Meira þarf til en bókhaldsbrellur
Kofi Annan, friðarverðlaunahafi og framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna 1997–2006, sagði eitt sinn: „Ég veit af eigin reynslu að tvennt er það sem fólk lætur síst af hendi, og lætur heldur ekki sannfærast um að það ætti að afsala sér, það eru forréttindi og styrkir.“ Hann bætti svo við: „Við heyrum mikið talað um styrki vegna þess að það er yfirleitt forréttindafólkið sem er að tala um hina fátæku.“
Eins og fjallað var um í grein í þessum dálki í sumar er það nær árlegur viðburður að umræða sé tekin upp um umfang stuðnings við landbúnað. Það gerist yfirleitt í kjölfar birtingar Efnahags- og framfarastofnunarinnar á úttekt sinni á stuðningi við landbúnað. Stundum er látið líta út fyrir að stuðningur við landbúnað sé gamaldags og púkalegur og keyri úr hófi fram á Íslandi. Staðreyndir málsins eru þær að beinn stuðningur við landbúnað á Íslandi er 0,5% af vergri þjóðarframleiðslu en 0,6% í ríkjum Evrópusambandsins. Við erum á sama stað og aðrar ríkar þjóðir í harðbýlum landbúnaðarlöndum.
Grunnhyggni í umfjöllun
Ég hef í Vísbendingu (16.07.2021) og á www.visir.is (19.06.2021) gagnrýnt grunnhyggni í þessari umfjöllun. Þannig er til að mynda ekki tekið tillit til eigna og ráðstöfunartekna fjölskyldubúsins í umfjöllun um tekjur bænda né framlags þeirra til almannagæða. Og það er látið eins og markmið niðurgreiðslna og mat á árangri þeirra hafi ekki breyst gegnum árin þegar hið rétta er að markviss umræða hefur skilað sér í ábyrgri stefnumótun. Söguvitund þeirra sem um þessi mál fjalla mætti einnig vera skárri. Til að mynda var því haldið fram af Þórólfi Matthíassyni í svari á Vísindavefnum um daginn (9.11.2021) að ótti við mögulegan matarskort við upphaf og í kjölfar síðari heimsstyrjaldar hafi verið ástæða þess að þjóðir heims tóku upp þá stefnu að styðja við landbúnað upp úr miðri síðustu öld. Tökum þá fullyrðingu aðeins til bæna.
Ástæðan var hreint ekki ótti heldur var um að ræða raunverulegan matarskort mjög víða. Til að mynda var viðvarandi matvælaskortur í tæpan áratug í Evrópu, frá upphafi stríðsins fram til 1947. Í lok stríðsins var hitaeiningafjöldi sem hver íbúi í Þýskalandi átti að fá 1400 kaloríur. Það er langt undir þörf, ráðleggingar Landlæknisembættisins í dag eru u.þ.b. 2500 kaloríur fyrir fullorðinn einstakling. Eftir stríðið versnaði staðan talsvert mikið. Um mitt ár 1946 var hitaeiningafjöldi um þúsund kaloríur, bæði í Frakklandi og í Þýskalandi. Staðan var svo mun verri víða í Austur-Evrópu. Þeim löndum sem stóðu utan átakanna var heldur ekki borgið. Í Sviss var meðalhitaeiningafjöldi sem þarlendir neyttu 28% færri í lok stríðsins en við upphaf. Það var því að gefnu tilefni sem Evrópa ákvað að verða sér sjálfri sér nóg um matvæli.
Frjálshyggjuklisjur duga skammt
Í dag er Evrópa stór útflytjandi af mat og ofgnóttin er frekar til bölvunar en hitt. Umræðan um vínvötn og smjörfjöll var hávær í Evrópu á níunda áratugnum, rétt eins og umræða um kjötfjöll var hérlendis. Áskoranir tímanna breytast svo nú er stefnt að því að evrópskir bændur dragi úr notkun á áburði og öðrum aðföngum á næstu tíu árum til þess að ná markmiðum í loftslagsmálum. Það markmið er mjög mikilvægt. Ef ekki næst að hemja gróðurhúsaáhrifin verða miklar hörmungar. Hins vegar hefur verið bent á að það geti farið svo að Evrópa fari úr því að vera matarútflytjandi í það að vera innflytjandi ef illa tekst til. Það að draga saman landbúnaðarland og minnka notkun áburðar geti ekki haft önnur áhrif en að framleiðslan muni minnka talsvert. Þannig muni tvennt gerast, annars vegar að útblástur gróðurhúsalofttegunda lekur burt til annarra landa og að matvælaverð á heimsvísu muni hækka. Hvort tveggja er afleitt.
Hinar raunverulegu áskoranir næstu ára og áratuga eru ekki þær að minnka stuðning við landbúnað. Enda virðast fáir tala um það nema þeir sem lokast hafa inni í sílóum akademíunnar. Framtíðarspurningin er hvernig unnt reynist að framleiða nægjanlegan mat á viðráðanlegu verði í sátt við loftslagið. Það segir sig sjálft að það hvetur engan til fjárfestinga í umhverfisvænum búnaði að klifa um leið á því að lækka þurfi afurðaverð hérlendis niður í svokallað heimsmarkaðsverð. Slíkt yrði eingöngu til þess að útblásturinn myndi leka eitthvert annað. Niðurstaðan er sú að frjálshyggjuklisjur duga skammt í umræðu um niðurgreiðslur og forréttindi. Í besta falli duga þær í bókhaldsbrellur.
Kári Gautason
Höfundur er sérfræðingur í úrvinnslu hagtalna hjá Bændasamtökum Íslands