna þess að hún hefur kosið að selja of mikla orku til stóriðjunnar. Á meðan aðrir benda á að hér á landi sé ekki orkuskortur, enda framleiði Íslendingar mest allra þjóða af grænni orku miðað við höfðatölu. Eðlilega verður almenningur ringlaður þegar hvor höndin er svona uppi á móti annarri, ýmist er til næg orka eða ekki í landi sem framleiðir einna mest af grænni raforku í heimi. Vantar raforku fyrir almenning eða er verið að horfa til erlends markaðar og samkeppni? Hvað er rétt og hvernig getum við staðið vörð um heimilin í landinu og séð til þess að orkan verði áfram aðgengileg á sanngjörnu verði fyrir þau öll?

Það hefur aldrei verið mikilvægara að taka stöðuna og greina bæði orkuþörf og orkusóun um leið og tryggt verði að heimilin séu ávallt í forgangi. Staðreyndin er að mengandi stóriðja notar 80% af raforku landsins. Önnur fyrirtæki nota um 15 % raforkunnar og heimilin nýta sér einungis 5% hennar. Með því að markaðssetja orkuna og bjóða hana hæstbjóðanda er verið að forgangsraða henni í þágu fárra. Arðurinn af þessari auðlind okkar allra verður þá ekki í formi hagstæðrar orku til landsmanna heldur fer hann í arðgreiðslur til örfárra líkt og við þekkjum hvað varðar aðrar auðlindir. Því verður að tryggja heimilum aðgang að orku og heitu vatni á sanngjörnu verði með lagasetningu því það eru þau sem sannarlega eiga að njóta góðs af þessari auðlind um ókomna tíð.

Ráðherra orkumála segir í viðtölum að lítið hafi gerst í raforkumálum síðustu 15 árin. Hann vill meina að engin umræða hafi verið um orkumál eða græn orkumál almennt þegar hann tók við ráðuneytinu. Að hans mati ganga loftslagsmál út á það að verið er að skipta bensíni, dísel, kolum og gasi út fyrir græna orku sem er töluverð einföldun. Hann gerir lítið úr öðrum aðgerðum líkt og flokkun sorps og vitnar til eigin grænbókar og COP, þar sem fram kom að þrefalda þurfi alla græna orkuframleiðslu í heiminum í það minnsta. Við lýsum furðu okkar á þessu og viljum meina að það sé einfaldlega ekki verið að vísa til okkar, þjóðarinnar sem framleiðir mesta græna orku miðað við höfðatölu eins og áður hefur komið fram. Þessi vilji ráðherrans til að framleiða meira af orku virðist einfaldlega vera til að setja hana á erlendan markað enda flokkur hans fjallað um möguleika á aukinni framleiðslu okkar Íslendinga á grænni orku vegna skorts á erlendum mörkuðum.

Það er nefnilega margt sem hefur gerst í umhverfis- og loftslagsmálum síðustu fimmtán ár og ekki síður í raforkumálum. Að halda öðru fram er hjákátlegt og bagalegt að ráðherra málaflokksins sé svo illa að sér í málefnum eigin ráðuneytis. Sem dæmi má nefna Búðarhálsvirkjun sem gangsett var fyrir tæpum 10 árum og framleiðir um 595GWst á ári. Þá var stækkun Búrfellsvirkjunar tekin í notkun 2018 og jók rekstraröryggi og sveigjanleika raforkukerfisins og orkugetu um allt að 300GWst. Jarðavarmavirkjun á Þeistareykjum var gangsett 2017 með framleiðslu upp á 738GWst á ári og stækkun Reykjanesvirkjunar, sem lauk árið 2023, jók framleiðslugetu hennar og er ársframleiðsla hennar því 830GWst á ári. Brúarvirkjun í Tungufljóti var sett af stað árið 2020 með framleiðslugetu upp á 82,5GWst og stækkun Hellisheiðarvirkjunar sama ár jók framleiðslugetu hennar í 2.300GWst á ári. Þetta er eitthvað, ekki satt? Á vakt VG voru rammaáætlanir unnar og samþykktar og í júní 2022 samþykkti Alþingi 3. áfanga rammaáætlunar um vernd og nýtingu landsvæða, sem unnin var á árunum 2017-2021. Þá talaði ráðherra fjálglega um að með afgreiðslu rammaáætlunar væri mikilvægum lið í metnaðarfullum markmiðum Íslands í loftslagsmálum náð.

Á meðan Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur staðið vörð um náttúruna og gætt að hófsamri nýtingu hennar til orkuöflunar hafa aðrir flokkar flestir verið með stöðugan áróður um orkuskort.

Verðmæti náttúrunnar Íslands eru gríðarleg. Okkur hefur verið falið að gæta hennar með öllum hennar víðernum, fossum, jöklum, jarðhitasvæðum og einstökum jarðmyndunum. Náttúra landsins er einstök og eftirsóknarverð. Sá mikli fjöldi ferðamanna sem heimsækir landið til að upplifa náttúruna er vitnisburður þess. Eigum við að fórna henni fyrir allar hugmyndir, stórar og smáar, sem ekki miða að því að mæta loftslagsmarkmiðum okkar? Eða ætlum við að tryggja heimilum forgang að raforku, fara vel með auðlindina okkar og halda jafnvægi þegar kemur að sambúð okkar og náttúrunnar.

Eru áhrif koltvísýrings á loftslagið ofmetin?
Lesendarýni 2. janúar 2025

Eru áhrif koltvísýrings á loftslagið ofmetin?

Viðurkennt er að koltvísýringur (CO2) getur fangað ákveðna tíðni varmaútgeisluna...

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð
Lesendarýni 2. janúar 2025

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð

Geislar sólarinnar voru í aldaraðir nýttir til beinnar upphitunar híbýla. Elstu ...

Er aukefnunum ofaukið?
Lesendarýni 30. desember 2024

Er aukefnunum ofaukið?

Ég (Anna María) bjó lengi í Danmörku, en eftir að hafa flutt til Íslands fór ég ...

Við áramót
Lesendarýni 30. desember 2024

Við áramót

Við áramót er gott tilefni til að hyggja að þeim atriðum sem hæst ber í blóðnytj...

Flekkur kom úr langferð á jólaföstu
Lesendarýni 27. desember 2024

Flekkur kom úr langferð á jólaföstu

Hér á bæ fæddist svartflekkóttur lambhrútur 14. maí 2021, fremur smár tvílembing...

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...