Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Daðastaðir í Núpasveit. Frábært starf landgræðsluverðlaunahafanna Gunnars Einarssonar og Guðrúnar S. Kristjánsdóttur.
Daðastaðir í Núpasveit. Frábært starf landgræðsluverðlaunahafanna Gunnars Einarssonar og Guðrúnar S. Kristjánsdóttur.
Lesendarýni 2. mars 2022

Hækkandi áburðarverð og landgræðsla – hvað er til ráða?

Höfundur: Árni Bragason, landgræðslustjóri.

Landgræðslunni barst opið bréf frá Ástu F. Flosadóttur sem birt var á Vísi þann 2. febrúar 2022 undir heitinu „Kæri Jón“ Opið bréf til Landgræðslunnar. Bréfið fékk Ásta einnig birt í Bænda­blaðinu 10. febrúar. Tilefni skrifa Ástu eru viðbrögð við bréfi Landgræðslunnar þar sem tilkynnt er að styrkir til verkefnis­ins Bændur græða landið verði lækkaðir vegna 100% hækkunar áburðarverðs.

Ásta fer fögrum orðum um verk­efnið Bændur græða landið og segir m.a.: „Og árangurinn ótvíræður, melar gróa, rofabörðum er lokað, afréttir bera meiri beit.“

Stór hluti af vinnu við endurheimt vistkerfa á Íslandi byggir á því að grípa inn í þá ferla sem eru hamlandi fyrir framgang þeirra. Í hnignuðum eða hrundum vistkerfum er lítið framboð af næringarefnum, og þá sérstaklega köfnunarefnis og fosfórs, eitt af þeim atriðum sem geta hamlað framvindu hvað mest. Aðrir þættir geta t.d. verið fræframboð, veðurfar, ósjálfbær landnýting og náttúruvá.

Stærstu verkefni Landgræðsl­unnar sem hafa endurheimt vistkerfa að meginmarkmiði eru Bændur græða landið, Landbótasjóður, Umsjón landgræðslusvæða auk endurheimtar votlendis og birkiskóga.

Verkefnið Bændur græða landið er samvinnuverkefni Landgræðsl­unnar og landeigenda um upp­græðslu heimalanda. Tilgangur þess er að styrkja landeigendur til landgræðslu á jörðum sínum, stöðva rof, þekja land gróðri og gera það nothæft á ný til landbúnaðar eða annarra nota. Verkefnið hófst árið 1990. Landbótasjóður er sjóður á vegum Landgræðslunnar sem leggur honum til fé til úthlutunar, auk þess sem aðrir aðilar geta lagt sjóðnum til fjármuni. Landgræðslan úthlutar árlega styrkjum úr sjóðnum, en tilgangur þeirra er að færa ábyrgð og framkvæmd landgræðsluverkefna heim í héruð og veita landeigendum, sveitarfélögum, félagasamtökum og öðrum umráðahöfum lands, styrki til landbótaverkefna.

Verkefnin Bændur græða landið (BGL) og Landbótasjóður (LBS) eru hátt í 600 talsins, flest unnin af sauðfjárbændum. Algengasta aðgerðin í þessum verkefnum er styrking gróðurs með tilbúnum áburði því auðveldara er að koma honum á erfitt land. Svæðin sem unnið er á, eru ýmist friðuð eða nýtt til hóflegrar beitar þannig að svæðin styrkjast og batna sem beitilönd. Ávinningur landgræðslu er margþættur s.s. endurheimt náttúrulegra vistkerfa, aukinn gróður sem bindur kolefni í jarðvegi, styrking líffræðilegs fjölbreytileika, bættur vatnsbúskapur og auknir nýtingarmöguleikar landsins til framtíðar.

Nú liggur fyrir að frá árinu 2021 hefur verð á algengum áburðartegundum til landgræðslu hækkað um 102-115% eftir söluaðilum sem er verðbreyting án fordæma hér á landi, auk þess sem framboð er takmarkað. Framlag ríkisins til verkefna Landgræðslunnar hefur hækkað á undanförnum árum og er það vel. Hins vegar er staðan þannig að sú hækkun heldur ekki í við þessa miklu hækkun á áburði.

Verð á tilbúnum áburði hefur mikil áhrif á umfang verkefna Landgræðslunnar og samstarfsaðila. Vegna slæmrar stöðu sauðfjárræktarinnar er bagalegt að geta ekki haldið óbreyttu umfangi í þessum mikilvægu samstarfsverkefnum sem skilað hafa frábærum árangri á undanförnum áratugum.

Landgræðslan hefur ákveðið að grípa til mótvægisaðgerða til að draga úr áhrifum áburðarverðshækkana á helstu verkefni.

Landgræðslan eykur áherslu á notkun lífræns áburðar í öllum verk­efnum og vekur sérstaka athygli á lífrænni leið í BGL sem gæti verið valmöguleiki fyrir þá þátttakendur sem hafa aðgang að lífrænum áburði.

Landgræðslan færir fjármuni úr öðrum verkefnum til verkefnanna BGL og LBS en sú aukning í framlögum nær þó ekki að halda í við verðhækkanir og því hækkar endurgreiðsla á hvert tonn í BGL aðeins um 80% á milli ára.

Landgræðslan mun einnig nota minna magn áburðarefna á flatareiningu í nokkrum stærri verkefnum. Þannig má auka það flatarmál sem næst að vinna á og styrkja svæði sem annars hefði ekki verið hægt að fylgja eftir. Árlegt heildarumfang aðgerða í landgræðsluverkefnum er um 20 þúsund hektarar og með því að nota 10% minni áburð á hvern hektara má vinna á 2.000 hekturum til viðbótar.

Þessi listi yfir mótvægisaðgerðir er ekki tæmandi og Landgræðslan hvetur samstarfsaðila til að hafa samband við héraðsfulltrúa stofnunarinnar um ráðgjöf og vinna tillögur að lausnum sem henta hverjum og einum til að draga sem mest úr högginu.

Að lokum, ágæta Ásta, tel ég rétt að svara tvennu í greininni þinni:

Í fyrsta lagi fullyrðingu um að ekkert samráð hafi verið við bændur um vinnslu reglugerðar um sjálfbæra landnýtingu. Reglugerðardrögin voru rædd á fjölmörgum fundum með Landssamtökum sauðfjárbænda og Bændasamtaka Íslands auk þess sem drögin fóru í Samráðsgátt. Nú er unnið að endurbótum vegna athugasemda og drögin munu fara aftur í Samráðsgáttina. Samráðsgáttin er góð leið til að ná til allra landsmanna. Við erum öll, allir landsmenn, gæslumenn lands á Íslandi.

Í öðru lagi eftirfarandi texti í grein þinni: „Við héldum að sambandið einkenndist af samvinnu og gagnkvæmri virðingu.

En svo fara að renna á bóndann tvær grímur, er jafnræði í þessu sambandi? Jöfn og sanngjörn verkaskipting? Kostnaðarskipting rétt? Eru störf bænda og framlag í sambandinu metin að verðleikum? Eða er makkerinn farinn að taka okkur sem sjálfsögðum hlut, má bjóða bændum hvað sem er? Erum við stödd í einhvers konar ofbeldissambandi, þrælahaldi, þar sem þarfir okkar eru ekki virtar, vaðið er yfir okkur á skítugum skónum, talað niður til okkar?“

Verkefnið Bændur græða landið er samstarfsverkefni þar sem hlutverk Landgræðslunnar er að veita ráðgjöf og styrki í samræmi við þær reglur sem settar eru hverju sinni og fram koma í auglýsingu. Við skráum aðgerðir og leggjum mat á hvort styrkir hafi verið nýttir eins og til stóð. Landeigendur sækja um að vera með í BGL, enginn er neyddur til að taka við styrk til að bæta eigið land og gera það betra.

Ég er sammála því sem fram kemur í grein þinni – árangur verk­efnanna er ótvíræður og ég vona svo sannarlega að þið og aðrir góðir BGL bændur sjái sér hag í að halda áfram að bæta landið okkar, slíkt er samfélagi okkar og framtíð þess til góða.

Árni Bragason,
landgræðslustjóri.

Eru áhrif koltvísýrings á loftslagið ofmetin?
Lesendarýni 2. janúar 2025

Eru áhrif koltvísýrings á loftslagið ofmetin?

Viðurkennt er að koltvísýringur (CO2) getur fangað ákveðna tíðni varmaútgeisluna...

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð
Lesendarýni 2. janúar 2025

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð

Geislar sólarinnar voru í aldaraðir nýttir til beinnar upphitunar híbýla. Elstu ...

Er aukefnunum ofaukið?
Lesendarýni 30. desember 2024

Er aukefnunum ofaukið?

Ég (Anna María) bjó lengi í Danmörku, en eftir að hafa flutt til Íslands fór ég ...

Við áramót
Lesendarýni 30. desember 2024

Við áramót

Við áramót er gott tilefni til að hyggja að þeim atriðum sem hæst ber í blóðnytj...

Flekkur kom úr langferð á jólaföstu
Lesendarýni 27. desember 2024

Flekkur kom úr langferð á jólaföstu

Hér á bæ fæddist svartflekkóttur lambhrútur 14. maí 2021, fremur smár tvílembing...

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...