Tangó, tvist og fúin spýta
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Sagt er að það þurfi tvo til að dansa tangó ef eitthvert vit á að vera í verknaðinum. Kannski forystumenn í innflutningsverslun þurfi eitthvað að skoða það nánar.
Árum saman hefur verið hafður uppi hávær áróður fyrir nauðsyn þess að lækka hér tolla á landbúnaðarvörum og öðrum nauðþurftum. Alltaf er látið fylgja með að það sé umhyggja fyrir hag neytenda sem ráði þeirri afstöðu. Þannig hafa menn leynt og ljóst reynt að fá almenning til að styðja tillögur sem vitað er að geta haft geigvænlegar afleiðingar fyrir íslenskan landbúnað. Þar með hugðust forystusauðir innflytjendaelítunnar næla sér í dansfélaga fyrir tangósýninguna.
Innflutningsagentum hefur vissulega orðið nokkuð ágengt í þessari herferð sinni eins og berlega hefur mátt sjá á samfélagsmiðlum. Þar hafa ýmsir rólyndismenn risið upp á afturlappirnar og bölvað bændum fyrir að vera afætur á ríkissjóði. Flottast þykir greinilega í þeirri umræðu ef vel tekst til að hnýta alla bændur með tölu við það „hræðilega batterí" Framsóknarflokkinn og krydda það uppbyggilegum fúkyrðaflaumi. Nokkrir „örugglega sjálfstæðismenn“ fá auðvitað að fljóta með og allir eiga þeir eflaust líka fullar ferðatöskur af peningum á Tortóla. Látum helvítin allavega reyna að afsanna þá fullyrðingu frammi fyrir „almenningsálitinu“. Svo ná menn líka mörgum „lækum“ frá „réttsýnu“ fólki fyrir þess háttar textasamsuður. Þykir þar örugglega útilokað að í þessum ranni geti leynst ærlegt fólk af holdi og blóði með tilfinningar. Hvað þá að það eigi börn sem hafa bæði heyrn og kunna að lesa.
Ný úttekt Alþýðusambands Íslands sýnir þó svo ekki verður um villst að sannleikurinn er ekki alltaf í takt við þau tré sem menn veifa. Í tollaniðurfellingaráróðrinum hafa menn greinilega frekar kosið að veifa röngu tré en öngu. Niðurstaða ASÍ er nefnilega á þá lund að tollaniðurfellingin á skóm og fatnaði er alls ekki að skila sér til neytenda eins og lofað var. Tangóinn er því að breytast í tvistsýningu með sólódansara.
Krafan um niðurfellingu verndartolla af landbúnaðarframleiðslu hefur verið sett fram með sama hætti. Þar hefur verið fullyrt árum saman að matvælaverð á Íslandi sé með því hæsta sem þekkist í Evrópu, já og bara ef ekki heiminum öllum! Skiptir þá engu þó margítrekað hafi verið lögð fram töluleg gögn frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, sem sýna að svo er alls ekki. Mörg súlurit frá Eurostat hafa verið birt í Bændablaðinu á liðnum árum sem sýna þetta. Meira að segja að Ísland sé ítrekað með lægsta matvælaverð á Norðurlöndum. Það getur þó verið erfiðara en ætla mætti að fá fólk til að trúa sannleikanum, þegar góð lygi er látlaust framreidd á listilegan hátt á borð neytenda.
Muna menn nokkuð eftir stóra kjötskortsmálinu um árið? Þá kenndu stórverslanir bændum um að standa ekki í stykkinu við að útvega nægt kjöt. Þetta væri skýr sönnun þess að fella þyrfti niður tolla og hefja innflutning í stórum stíl. Það var þó fátt um svör þegar fulltrúi Bændablaðsins fór á milli viðkomandi verslana og komst að því að kindakjöti hafði verið mokað úr kæliborðum stærstu verslananna og komið fyrir annars staðar til að sanna fullyrðinguna.
Væntanlega halda menn þó ótrauðir áfram að veifa fúna trénu framan í neytendur, í þeirri von að þeir trúi því á endanum að ekki sé á jarðríki til fallegri spýta.