Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Högni Elfar Gylfason.
Högni Elfar Gylfason.
Lesendarýni 22. desember 2023

Landbúnaður á krossgötum

Höfundur: Högni Elfar Gylfason, varaþingmaður Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Landbúnaður er undirorpinn duttlungum stjórnmála hvers tíma, en flest þjóðríki tryggja framleiðslu innlendra matvæla fyrir sína þegna með tollvernd og niðurgreiðslu.

Óöryggi í rekstri íslenskra búa hefur aukist verulega vegna breyttra áherslna stjórnmálamanna og um leið versnar afkoman.

Undanfarin ár hefur íslenskur landbúnaður átt undir högg að sækja og er í raun kominn á heljarþröm. Stór hluti ástæðunnar er að ráðandi stjórnmálaöfl hafa fært áhersluna frá sjálfbærni þjóðarinnar í framleiðslu matvæla yfir í að treysta öðrum þjóðum fyrir framleiðslu þeirra. Þannig hafa tollar verið felldir niður og innflutningstakmarkanir á erlendar landbúnaðarafurðir minnkaðar til að liðka fyrir auknum innflutningi. Á sama tíma hafa íslensk stjórnvöld dregið verulega úr beinum stuðningi við landbúnað. Það hefur leitt til versnandi afkomu greinarinnar, þá hafa miklar verðhækkanir á aðföngum ásamt gífurlega háu vaxtastigi aukið skaðann. Í kjölfarið hefur framleiðslan minnkað og búum í rekstri fækkað vegna viðvarandi taprekstrar.

Þrátt fyrir stóraukinn innflutning og niðurfellingu tolla hefur verð til neytenda ekki lækkað að sama skapi. Hins vegar hafa innflytjendur, heildsalar og stórkaupmenn aukið hagnað sinn, en sýnt hefur verið fram á að íslenskir stórkaupmenn hagnast mun meira en kollegar þeirra bæði austan hafs og vestan. Þannig er verið að fórna innlendri matvælaframleiðslu fyrir aukinn hagnað stórfyrirtækja á Íslandi.

Byggðastefna stjórnvalda

Í 65. grein íslensku stjórnarskrárinnar er kveðið á um jafnrétti landsmanna:

„Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“

Þrátt fyrir þessa mikilvægu grein stjórnarskrárinnar hafa stjórnvöld mismunað þegnum landsins á afar fjölbreytilegan hátt eftir búsetu. Þannig hefur til dæmis verið þrengt bæði að heimilum og fyrirtækjum í dreifbýli með hærra raforkuverði, okurverði á raforku til stórnotenda í dreifbýli (ylræktarbænda), eyðileggingu póstþjónustu sem veldur auknum kostnaði við að nálgast póstinn, niðurskurði á heilbrigðisþjónustu úti á landi með tilheyrandi kostnaðarauka íbúa fjarri stórum þéttbýlisstöðum, endalausum niðurskurði í viðhaldi vega í dreifbýli, lítilli uppbyggingu farsímasambands í dreifbýli sem veldur öryggisleysi, ásamt því að notkun rafrænna skilríkja er víða ekki í boði þrátt fyrir auknar áherslur ríkisvaldsins og annarra í þá átt.

Trúarbrögð ráðherra landbúnaðarmála

Eftir að fyrri ráðherra landbúnaðarmála setti landbúnaðarráðuneytið ofan í skúffu bætti arftaki hans, Svandís Svavarsdóttir, um betur og lagði ráðuneytið til hinstu hvílu. Bjó hún til nýtt ráðuneyti sem nefnt var matvælaráðuneyti, en þar virðist lítil áhersla á að bæta rekstrarumhverfi íslenskra fjölskyldubúa eða stöðu landbúnaðar almennt.

Fremur virðast áherslur ráðherrans felast í því að finna leiðir til að koma í veg fyrir hefðbundinn landbúnað. Óljósum, órökstuddum og ósönnuðum fullyrðingum um skaðsemi íslenskrar landbúnaðar- framleiðslu er haldið á lofti og notaðar til að vinna gegn henni. Matvælaráðherra hefur verið staðinn að því að tala niður íslenska kjötframleiðslu í sjónvarpi á sama tíma og hann eyðir tugmilljónum af skattfé almennings til rannsókna á framleiðslu skordýra í dýrafóður.

Þá er umræða um að almenningur leggi sér skorkvikindi til munns fremur en kjöt í nafni loftslagsmála með ólíkindum. Það væri slæmt ef íslensk stjórnvöld tækju undir slíka vitfirringu og enn verra ef þau ynnu eftir slíkri öfgahugmyndafræði.

Til framtíðar

Enn eru tæp tvö ár til alþingiskosninga og mikilvægt að sem fæst mál komi frá núverandi ríkisstjórn. Þannig yrði hægt að tala um skaðaminnkandi tímabil, en mörg mál sem stjórnin hefur keyrt í gegnum þingið eru ýmist vanhugsuð, illa undirbúin eða beinlínis andstæð hagsmunum íslensku þjóðarinnar.

Þá yrðu Íslendingar lausir við ný óþörf mál líkt og þreföldun úrvinnslugjalds heyrúlluplasts, stórhækkun gjaldskrár Matvælastofnunar, gjaldtöku fyrir starfsleyfi dýralækna, innleiðingu EES reglna án umræðu á Alþingi, stóraukinn kostnað á flugsamgöngur og skipaflutninga til Íslands að skipun Evrópusambandsins, stofnun hatursstofnunar forsætisráðherra til að stjórna hugsunum og tjáningu almennings, afhendingu stjórnarskrárbundins valds til erlendra stofnana í stórum stíl og margt fleira.

Nú hafa matvælaráðaherra, fjármála- og efnahagsráðherra og innviðaráðherra lagt fyrir ríkisstjórn tillögur að aðgerðum til stuðnings þeim bændum sem eiga í fjárhagserfiðleikum vegna núverandi efnahagsástands. Það er óskandi að aðgerðir þessar muni til skamms tíma koma í veg fyrir gjaldþrot eða uppgjöf einhverra bænda. Hins vegar er vandinn margfalt stærri en þessar aðgerðir geta leyst. Stærsti vandinn er kannski sá að ráðherrar ríkisstjórnarinnar skilja ekki eðli vandans eða þeir vilja ekki vita af honum. Vandinn er ekki eingöngu „vegna núverandi efnahagsástands“, heldur vegna aðgerða og aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar sem að hluta til er farið yfir fyrr í þessum skrifum. Hugsjónir sumra um takmarkalaust viðskiptafrelsi án ábyrgðar og ranghugmyndir annarra um yfirvofandi eyðingu heimsins vegna kjötframleiðslu íslenskra bænda er kjarni vanda íslenskrar matvælaframleiðslu. Þegar svo meðlimir slíkra sérstrúarsöfnuða sitja í ráðherrastólum verður vandinn stærri og alvarlegri.

Staðan leysist ekki af sjálfu sér, heldur þarf nýja ríkisstjórn og nýja sýn í stjórn landsins.

Sú sýn þarf að innihalda sterkan íslenskan landbúnað þar sem allir aðilar að virðiskeðju matvæla, frá framleiðslu til neytenda, fái sanngjarnan hlut sem dugi fyrir kostnaði. Það er ætíð nauðsynlegt hverri þjóð að hafa aðgang að nægum heilnæmum matvælum og þá ekki síst á viðsjárverðum tímum þegar stórtækar náttúruhamfarir og hörmuleg stríðsátök geisa víða um heim.

Miðflokkurinn mun áfram líkt og hingað til standa þétt með íslenskum landbúnaði og Íslandi öllu.

Kartaflan
Lesendarýni 16. júlí 2024

Kartaflan

Hvað vitum við um kartöfluna? Þessa nytjajurt sem heitir á fræðimáli Solanum tub...

Hraunflóðavarnir og þekking
Lesendarýni 16. júlí 2024

Hraunflóðavarnir og þekking

Nú eru í gangi umfangsmiklir jarðeldar á Reykjanesskaga, hafa þegar verið í gang...

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti
Lesendarýni 5. júlí 2024

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti

Í síðasta eintaki af Bbl. birtist grein um það hvernig öldusveigjan umhverfis Ve...

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra
Lesendarýni 2. júlí 2024

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra

Velferð dýra er ófrávíkjanleg krafa siðmenntaðs samfélags, hvort sem um ræðir gæ...

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn
Lesendarýni 24. júní 2024

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn

Fyrir röskum þremur árum ritaði greinarhöfundur þrjár greinar um landbúnað og sa...

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda
Lesendarýni 21. júní 2024

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda

Ágætu bændur. Í Bændablaðinu þann 16. maí sl. reifaði ég í bréfi til ykkar áhygg...

Af heimanautum og sæðinganautum
Lesendarýni 21. júní 2024

Af heimanautum og sæðinganautum

Mikil notkun heimanauta hefur um langa hríð verið eitt helsta umræðuefni og þræt...

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna
Lesendarýni 21. júní 2024

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna

Strandveiðitímabilið hófst í byrjun maí. Mikil veiði hefur verið enda mikið af f...