Gróðurhús í grænum skólum
Leikskólinn Tjarnarsel er elsti leikskólinn í Reykjanesbæ en hann tók til starfa 1967. Í gegnum tíðina hefur skólinn þróast í þá átt að leggja ríka áherslu á ræktun og eflingu umhverfisvitundar.
Tjarnarsel hefur fengið Grænfánann sex sinum frá árunum 2007 til 2021. Áhersluþættir leikskólans eru mál og læsi, vettvangsferðir, umhverfismennt og útinám.
Það var mikil ánægja vorið 2022 þegar við í Tjarnarseli fengum úthlutað styrk úr Nýsköpunar- og þróunarsjóði fræðslusviðs Reykjanesbæjar sem var nýttur til kaupa á svokölluðu Bambagróðurhúsi. Slík hús eru gerð úr endurunnu hráefni og hafa verið sett upp í nokkrum skólum á landinu. Hægt er að fá þau sérstaklega hönnuð fyrir leikskólabörn.
Allir innviðir í húsinu miðast við hæð barnanna og auðvelda þeim þannig að taka þátt í ræktuninni. Gróðurhúsið hentar vel í útikennslu fyrir allan aldur og hægt er að fá þau í nokkrum stærðum og með skipulagi sem hentar ólíkum aldri barna.
Bambahúsið okkar var sett niður í fallegum garði leikskólans og tilgangur þess að verða enn sjálfbærari með ræktun grænmetis, kryddjurta, blóma og annarra plantna frá fræi.
Hvað er skemmtilegra en að sjá fræ sett niður í mold og fylgjast með hvernig það breytist smátt og smátt í fallega plöntu? Það eru eins konar töfrar fyrir börn að fá tækifæri til að skoða, meðhöndla og setja fræ niður í mold og sjá þegar grænir angar koma upp eftir nokkra daga.
Skemmtilegt er að vera með mismunandi fræ þannig að börnin sjái að plönturnar sem allar virðast vera eins til að byrja með breytast þegar þær stækka. Það er ómetanlegt að fylgjast með því hvað börnin verða glöð þegar þau öðlast þekkingu á því hvað þarf til þess að plönturnar stækki og dafni og verði að blómum eða grænmeti. Við þessa vinnu læra þau ekki bara að sá fræjum heldur einnig fjölmörg orð sem auðga tungumálið og auka þekkingu þeirra á uppruna plantna og grænmetis. Síðast en ekki síst læra þau og fræðast um ný handtök sem tengjast ræktun og munu nýtast þeim um ókomin ár.
Er það ekki það sem við eigum að kenna börnunum, að geta orðið meira sjálfbær í framtíðinni? Að skapa þannig umhverfi að þau fái tækifæri til að prófa sig áfram og öðlast þannig þekkingu á ræktun og vexti plantna. Markmiðið er að börnin verði óhrædd við það óvænta og að sumt gangi upp og annað ekki. Við það að gera tilraunir eflist með börnunum dýpri þekking sem þau geta tekið með sér inn í framtíðina.
Í Tjarnarseli er mikil þekking fyrirliggjandi hjá kennarahópnum á ræktun og umhirðu gróðurs í garðinum. Þannig smita kennarar börnin af áhuga á ræktun og fegrun á umhverfi sínu, í leikskólanum og fyrir utan hann. Að vera með forræktun í gluggum leikskólans þar sem birtuskilyrði henta og vera með gróðurljós, frá ársbyrjun fram á vor, er árlegt viðfangsefni á öllum aldursstigum. Þá er kominn tími til að setja plönturnar í gróðurhúsið og sjá þær stækka og dafna þar. Með því eru kennarar að fræða börnin um gróður og vöxt plantna allt árið um kring.
Þannig kennum við börnunum um sjálfbærni með því að sá fræjum að vetri sem verða að plöntum um vor og blómstra svo um sumarið.
Um haustið safna börn og kennarar fræjum sem nýtt eru næsta ár, þannig verður til hringrás. Í þessu ferli fer fram uppgötvunarnám þar sem börnin sjá að lítið fræ getur orðið að plöntu, hvort heldur er til matargerðar eða til að efla fegurðarskynið. Með þessu trúum við því að hvert lítið skref sem ein manneskja tekur í slíku ferli geti haft áhrif til góðs fyrir lífið á jörðinni í komandi framtíð.
Við hvetjum áhugasama kennara um ræktun og sjálfbærni til að taka fyrstu skrefin í gróðurstarfi. Námsferlið í kringum ræktunina hjá börnum er óþrjótandi uppspretta gefandi og góðra samverustunda þar sem börn og blóm fá að vaxa og dafna í höndum áhugasamra kennara.