Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Ný landbúnaðarstefna á grunni umhverfis, sjálfbærni, sérstöðu og verðmætasköpunar
Mynd / smh
Lesendarýni 15. febrúar 2021

Ný landbúnaðarstefna á grunni umhverfis, sjálfbærni, sérstöðu og verðmætasköpunar

Höfundur: Svavar Halldórsson

Öll ríki reka einhvers konar matvæla- eða landbúnaðarstefnu og þar er Ísland engin undantekning. Lengi vel mótaðist þessi stefna af þáttum eins og byggðafestu og matvælaöryggi. Meginstefið í landbúnaðarstefnu allra vestrænna ríkja var þannig að tryggja nægilegt framboð af matvælum í helstu fæðuflokkum. Hliðarmarkmið snerust um að halda landi í byggð, nýta auðlindir o.fl. í þeim dúr. Á síðustu áratugum hafa hins vegar orðið miklar breytingar á framleiðsluaðferðum, umgjörð smásöluverslunar og viðhorfum neytenda.

Viðbrögð við breyttum heimi

Þessum breytingum hafa stjórnvöld reynt að mæta með ýmsum hætti. Offramleiðslu og kjötfjöllum var víða mætt með kvótakerfum og uppkaupum hins opinbera. Í öðrum tilfellum voru það beinir framleiðslustyrkir og tollar sem voru viðbragð stjórnvalda. Víðast er um að ræða blöndu af þessu öllu saman. Nú er svo komið að heimurinn er bundinn í viðamikið net alþjóðlegra samninga, bandalaga og regluverks sem myndar flókna umgjörð um landbúnað og viðskipti með landbúnaðarafurðir. En ný viðhorf hafa rutt sér til rúms á allra síðustu áratugum.

Ný viðhorf orðið ofan á

Þessi nýju viðhorf snúa að því að styðja við það sem smærra er í sniðum, gæta að menningarlega mikilvægum matarhefðum og líffræðilegum fjölbreytileika, leggja áherslu á fjölskyldubú, lífræna ræktun, umhverfismál o.s.frv. Þetta nýja viðhorf 21. aldarinnar mætti vel kalla hringrásarviðhorf. Áherslan er jöfnum höndum lögð á gæði, hreinleika, siðlega búskaparhætti og umhverfið, en verð er ekki ráðandi þáttur, þótt það sé vissulega eitt af því sem horft er til.

Ódýr matur er úrelt viðhorf

Eldri nálgunin, þar sem megin­áhersla er á lágt verð á matvælum, mætti að sama skapi kalla 20. aldar viðhorf, þótt þó séu enn ríkjandi víða. Þetta kerfi kristallast í trú á stórtæka framleiðslu eða verksmiðjubú, lágt verð og risastóra stórmarkaði, notkun á GMO og eiturefnum og sumum tilfellum áherslu á einhliða niðurfellingu tolla.

Þessir tveir meginstraumar takast á í allri matvælaframleiðslu og stefnumótun á Vesturlöndum. Hið sama gildir á Íslandi. En nánast hvert sem litið er í veröldinni, sérstaklega í Evrópu, sjáum við að hringrásarviðhorfið er smátt og smátt að hafa betur í baráttunni við sjónarmið verksmiðjubúskapar. Áhersla á umhverfismál, lífrænt, sérstöðu og uppruna verður sífellt veigameiri í allri stefnumótun Evrópusambandsins í matvælaframleiðslu og landbúnaði.

Lærum af þeim bestu

Um þrjátíu ár eru síðan Danir settu sér ítarlega og metnaðarfullu stefnu um lífræna framleiðslu. Markið var sett á að verða forysturíki hvað varðar bæði framleiðslu og neyslu á lífrænum vörum. Það hefur tekist og nú er svo komið að Danmörk er í forystu í veröldinni í neyslu á lífrænt vottuðum matvörum og í fararbroddi í framleiðslu. Það var fyrst og fremst vegna nýrrar stefnu og sterkrar pólitískrar forystu sem þetta tókst hjá frændum okkar.

Ný landbúnaðarstefna á forsendum umhverfismála

Á Íslandi er líka kominn tími á að móta nýja landbúnaðarstefnu þar sem matvælaframleiðsla og umhverfismál eru tvinnuð saman. Slík stefna þarf að vera framsækin, háleit og raunhæf. Grundvallaratriðið ætti að vera að allur opinber stuðningur við landbúnað sé bundin við mælikvarða umhverfis- og dýravelferðar. Þannig má greiða fyrir aukinni verðmætasköpun á grundvelli sjálfbærni, sérstöðu og velferðar. Umhverfið, bændur og neytendur munu njóta þessa.

Helstu þættir nýrrar umhverfis- og landbúnaðarstefnu ættu að lúta að kolefnisfótspori, eitur- og varnarefnanotkun, landnýtingu, endurvinnslu og dýravelferð. Gefa má bændum og framleiðendum nokkurra ára aðlögunartíma en á endanum verði kerfið þannig að enginn matvælaframleiðandi fái nokkurs konar fyrirgreiðslu frá hinu opinbera án þess að það sé bundið skilyrðum sem tengjast umhverfismálum og dýravelferð.

Við erum í góðri stöðu

Staðan er nú þegar sú að 90% sauðfjárbænda á Íslandi hafa tekið þátt í landbótastarfi og 95% lambakjötsframleiðslu er undir hatti gæðastýringar þar sem ábyrg landnotkun er ein meginstoðin. Hins vegar er ekki greint á milli þessara afurða í markaðsstarfi. Stór hluti stuðningskerfisins er líka óháður því hvort bændur standa sína vakt í umhverfismálum. Skussarnir fá líka ríkisstyrki, en þeir eru sem betur fer fáir. Dýravelferðarsamningar á milli bænda og afurðakaupenda eru að ryðja sér til rúms og kúabændur hafa rekið áhugavert verkefni sem heitir fyrirmyndarbú.

Íslendingar munu aldrei geta unnið í samkeppni við ódýra matvælaframleiðslu í ríkjum þar sem eftirlit með efnanotkun er lítil og dýravelferð í skötulíki. En það er hins vegar ekki þar sem við eigum að keppa. Við eigum að setja markið hátt og samtvinna umhverfismál og matvælaframleiðslu. Það á að vera kjarni nýrrar landbúnaðarstefnu! Með því getum við tekið forystu meðal þjóða á sama tíma og við styrkjum innlenda verðmætasköpun á sjálfbæran og umhverfis­vænan hátt.

Ný landbúnaðarstefna sem byggir á hringrásarhugsun

Sá tími er liðinn að landbúnaðar­stefna á Íslandi eigi að snúast um að styrkja með skattfé hvern einasta mann sem vill halda húsdýr. Sá tími er líka liðinn að umræða um landbúnað eigi að snúast að mestu um styrki og aðkomu hins opinbera. Íslenskur landbúnaður á að halda áfram að framleiða úrvals afurðir sem neytendur vilja kaupa, í sátt við samfélag og náttúru. Á því geta ekki lengur verið neinar undantekningar.

Undirritaður er fyrrverandi starfsmaður íslenskra bænda, með prófgráður í stefnu­mótun, matarmenningu og markaðs­setningu. Hann er lands­fundar­kjörinn í atvinnu­vega- og umhverfisnefndir Sjálfstæðis­flokksins. Þessar hugmyndir hafa verið kynntar öðrum nefndar­mönnum, þingflokki og öðrum forystumönnum flokksins, og viðbrögð verið jákvæð.

Við sem samfélag erum tilbúin að styðja við bakið á íslenskum bændum, en á móti viljum við, að þeir uppfylli ströng skilyrði um umhverfisvernd, dýravelferð, lyfja- og efnanotkun. Það er kominn tími á nýja landbúnaðarstefnu á grunni sjálfbærni, sérstöðu og verðmætasköpunar. Hér eru fystu drög að henni.

Svavar Halldórsson
Höfundur er landsfundarkjörinn
í atvinnuvega- og umhverfisnefndir Sjálfstæðisflokksins.

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...