Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Tölum um efnið
Skoðun 17. nóvember 2016

Tölum um efnið

Höfundur: Sigurður Eyþórsson
Það er slitnað upp úr fyrstu umferð stjórnarmyndunarviðræðna en áfram halda tilraunir til að mynda nýja ríkisstjórn í landinu. Eins og rætt var um hér á þessum stað í síðasta blaði þá voru kosningaúrslitin ekki afgerandi. Vilji er til breytinga en ekki byltingar. Þessi niðurstaða er meiri áskorun en ef ein „blokk“ hefði unnið stóran sigur og talið sig hafa umboð til byltingar án þess að hlusta á minnihlutann. 
 
Núverandi staða gerir þá kröfu til stjórnmálamanna að þeir leggi meira á sig til að ná saman – semja um niðurstöðu þannig að allir geti verið bærilega sáttir á eftir. Það getur verið vandamál og umræða síðustu daga hefur ekki verið mjög þroskuð. Það hefur verið mikið um útilokanir en minna um opnanir.  Það eru engin drottinssvik að gera málamiðlun því að enginn einn flokkur getur gert tilkall til höfundarréttar á sannleikanum.
 
Mismunandi skoðanir 
 
Við höfum öll mismunandi skoðanir og við deilum um fjölmarga hluti upp á hvern einasta dag. Vilji almennings fæst ekki afhentur í snyrtilegum gjafaumbúðum á Fésbókinni. Hann verður ekki til á einum stað, heldur út um allt samfélagið og hann er ekki ein skoðun heldur fjölmargar. Samfélagið okkar er einfaldlega fjölbreytt og margbrotið, þótt þjóðin teljist ekki fjölmenn á alþjóðavísu.
 
Þeir sem ætla sér að skilja samfélagið verða að lágmarki að skilja hvað það er fjölbreytt. Í því býr margs konar fólk sem hefur ólíkan bakgrunn, reynslu, þekkingu og menntun. Allt þetta skilar sér í ólíkum viðhorfum til þess hvernig við viljum haga sameiginlegum verkefnum. Um það myndum við hópa, stjórnmálaflokka eða annars konar samtök til að vinna okkar viðhorfum fylgi. Stjórnmálaflokkarnir keppa um hylli okkar í kosningum og við veljum þá sem við treystum best eða finnum mesta samsvörun með. Eða kjósum bara engan eins og einn af hverjum fimm kjósendum gerði því miður í nýliðnum kosningum. Var það vegna þess að þeir treystu engum eða að ekkert framboð höfðaði til þeirra? Á því eru vafalaust margar skýringar en það er áfellisdómur yfir öllum framboðunum að ekki tókst betur til.
 
Það þarf alltaf málamiðlanir
 
Stundum skila kosningar niðurstöðu sem okkur líkar ekki við. Fyrir suma virðist mikilvægara að einhverjum ákveðnum flokki gangi illa en að öðrum gangi vel og menn reiðast jafnvel þeim sem kjósa ákveðin framboð og kalla öllum illum nöfnum. Það mátti heyra að loknum kosningunum ýmsar heitstrengingar um að þessi eða hinn myndu ekki vinna saman.
 
Í stjórnarmyndunarviðræðum sem nú hefur slitnað upp úr var harkalega ráðist á einn þátttakanda, ekki vegna málamiðlana, heldur vegna þess að hann ætti ekki að tala við ákveðna aðila. En það er einmitt verkefnið sem kjósendur fólu hinu nýja þingi.  
 
Að ná niðurstöðu og gera málamiðlanir. Hafa áhrif í samvinnu við aðra. Það er erfitt fyrir marga, en það er það sem þarf að gera. Það er hægt að fara fram á að ráða öllu ef kjósendur hafa falið þér það vald, en hafi þeir ekki gert það þá er ábyrgðin að reyna að ná því fram sem hægt er – með því að leita sátta við önnur sjónarmið.
 
Að skilja fólk sem er þér ekki sammála og vinna með því að lausnum sameiginlegra mála okkar samfélags. Ekki byggja andlegan múr til að skilja sig frá því. Þetta er ekkert nýtt. Á lýðveldistímanum hafa kjósendur aldrei falið einum flokki stjórn landsins. Það hefur alltaf þurft málamiðlanir til og svo er einnig nú.
 
Landbúnaðarstefna í stöðugri mótun
 
Eitt af því sem deilt er um eru vissulega landbúnaðarmálin. Landbúnaðurinn hefur notið mikils velvilja í íslensku samfélagi í gegnum árin og flestir, ekki þó allir, vilja að það sé stutt við bakið á honum. Það er erfiðara að ná saman um hvernig á að gera það.
 
Lesendur þekkja vel umræðuna samhliða afgreiðslu búvörusamninga. Nú er að taka til starfa vinnuhópur til að endurskoða samningana næstu misserin. Mikilvægt er að nýta þann tíma vel til að ræða málin í heild.
 
Oft er umræða um þessi mál of bundin við gagnrýni á landbúnaðarstefnuna – eða landbúnaðarkerfið eins og það er oft kallað. Við það þurfi að losna, en lítið um útfærðar hugmyndir á móti. Hverju vilja menn raunverulega breyta og er vilji til að leita sátta við bændur um það? Það er ekki gott að vita.
 
Sumir vilja ganga í Evrópusambandið og væntanlega taka þá upp landbúnaðarstefnu þess. Það er heilmikið kerfi og verður ekki til einföldunar væri það tekið upp hér og bændur hafa lengi haft skýra stefnu þess efnis að þeir telji aðild að ESB ekki skynsamlega.
 
Hávær innihaldslaus umræða
 
En meginspurningin er; hvert vilja menn stefna? Í búvörusamningunum sem taka gildi um áramótin eru margs konar stefnubreytingar. Stundum er samt eins og umræðan nái aldrei undir yfirborðið eins og skemmtilega var orðað í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins um síðustu helgi: 
 
...Næstbrýnast sé að uppræta hinn hræðilega „búvörusamning“ sem 0,0001% þjóðarinnar hefur lesið, en mun stærri hluti aðeins séð afskræmingu nettrölla á, en þau eru á meðal þeirra sem ekki hafa lesið hann [...] Búvörusamningur hefur um alllanga hríð tryggt stöðugleika innlendrar landbúnaðarframleiðslu. Það væri skammsýni að grafa undan svo eftirsóknarverðum þætti íslensks þjóðlífs sem heilnæmur, hollur og góður landbúnaður er. Eyðilegging, einkum vegna sérvisku í bland við fordóma, yrði aldrei aftur tekin.
 
En til þess að ná árangri þarf að kafa undir yfirborðið, hafa skýr markmið og vilja til að ná niðurstöðu sem allir við borðið geti sætt sig við. Bændur eru og hafa alltaf verið tilbúnir í þá umræðu.
Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...