Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Frá Sólheimum í Sæmundarhlíð í Skagarfirði
Frá Sólheimum í Sæmundarhlíð í Skagarfirði
Mynd / Aðsendar
Lesendarýni 16. október 2023

Rafgæði í búskap

Höfundur: Valdemar Gísli Valdemarsson, Höfundur er rafiðnfræðingur með ódrepandi áhuga á rafmagni, náttúrulegu sem manngerðu, og mögulegum áhrifum þess á líðan manna og dýra.

Það er löng saga fyrir því að rafmagn á röngum stað geti valdið búsifjum. Flestir kannast við hugtakið skrefspennu og þá staðreynd að dýr finna fyrir mun lægri spennu en við mennirnir. Enda eru dýrin berfætt en við í einangruðum skóm.

Valdemar Gísli Valdemarsson.

Í ritum Friðþjófs Hraun­dal um rafmagn og neysluveitur fer Friðþjófur yfir mikilvægi rétts frágangs rafmagns gagn­ vart nautgripum. Þessi frágangur er auðvitað löngu staðlaður og festur í sessi í reglu­gerðum en tölurnar sem hann tíundar eru athyglisverðar. Þar kemur fram að 3ja ára gömul kýr sýnir óróa þegar spenna milli fóta, skrefspenna, er komin í 5 V og straumurinn 5millí Amper eða 5 þúsundustu úr Amperi. Þegar spennan er kominn í 13Volt er órói mikill og kýr farin að hoppa. 10 ára kýr þarf hærri spennu en greinileg merki um óróa við 13V. Hestur er farinn að sýna greinilegan óróa við 6Volt. Langtíma áhrif skrefspennu hljóta því að reyna á þolrif dýra og skerða lífsgæði þeirra verulega.

Öðru hvoru kemur upp umræða um möguleg áhrif rafspennu eða rafgeislunar á dýr og er í því samhengi talað um kýr í ljósi þess að þegar þeim líður ekki vel þá fellur mjólkin í gæðum og júgurbólgur verða tíðar með tilheyrandi tjóni. Það er nokkuð um það að bændur leiti leiða til að laga slæmt ástand með skoðun á rafmagni og mögulegum lekastraumum innan dyra. Ein slík ráðstöfun er uppsetning á góðu jarðskauti. Tilgangurinn með því er að fella spennu á jarðbindingum eins langt niður og kostur er og losna við mögulega flökkustrauma. Gólf og burðarvirki er gjarnan jarðtengt og þegar járnabinding í gólfi er jarðtengd er talað um sökkulskaut. Það er þó varla hægt að tala um það sem skaut heldur frekar sem spennujöfnun til að tryggja að allir leiðandi hlutir séu með sömu spennu og ekki fari að myndast mismuna spenna milli leiðandi hluta eins og til dæmis milli grinda og gólfs eða grinda og burðarvirkis.

Í tengiskilmála Samorku er nokkrum skilmálum lýst og eru nokkrir til en þriggja fasa rafmagn er vinsælt og þá er notast við tengiskilmála sem kallast TN­C. Það þýðir að þrír fasar eru teknir inn í rafmagnstöflu og deilt á álag innan húss og á móti kemur ein taug sem kallast N eða Núll em á að bera allan mismunastraum tilbaka til spennustöðvar. Þessi taug er tengd í jarðsamband hússins. Þannig hafa allir jarðtengdir leiðandi hlutar sama spennuviðmið. Sé ekki sérstakt jarðskaut á jarðsambandi má búast við að það sé spennufrávik frá þessari N tengingu og til raunjarðar.

Þá kemur upp vandamál sem fellst í því að járnagrind í gólfi eða sökkulskaut getur verið að leiða út í jarðveg og myndar þannig straumfarveg eftir óskilgreinanlegum leiðum um gólf og burðarvirki. Þessu fylgir líklega skrefspenna en hún ætti að vera afar lág. Sé horft til sveitar í friðsælum dal þar sem kannski 6 bújarðir njóta rafmagns frá sama spennir orkuveitu héraðsins. Allir notendur eru með N taugina tengda við jörð og jörðin gefur straumleið til spennistöðvar og flytur rafstraum sem er mismunastraumur þriggja fasa hvers notanda og ræðst af álagsdreifingu hverju sinni. Því hríslast rafstraumar um jarðir þessara bújarða til jarðskauts spennistöðvar. Alls staðar þar sem rafstraumur fer um jörð verður til dauf skrefspenna sem mögulega enginn finnur fyrir en hugsanlega finna dýrin fyrir þessu.

Hafa fengið að kynnast búsifjum

Bændur á Sólheimum í Sæmundar­hlíð, Skagafirði hafa fengið að kynnast búsifjum vegna rafmagns. Ekki er alveg hægt að fullyrða hvað veldur en saga þeirra sl. 5 ár einkennist af erfiðleikum og allt bendir til að hægt sé að rekja þeirra vanda til rafmagns og frágangs þess.

Árið 2017 reistu ábúendur á Sólheimum nýtt fjós sem byggt er við gamla fjósið, sem tekið var í notkun 4. janúar 2018. Á meðan á byggingu stóð tóku bændur eftir því að óróleiki kom í kýr þegar grunnur var tekinn og byggingakrani reistur og var settur í samband við rafmagnið. Pirringur var augljós, halasláttur og óróleiki í gamla fjósinu.

Þegar byrjað var að mjólka í nýja fjósinu gengu hlutirnir ekki eins og reiknað var með en hafa ber í huga að alltaf tekur tíma fyrir bæði menn og dýr að aðlagst nýrri tækni en þetta var miklu meira en það. Kýr voru mjög ófúsar að fara í mjaltaþjóninn, þær stóðu frekar fyrir utan opinn mjaltaþjóninn með júgrin full en að reyna að fara í mjaltir. Það þurfti að sækja kýr í mjaltabásinn sem getur ekki talist eðlilegt og voru margar kýr óþekkar í mjöltum.

Í apríl var áberandi að kýrnar spennujöfnuðu sig í mjöltum með því að setja bóg út í grindverk meðan kjarnfóður var étið. Nýbornar kýr misstu lystina og fóðruðust ekki og þurfti að lóga. Kýr um allt fjós voru pirraðar sem sást á halaslætti og eyrnablaki. Í framhaldinu voru gerðar rafsegulsviðs mælingar í fjósinu og kom í ljós að rafsegulsvið var all hátt víða en hæst við mjaltaþjón sem bendir til að svokallaðir flökkustraumar hafi verið á sveimi í járnavirki en það var ekki mælt á þessum tíma með ampermæli. Í framhaldi af þessum mælingum var spennujöfnun aukin með því að t.d. svera upp jarðvír í mjaltaþjón og voru m.a. átgrindur spennujafnaðar. Þarna var komið vor og ástandið lagaðist mikið. Kýr fóru að koma sjálfviljugar í mjaltir og eðlileg hegðun að flestu leyti. Veturinn 2018 og 2019 kom varla frost í jörðu, vetur mjög mildur. Árið 2019 gekk vel i fjósinu og frumutala ásættanleg. Um sumarið kom mikill þurrkakafli og á þeim tíma kom aukinn pirringur í kýrnar en það lagaðist þegar fór að rigna.

Í desember 2019 skellur á hið versta veður og í kjölfarið fer að bera á óeðlilegu heilsuleysi hjá kúnum sem smátt og smátt fór versnandi.

Óútskýrð júgurbólgutilfelli, lystarleysi, slæm mæting í mjaltir og kýrnar héldu verr. Í mars 2020 eru kýr farnar að mæta frekar illa í mjaltir og hreinlega bökkuðu út úr mjaltaþjóninum ef hann var ekki búinn að loka á eftir þeim. Yngri kýr létu mjög illa í mjöltum, spörkuðu og voru jafnvel hættulegar á meðan á mjöltum stóð. Þær sýndu einnig duttlunga gagnvart kjarnfóðuráti í mjaltaþjóni. Einnig var óútskýrður pirringur um allt fjós sem lýsti sér sem halasláttur og eyrnablak.

Algengt var að kýr misstu lystina eftir burð, fengu júgurbólgu og þurftu mikla aðhlynningu. Dýrlæknir var afar tíður gestur og lyfjagjöf virkaði illa. Þar sem kalkgjöf í munn virkaði illa þá voru kýrnar sprautaðar undir húð með kalki í marga daga í röð, allt að mánuð. Þennan vetur voru notaðir um 15 lítrar af kalki undir húð sem er margfalt það magn sem venjulega er notað. Kýr sem lentu í þessu mjólkuðu frekar lítið og heilsufar ekki gott.

Frá upphafi var grunur um að rafmagn ætti einhvern þátt í þessu og bændur prófuðu sig áfram en ómarkvisst því ekki var vitað um hvað við var að eiga. Rarik var fengið til að mæla jarðskaut á spennistöð þeirri sem bærinn var tengdur við. Mælingar á jarðskautsviðnámi sýndi einu sinni lagt og ásættanlegt gildi en oftar mældist ekkert.

Viðnám getur farið eftir veðri og raka í jörð. Í maí 2020 voru jarðskautin mæld aftur með ásættanlegt viðnám. Þéttabanki var settur upp á rafmagnsstofninn inn í fjósið en sá hafði engin jákvæð áhrif á kýrnar.

Bændur fóru að mæla

Bændur fengu ampertöng og fóru að mæla ýmislegt og allsskonar og komust að því að það var að koma straumur inn í fjós frá inntakstöflu um spennujöfnunarvír og hann mældist 0,24 amper.

Í júní 2020 var núllunarband í rafmagnstöflu tekið burtu (með leyfi) og treyst á jarðskautið sem fjósið hafði. Við þessa aðgerð lækkaði straumurinn sem fór um spennujöfnunarvírinn og urðu kýr mun sáttari við að koma í mjaltaþjóninn og ástandið varð miklu betra en bændur ekki alsáttir með þetta en svona var þetta haft þar til haust 2021.

Eftir það þá fóru bændur að gera ýmsar prófanir með spennujöfnun og var öll spennujöfnun í nýja fjósinu tekin úr sambandi og höfð þannig nokkrar vikur og þá varð frumutala lág og kýr þægar í mjöltum. Er frá leið var eins og spenna færi að hlaðast upp og sérstaklega í roki, þá var spennujöfnun sett í samband aftur með straumbeini á milli til að hindra að straumur bærist um fjósið en það var samt eitthvað sem bændur voru ekki sáttir við en svona var þetta til haustsins 2022. Merkilegt þótti að frá því að fjósið var tekið í notkun þá voru kýr settar út á sumrin en þær komu sjaldan sjálfviljugar inn í fjós til að fara í mjaltir. Þær hímdu jafnvel úti í roki og rigningu frekar en að koma inn í fjósið. Sumarið 2022 voru kýrnar mun viljugri að kom inn í fjós sjálfar.

Haustið 2022 kemur gestur í fjósið og segir að fjósið sé vitlaust spennujafnað, það sé spennujafnað í hring en það megi alls ekki. Þá fara bændur í þá vegferð að aftengja straumbeininn og að tryggja að allur búnaður og grindur séu bara jarðtengdar á einum stað. Hugsunin á bak við það er að hindra eftir fremsta megni hringrásastrauma.

Til dæmis var mjaltaþjónninn jarðtengdur á þremur stöðum en eftir breytingar bara á einum stað. Sama átti við um burðarvirki, í stað jarðbindinga á þremur stöðum var aðeins ein jarðbinding tengd.

Bændur eru næmir á líðan sinna dýra og fullyrti Valdimar bóndi á Sólheimum að meiri friður hefði færst yfir fjósið eftir þessar aðgerðir. Kýr sem áður flýttu sér út úr mjaltaþjóni þegar hann opnaði eru orðnar miklu slakari og mjaltaþjónn þarf jafnvel að ýta þeim út. Kýr drekka vatnið núna en áður var algengt að þær löptu upp úr vatnstrogi. Því hefur reyndar lengi verið haldið fram að það geti skipt sköpum að búnaður, járngrindur og burðarvirki sé bara spennujafnaður á einn tengipunkt, svokölluð stjörnutenging.

Óeðlileg tæring á vatnslögnum hefur átt sér stað í fjósinu og lagnir fóru að leka þegar fjósið hafði verið í notkun í tvö og hálft ár, útilokað var að þetta hafi verið galli í pípulagnaefni.

Það er ekki hægt annað en að samþykkja þá ályktun að rafmagn hafi eitthvað með þessi vandkvæði að gera.

Einkennileg hegðun dýranna, óeðlileg veikindi og jafnvel óútskýrður dauði virtist fylgifiskur þessa vandkvæða. Í heild er líklegt að bændurnir hafi misst úr framleiðslu um 20 kýr og orðið fyrir búsifjum vegna lélegra gæða mjólkur fyrir utan óhemju vinnu við að sinna þessu máli og leita lausna. Í dag eru nyt með allra besta móti og friður í fjósinu.

Það verður að teljast þjóðþrifa mál að komast að sannleikanum um hvernig koma má í veg fyrir tjón eins og hjá bændunum á Sólheimum. Finna lausnir byggðar á áreiðanlegum mælingum og skapa regluverk í kringum það sem gæti komið með öllu í veg fyrir að svona geti gerst.

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...