Vargöld í vændum?
Ég hef í nokkrum greinum hér í Bændablaðinu varað við þeirri stöðu sem sauðfjárbændur búa við. Á það ekki síst við um heimildarlausa beit þeirra á land annarra.
Nú í sumarlok er rétt að staldra við og meta stöðuna eftir atburði sumarsins.
Athyglisverðar staðreyndir
Það fór sem við mátti búast, að sveitarstjórnir sinntu í engu smölun ágangsfjár þrátt fyrir skýlaus lagafyrirmæli þar um. Staðan er því sú að við landeigendur, sem unum ekki óheimilli beit nágranna á okkar land, getum átt von á að standa frammi fyrir sama vandamáli á næsta sumri. Eigi að síður hafa komið fram athyglisverðar staðreyndir í málarekstri okkar gagnvart sveitarfélögunum í sumar. Í svari lögmanns Svalbarðsstrandarhrepps til mín, kemur fram að sveitarfélög hafa enga heimild til að ákveða jörðum upprekstrarrétt í heimalöndum. Slíkar heimildir eru einkaréttarlegs eðlis og geta aðeins byggt á samningum eigenda eða hefðarsjónarmiðum.
Orðrétt segir, „sveitarfélag hefur ekki ákvörðunarvald um hvað telst sameiginlegt beitarland, heldur er þar um að ræða hagsmuni sem eigendur viðkomandi réttinda geta ráðstafað og rísi ágreiningur er þar um að ræða einkaréttarlegan ágreining“.
Í minnisblaði sem ég fékk Guðrúnu Sólveigu Pöpperl á LEX lögmannsstofu til að vinna fyrir mig varðandi ágreining um upprekstur í heimalönd segir:
„18. Í þessu samhengi er einnig vert að nefna Hrd. 83/1986 (Flateyjardalsheiði), hvar deilt var um hvort tilteknum jörðun hefði fylgt upprekstrarréttur. Hæstiréttur leit svo á að vitneskja þáverandi eigenda jarðanna og forvera þeirra um að hinar umdeildu landspildur væru í eignarráðum annarra aðila stæði því í vegi, að eigendur hafi mátt vinna hefð á rétti til upprekstrar á heiðinni, sbr. 2. gr. hefðarlaga nr. 46/1905. Var krafa eigendanna um upprekstrarrétt því ekki tekin til greina.
19. Það er meginregla í íslenskum rétti að sá sem telur sig hafa öðlast eignarétt, beinan eða óbeinan, yfir tiltekinni jörð á grundvelli hefðar verður að færa sönnur á þann rétt sinn. Er það ljóst meðal annars af þeim mörgu þjóðlendumálum sem rekin hafa verið fyrir dómstólum hér á landi, þar sem aðilar hafa gert kröfu um að þeir hafi öðlast beinan eignarrétt yfir tilteknu landsvæði á grundvelli hefðar. Það ætti því að hvíla á þeim aðilum sem telja sig eiga beitarrétt í heimalöndum jarða í Vaðlaheiði að sanna þau réttindi sín, ef þau réttindi verða vefengd af hálfu eigenda viðkomandi jarða.“
Það er því hafið yfir allan skynsaman vafa, samkvæmt ofanrituðu, að sauðfjárhöldurum er aðeins heimil beit á annarra manna land að fyrir liggi samningar sem heimila slíkt. Hefðun er ekki til að dreifa þar sem hæstaréttardómur liggur fyrir um mál af þessu tagi þ.e. ef eignarhald á því landi sem sauðfjárhaldari hyggst beita er þekkt er krafa um hefðun á upprekstrarrétti ekki tekin til greina (í þinglýstum gjörningum um landamerki kemur eignarhald alla jafna skýrt fram).
Aðgerðaleysi kallar á átök
Ef sveitarstjórnir, og eftir atvikum lögregla, sinna ekki skyldu sinni um smölun ágangsfjár á sumri komanda og löggjafinn aðhafist ekkert til að gera sauðfjárhöldurum ljósa stöðu sína, er ljóst að þolinmæði okkar landeigenda er á þrotum ef sauðfjárbændur halda áfram að beita í heimildarleysi okkar land. Við getum ekki unað því að á rétti okkar til friðhelgi einkalífs sé brotið og stjórnarskrárvarinn eignarréttur okkar ítrekað fótum troðinn.
Okkur er því nauðugur sá einn kostur að verja rétt okkar með þeim aðferðum sem hvert og eitt okkar telur nauðsynlegt. Ég fyrir mína parta mun auglýsa á mínu heimasvæði að ég ber enga ábyrgð á afdrifum þess fjár sem leitar í mitt land í framtíðinni enda tel ég að með heimildarlausri beit í ógirt land sé um beina innrás á eigur annarra að ræða.
Ég hef tekið upp svokallaða fjallsgirðingu fyrir mínu landi, girðingu sem hafði enga lagastoð og var reist þegar það voru hagsmunir allra jarða í hreppnum að girða slíka girðingu. Nú eru þær forsendur fyrir löngu brostnar þó ýmsir, sem lifa í viðjum vanans, séu annarrar skoðunar. Það er þá þeirra að sækja mig til saka.
Það þarf engum, sem hafa lesið fyrri greinar mínar, að koma á óvart afdráttarlaus afstaða mín. Auk greinarskrifa hef ég skrifað matvælaráðherra og þingflokksformönnum og hvatt til aðgerða. Mér er mjög í mun að sauðfjárbændur þekki sinn vitjunartíma og aðlagi búskap sinn að þeim raunveruleika sem við blasir. Því miður virðast forsvarsmenn bænda, með formann Bændasamtakanna fremstan í flokki, velja að fara eigin leiðir. Í leiðara í síðasta Bændablaði fer formaðurinn fögrum orðum um atvinnufrelsið sem varið er samkvæmt 75. gr. stjórnarskrárinnar og getur þess réttilega að koma þurfi fram í lögum heimildir til að skerða atvinnufrelsið og jafnframt að almannahagsmunir þurfi að vera til staðar til að hægt sé að krefjast skerðingar. Honum er hins vegar ekki jafn annt um eignarréttinn sem varinn er samkvæmt 72. gr. sömu stjórnarskrár og krefst sömu skilyrða og gilda um atvinnufrelsið ef skerða á eignarréttinn þ.e. almannaheillar og lagasetningar. Formanninum finnst í lagi að káfa upp á eignarréttinn ef það er í þágu sauðfjárbænda. Það er dapurlegt að samtök sem hafa löglærðan framkvæmdastjóra í starfi, og yfirlögfræðing að auki, skuli ekki geta ráðið formanninum heilt þegar hann drepur niður penna. Bændum, ekki síst sauðfjárbændum, er nauðsyn að velja sér forystu sem horfir til framtíðar en lítur ekki endalaust í baksýnisspegilinn.
Það er von mín að sauðfjárbændur noti tímann fram undan og leiti samninga við nágranna sína um heimildir til að beita þeirra land. Slíkt fer enda saman við kröfur sem þeim eru ætlaðar til að geta notið greiðslna fyrir gæðastýringu í greininni. Bændum verður þó að vera ljóst að slík beit verður að vera innan girðinga eða náttúrulegra marka sem tryggja að ekki verði ágangur á lönd þeirra sem ekki samþykkja slík not.