Langþráð baráttumál komið í höfn
Höfundur: Einar Kristinn Guðfinnsson
Baráttan fyrir lægri húshitunarkostnaði hefur staðið lengi. Núna getum við fagnað því að mikilvægum áfanga er náð.
Einar Kristinn Guðfinnsson.
Með lögum sem tóku gildi nú um áramótin og lögum sem lúta að jöfnuði í orkukostnaði dreifbýlis og þéttbýlis, eru stigin stærri og varanlegri skref í þessum efnum en við höfum lengi séð. Þessi lagasetning tryggir tvennt: Annars vegar er komið á jöfnun í orkukostnaði dreifbýlis og þéttbýlis. Hins vegar lækkar orkukostnaður á köldum svæðum mjög verulega og með varanlegum hætti, þar sem kostnaður við flutning og dreifingu orku leggst ekki lengur á notendurna heldur er hann greiddur af samfélaginu í heild.
Þarna má segja að við höfum náð lyktum í gömlu og brýnu réttlætismáli.
Á ýmsu hefur gengið í gegnum tíðina í þessum málum. Stundum hefur okkur tekist að knýja fram aukið fjármagn til þess að létta byrðarnar af húshitunarkostnaði á svokölluðum svæðum; þ.e þeim svæðum sem búa við rafhitun en hafa ekki getað notið jarðvarma til húshitunar. Þegar þrengst hefur um í ríkisbúskapnum hefur hins vegar oftar en ekki slegið í bakseglin. Þetta má sjá í svari við fyrirspurn minni á Alþingi veturinn 2010 til 2011, http://www.althingi.is/altext/pdf/139/s/0234.pdf
Tillaga á Alþingi um lækkun húshitunarkostnaðar
Í framhaldi af þessu svari hafði ég forgöngu um smíði þingsályktunartillögu, sem flutningsmenn úr fjórum stjórnmálaflokkum stóðu að. Tillagan var svohljóðandi:
„Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að setja á laggirnar nefnd er móti tillögur um lækkun húshitunarkostnaðar á þeim svæðum þar sem hann er nú hæstur, marki stefnu um fyrirkomulag á niðurgreiðslum vegna hitunar á íbúðarhúsnæði og skoði hvernig unnt sé að stuðla að varanlegri lækkun húshitunarkostnaðar á svokölluðum „köldum svæðum“. Stefnt sé að því að þessi kostnaður verði sem næst kostnaði hjá meðaldýrum hitaveitum, eða tiltekið hlutfall af húshitunarkostnaði á orkuveitusvæði Orkuveitu Reykjavíkur og hjá sambærilegum hitaveitum. Nefndin verði skipuð fulltrúum þingflokka, sveitarfélaga og orkufyrirtækja og skili tillögum sínum fyrir 1. október 2012.“
Frumvarp lagt fram um aðgerðir til lækkunar á húshitunarkostnaði
Þótt tillagan hlyti ekki afgreiðslu má segja að andi hennar hafi svifið yfir vötnum í vinnu nefndar sem þáverandi iðnaðarráðherra skipaði m.a. með sérfræðingum og fulltrúum hinna svokölluðu „köldu svæða“. Nefndin skilaði áliti sínu 19. desember 2011. Það verður hins vegar að segja þá sögu eins og hún var að fátt gerðist í þessum málum í kjölfarið og ekkert af því sem mestu máli skiptir og lagt var til í nefndinni.
Þegar fullreynt var um að eftir þessum tillögum yrði unnið af alvöru, vann ég frumvarp upp úr tillögum þessarar nefndar og lagði fram á Alþingi. Í ljósi þess að hér var um að ræða mál sem ekki er í eðli sínu flokkspólitískt heldur miklu fremur byggðapólitískt, lagði ég mig fram um að leita þverpólitískrar samstöðu um málið, líkt og ég hafði gert varðandi fyrrgreinda þingsályktunartillögu. Segja má að þetta hafi tekist; þingmenn fjögurra stjórnmálaflokka stóðu að málinu með mér.
Sjá frumvarpið hér: http://www.althingi.is/altext/141/s/0295.html
Hverjar voru tillögur nefndarinnar frá árinu 2011?
Kjarni þessa frumvarps fólst í niðurstöðu nefndarinnar sem skilaði áliti sínu í árslok 2011. Sú nefnd hafði lagt til að orkukostnaður dreifbýlis og þéttbýlis yrði jafnaður og í annan stað yrði kostnaður við dreifingu og flutning raforku greiddur niður að fullu í því skyni að lækka húshitunarkostnað á svæðum sem byggju við rafhitun. Fram kom í skýrslu nefndarinnar að þessi aðferð hefði það í för með sér að húshitunarkostnaður á rafhitunarsvæðunum (köldu svæðunum) yrði álíka og hjá hinum dýrari hitaveitum í landinu.
Sjá krækju inn á skýrsluna: https://www.atvinnuvegaraduneyti.is/utgafa/frettir/eldri-frettir/idn/nr/1513
Sannarlega er sá kostnaður meiri en til dæmis hjá ódýrustu hitaveitunum svo sem Orkuveitu Reykjavíkur.
En þó ekki hærri en hjá dýrari hitaveitunum. Og – það er kjarni málsins – það var viðurkennt að ósanngjarnt væri að við sem búum á svæðum sem verða að nýta rafmagn til húshitunar þyrftum ekki að greiða fyrir dreifingu og flutning raforkunnar. Það væri samfélagslegt verkefni og að aðgangur okkar að raforkunni væri þannig jafnaður.
Staða dreifbýlisins á landsbyggðinni var verst
Höfum í huga að einvörðungu 10% landsmanna nýta rafmagn til húshitunar og hafa því búið við sligandi húshitunarkostnað. Átak hefur verið gert til þess að leita að jarðhita og byggðir hafa verið inn hvatar í kerfið til þess að stuðla að aukinni jarðhitanotkun til húshitunar. Þetta hefur skilað árvissum árangri og því hefur þeim smám saman fækkað sem hafa þurft að nýta raforkuna til að hita hús sín.
Þegar málin eru skoðuð þá blasir við að húshitunarkostnaðurinn hefur verið langmestur í dreifbýlinu í landinu. Þetta getum við séð með því að rýna í tölur um árlegan kostnað 180 fm húss frá því í október 2010 á svæði RARIK:
- Rafhitun í dreifbýli: 238.196 kr
- Rafhitun í þéttbýli: 200.645 kr.
- Kyntar hitaveitur hjá Orkubúi Vestfjarða, ( fjarvarmi) 170.436.
Það var því viðblasandi að sanngjarnast var að ráðast fyrst á það óréttlæti sem gilti gagnvart dreifbýlinu og sem betur fer varð það niðurstaðan. Á þessu kjörtímabili hafa verið samþykkt tvenn lög sem taka á því hróplega óréttlæti sem hefur ríkt varðandi húshitunarkostnaðinn á svæðum sem búa við rafhitun.
Samþykkt voru lög þann 3. mars í fyrra sem fólu í sér sérstaka niðurgreiðslu á dreifikostnaði í dreifbýli, þ.e. á svæðum með færri en 200 íbúa. Þarna munar miklu fyrir það fólk sem í dreifbýli býr og verður það jafnsett íbúum á þéttbýlisstöðum sem búa við rafhitun. Og núna um áramótin tóku gildi lög sem, eins og fyrr greinir, tryggja dreifingu og flutning á raforku. Þetta er í samræmi við tillögur fyrrgreindrar nefndar sérfræðinga og fulltrúa „köldu svæðanna“ og nánast orðrétt í samræmi við frumvarpið sem ég hafði forgöngu um að flutt var af fulltrúum fjögurra stjórnmálaflokka haustið 2012.
Réttlætismáli róið í höfn
Nú má því segja að miklu réttlætismáli hafi verið róið í höfn. Ánægjulegt er að vita til þess að um þessi máli ríkti í rauninni ótrúlega mikil pólitísk samstaða þegar til stykkisins kom. Umræða síðustu ára skilaði því að flestir sáu að við svo búið mátti ekki lengur standa. Og undir lokin stóð ágreiningurinn fremur um fjármögnun þessarar aðgerðar en um það grundvallaratriði að jafna húshitunarkostnaðinn. Það er í sjálfu sér líka árangur.
Nú hefur þessi aðferð verið lögfest og fráleitt er því annað en að við getum treyst því að þetta fyrirkomulag standi, til heilla þeim byggðum og íbúum sem hafa mátt þola sligandi kostnað á undanförnum árum við það eitt að halda á sér hita í húsnæði sínu.
Einar Kristinn Guðfinnsson, forseti Alþingis og þingmaður Norðvesturkjördæmis.