Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Innflutt eða úr heimahögum!
Lesendarýni 18. mars 2019

Innflutt eða úr heimahögum!

Höfundur: Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Nýlega lagði landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra fram frumvarp í samráðsgátt stjórnvalda til að bregðast við dómum EFTA dómstólsins og Hæstaréttar Íslands. Niðurstaða dómstóla er meðal annars  sú að krafa um frystingu kjöts sem hingað er flutt brjóti í bága við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum. Því mun ríkissjóður þurfa að greiða skaðabætur fyrir hvert einasta kílógramm sem flutt er hingað til lands þangað til við þessu er brugðist.

Forsaga þessa máls er löng og þar hafa á leiðinni verið gerð mistök, þau fyrstu að bóka ekki skýra fyrirvara í Brussel um upptöku matvælalöggjafar í EES samninginn árið 2005.

Þessi varnarlína dugar ekki lengur. Það er ótækt ástand að innflutningsaðilum sé í raun gefið sjálfdæmi um þær skaðabætur sem þeir skammta sér úr ríkissjóði með því að flytja inn kjöt þangað til úr þessu hefur verið bætt. Það er í sjálfu sér dapurlegt ef þeir finnast sem eru svo ósvífnir að nýta sér þennan glugga til að maka krókinn á kostnað skattgreiðenda þessa lands.

Þá reynir á næstu varnarlínu. En það er að grípa til mótvægisaðgerða. Landbúnaðarráðherra kynnti tólf aðgerðir sem eiga að tryggja lýðheilsu og vernd okkar einstöku búfjárstofna, m.a. að fræða ferðamenn um innflutning afurða úr dýraríkinu og að bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Við síðasta punktinn vil ég staldra í þessum greinarstúf.

Ég tel að samkeppnisstaða sé lykilatriði í þessu máli, hún snýst ekki eingöngu um framleiðslukostnað heldur einnig kolefnisfótspor þegar kjöt er flutt um langan veg til landsins. Það skýtur skökku við, á tímum þar sem aldrei hefur verið rætt jafn mikið um loftslagsbreytingar, að flytja inn samskonar kjöt erlendis frá sem við getum vel framleitt hér heima.

Að mínu mati verðum við að gera sömu kröfur til innfluttra vara og þeirra sem við framleiðum hér heima. Þar þarf að horfa til reglna um aðbúnað og framleiðsluhætti ásamt lyfjagjöf. Þeim upplýsingum þarf að miðla til neytenda með skýrum hætti. Þá þarf einnig að vera skýrt hver viðurlögin eru við brotum á reglum um merkingar. Við þurfum að taka umræðuna um hvernig við tryggjum best heilbrigðan markað með matvöru.

Það getur tæplega talist eðlileg samkeppni að aðilar spili ekki eftir sömu reglum. Bændur glíma við ákveðna markaðsbresti, þeir verða að koma vörunni á markað, hún geymist illa. Stíur fyllast fljótt ef gripirnir eru geymdir á fæti. Þeir eru því í erfiðri samningsstöðu gagnvart ægivaldi markaðsráðandi aðila. Tölur sýna að verð ákveðinna tegunda kjöts hefur lækkað talsvert að raungildi til bænda en sú lækkun hefur ekki öll skilað sér til neytenda. Það er eðlileg niðurstaða þess þegar annar aðilinn er með höndina bundna fyrir aftan bak og sagt að spreyta sig í samkeppninni. Hluti af lausninni hér hefur verið sú að hafa tolla á þeim vörutegundum sem við framleiðum sjálf til að vinna á þessum markaðsbresti. En tollarnir hafa ekki verið uppfærðir að krónutölum á þessari öld svo að sú varnarlína minnkar ár frá ári. Það kann að vera að þeir hafi verið of háir í upphafi en ég tel það ósanngjarnt og óskynsamlegt að láta íslensk fjölskyldubú ein um að glíma við markaðsbrestinn.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er talað um að Ísland eigi að vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum. Þeirri stöðu tel ég að geti verið ógnað með því að láta tollverndina sífellt minnka að verðgildi. Hún veikir stöðu bænda þessa lands til að framleiða heilnæmar landbúnaðarafurðir. Það er afar brýnt að hafa í huga heildarmyndina þegar kemur að úrlausnum svo mikilvægra mála að lögin tryggi lýðheilsuvernd bæði manna og dýra um leið og staðinn er vörður um hagsmuni neytenda.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir 

Höfundur er þingflokksformaður Vinstri grænna

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...