Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Vafi og vísindi – lögin eru skýr
Skoðun 31. janúar 2022

Vafi og vísindi – lögin eru skýr

Höfundur: Tryggvi Felixson

Þann 16. desember birtist grein í Bændablaðinu þar sem ég greindi frá því að stjórn Landverndar teldi að fram hefðu komið vísbendingar um að tvær framandi trjátegundir, stafafura og sitkagreni, hafi eiginleika sem kunni að gera þær ágengar í íslenskri náttúru.

Í Bændablaðinu 13. janúar sl. birtist andsvar Skógræktarinnar við greininni undir heitinu Enginn líffræðilegur veruleiki. Þar er tekið undir ákall stjórnar Landverndar um að áhrif stafafuru og sitkagrenis verði metin á vísindalegum grunni. En ef marka má greinina að öðru leyti, telur stofnunin að málið hafi nú þegar verið rannsakað hvað stafafuru varðar og að niðurstöður þeirra rannsókna sýni ekki að þær valdi rýrnun líffjölbreytni og gefi því ekki tilefni til sérstakra aðgerða.

Stjórn Landverndar er ekki á sama máli. Í grein Skógræktarinnar er gefið í skyn að annarleg sjónarmið liggi að baki og Landvernd sé að velja sér „óvin“. Svo er alls ekki og frábið ég samtökunum slíkar ásakanir af hálfu þessarar mikilvægu ríkisstofnunar sem Skógræktin vissulega er. Málefnið eitt ræður afstöðu stjórnar Landverndar; sá grunur sem er uppi um skaðsemi framagreindra framandi trjátegunda í íslenskri náttúru er rökstuddur.

Ég leyfi mér að rifja upp að stjórn Landverndar byggir skoðun sína á þeirri staðreynd að sitkagreni er skilgreint sem ágeng tegund í Danmörku, Noregi og Svíþjóð og mögulega ágeng tegund á Írlandi í gagnagrunninum NOBANIS sem var stofnaður fyrir tilstuðlan Norrænu ráðherranefndarinnar. Í sama gagnagrunni er stafafura skilgreind sem framandi ágeng tegund í Danmörku og Svíþjóð og sem mögulega ágeng tegund á Írlandi, Noregi og á Íslandi. Ýmsar aðrar rannsóknir og reglur sem beitt er erlendis styðja þá tilgátu að framangreindar tegundir geti verið ágengar. Í nýrri rannsókn Pawels Wasowicz, grasafræðings hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, ber allt að sama brunni. Fjöldi líffræðinga og vistfræðinga hefur einnig varað við mögulegum ágengum eiginleikum tegundanna tveggja.

Stjórn Landvernd hefur einnig í huga að ein meginregla í náttúruvernd er varúðarreglan; að náttúran fái að njóta vafans. Þá mótast afstaða hennar af þeirri staðreynd að heilladrýgst er að eiga við mögulega ágengar tegundir áður en þær fara í veldisvöxt. Viðvörunarbjöllur hljóma vegna framangreindra trjátegunda og nauðsynlegt er að bregðast við þeim.

Grein Skógræktarinnar staðfestir það sem ég sagði í grein minni í desember; uppi eru mismunandi skoðanir á því hvort gróðursetning framandi trjátegunda hér á landi muni draga úr líffræðilegri fjölbreytni þegar fram líða stundir og skaða þannig okkar viðkvæmu náttúru og draga úr lífbreytileika. Stofnanir íslenska ríkisins greinir á um það og vísindamenn á þessu sviði eru ekki sammála ef marka má grein Skógræktarinnar. Þessi ágreiningur veldur því að félagasamtök og áhugafólk um verndun náttúru Íslands og skógrækt eru ráðvillt. Því kallar Landvernd eftir skýrum leiðbeiningum sem byggja á vísindalegri þekkingu.

Stjórn Landverndar telur að svo við getum búið í sæmilegri sátt um skógrækt og náttúruvernd hér á landi þurfi að meta bæði stafafuru og sitkagreni á grundvelli fyrirliggjandi rannsókna, þeirra laga sem gilda um verndun lífbreytileika og þeirra alþjóðlegu samninga sem Ísland á aðild að um þetta efni.

Í náttúruverndarlögum er kveðið á um að vernda beri íslenska náttúru gegn framandi ágengum tegundum. Við erum svo heppin að á Íslandi er lögformleg leið til að komast að niðurstöðu um notkun einstakra tegunda. Stjórnvöld hafa nefnilega komið á sérstakri nefnd sérfræðinga um innflutning og ræktun útlendra plötutegunda sem á grundvelli fyrirliggjandi þekkingar skal skera úr um hvort erlend tegund sé ágeng og hvort tilefni sé til að setja reglur um notkun hennar eða jafnvel banna.

Landvernd hefur sent erindi til stjórnvalda og kallað eftir því að framangreindar trjátegundir verði teknar til mats eins og lögin segja til um. Ég tel að það sé skógrækt í landinu fyrir bestu að það verði gert fyrr en síðar.

Tryggvi Felixson, formaður Landverndar.

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...