Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Bóndinn sir Cliff Richard
Líf&Starf 18. febrúar 2015

Bóndinn sir Cliff Richard

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Sir Cliff Richard þekkja væntanlega flestir Íslendingar sem tónlistarmann með meiru en líklega eru eitthvað færri sem þekkja til aðaláhugamáls hans, en það er nefnilega búskapur, eða nánar tiltekið vínþrúgurækt og vínframleiðsla.

Þetta áhugamál hafa reyndar fleiri bændur og popparar. Má þar nefna til dæmis Madonnu og Bob Dylan, þó svo að efast megi um að þau líti sjálf á sig sem bændur. Alls á Cliff Richard aðild að þremur jörðum í Portúgal þar sem vínberjarækt fer fram.

Hentar vel fyrir þrúguframleiðslu

Portúgal er ört vaxandi land þegar horft er til léttvínsframleiðslu enda er suðurhluti landsins einkar heppilegur til slíkrar framleiðslu og má nefna mörg atriði því til staðfestingar.

Jarðvegurinn er talinn einstaklega hagstæður fyrir vínþrúgurækt auk þess sem það er nánast undantekningarlaust gott veður þarna, nokkuð sem er sérstaklega mikilvægt þegar vínþrúguframleiðsla er annars vegar. Til dæmis hefur ekki komið teljandi frost þarna síðasta áratug eða svo! Þá er loftrakinn einnig stöðugur vegna nálægðar við sjóinn og stöðug hafgola sem leiðir til þess að vínberin þroskast afar vel á þessu svæði. Auk þessa er suðurhluti Portúgals einkar sólríkt svæði, líkt og margir Íslendingar þekkja, en sólin gagnast fleirum en sólþyrstum Íslendingum enda hefur sólin bein áhrif á uppsöfnun sykurs í vínþrúgunum. Hátt hlutfall sykurs í þrúgunum gerir það svo að verkum að léttvínið hefur tiltölulega hátt vínandahlutfall miðað við t.d. frönsk eða þýsk vín.

Keypti fyrsta búið 1993

Vínbúgarða sir Cliff er að finna í nágrenni við bæinn Albufeira í Algarve-héraðinu, en þar hefur hann dvalist á hverju sumri síðustu fjörutíu árin, svo hann þekkir svæðið einstaklega vel. Það var reyndar tilviljun að sir Cliff fór í vínframleiðslu en hann sér varla eftir því, enda er léttvín hans eitt það mest selda á sumardvalarsvæðinu Albufeira sem margir Íslendingar þekkja vel. Fyrsta búið keypti hann árið 1993 í grennd við smábæinn Guia, örfáa kílómetra norðvestur frá Albufeira. Jörðin liggur öll í halla á mót suðri en svæðið þarna sunnan við Guia kalla heimamenn svæðið með hinu gyllta útsýni og getur greinarhöfundur vottað það að þarna er engu logið.

Fyrst í fíkjuframleiðslu

Í upphafi var það þó ekki vínþrúguframleiðsla sem var stunduð þarna heldur fíkju- og grænmetisframleiðsla en svo kynntist sir Cliff Ástralanum Nigel Birch sem hafði starfað við víngerð til fjölda ára. Nigel þessi taldi Cliff inn á það að fara í vínþrúguframleiðslu en það er afar dýrt að byrja slíka framleiðslu og því gott að hafa góða sjóði að sækja í enda má ekki vænta uppskeru fyrr en 4–5 árum eftir útplöntun vínviðarins. Sir Cliff átti nægt fjármagn og því var ákveðið að ganga í málið og árið 1998 voru stigin fyrstu skrefin í átt að þrúguframleiðslu.

Þetta hefur svo undið upp á sig jafnt og þétt og í dag eru þrúgur fyrir vínframleiðslu þeirra Cliff og Nigel framleiddar á þremur jörðum, sem alls telja 22 hektara lands og er árleg framleiðsla um 135 þúsund flöskur af léttvíni.

Vínkjallari söngvarans

Fyrirtækið sem sér um víngerðina heitir Adega do Cantor sem í íslenskri snörun myndi kallast Vínkjallari söngvarans, og hefur það náð eftirtektar­verðum árangri með gerð léttvína. Í upphafi var um rauðvín að ræða en í dag eru framleidd þarna allar helstu gerðir léttvína s.s. rauðvín, hvítvín, rósavín og freyðivín. Alls starfa 8 manns við víngerðina, sölu og við leiðsögn um búgarðinn og er þá sir Cliff víst ekki talinn með, en hann er þó sagður liðtækur við helstu búverk.

Tína berin í ágúst

Þegar vínakrar eru skoðaðir er það næsta undantekningarlaust að vínviðnum er plantað í snyrtilegar raðir og í hverri röð eru myndarlegir tréstaurar, sem eru all einkennandi fyrir svona framleiðslu. Tilgangur þessara staura er afar mikilvægur en á milli þeirra er strengdur vír, sem greinar vínviðarins eru hengdar á eftir því sem vaxtartímanum fleygir fram. Ástæðan fyrir þessu er í raun tvíþætt, annars vegar að koma runnunum upp í rúmlega mittishæð svo handtínsla á berjum sé auðveldari og hins vegar til þess að halda berjaklösunum fjarri  jarðveginum, sem gerir þrúgurnar betri. Í ágúst eru þær svo tilbúnar til tínslu en það er svolítið sérstakt við uppskerutímann á vínþrúgunum í Portúgal að tínslutímabilið er mun fyrr en í öðrum löndum Evrópu. Skýringin er raunar einföld, enda landið sunnar og býr við stöðugara veðurfar en önnur lönd heimsálfunnar. Þegar komið er að uppskerutíma þarf að hafa hraðar og öruggar hendur við að tína berin og koma þeim í vinnsluna. Á þessum tíma bætast við hina átta fastráðnu starfsmenn um 15–20 manns sem fá þá tækifæri til þess að vinna með sir Cliff við að tína ber! Berin eru svo sett í þar til gerð ker og fer svo af stað fjölbreyttur ferill við gerjun og meðferð svo hægt sé að framleiða hinar ýmsu gerðir léttvína úr þessum fínu þrúgum.

Of lítil framleiðsla fyrir töppunarvél

Eftir að Nigel hefur farið höndum sínum um þrúgurnar og unnið við þær af alúð, er vökvinn settur í þar til gerða tanka til gerjunar og svo er beðið – í nokkra mánuði! Auðvitað er fylgst með gerjunarferlinu en vínið er látið gerjast við 14–21 gráðu hita en stundum getur orðið of mikill hiti fyrir gerjunina. Til þess að ekki verði of heitt eru gerjunartankarnir einangraðir og í þeim eru þar til gerðir spíralar sem hægt er að dæla köldu vatni um svo vínið ofhitni ekki, ef útihitinn er slíkur. Auðvitað er vínframleiðsluferillinn flóknari en hér er lýst, en í stuttu máli sagt þá verður hver víntegund tilbúin á mismunandi tímum eftir mismunandi vinnsluaðferðum.

Það er þó sérstaklega athyglisvert að til þess að spara kostnað við átöppun er fullgerjað vínið geymt í stórum stálsílóum þar til í febrúar, þegar það er sett á flöskur. Tilfellið er nefnilega að þrátt fyrir að vínframleiðsla búsins sé 135 þúsund flöskur á ári þykir það allt of lítil framleiðsla til þess að standa undir dýrri fjárfestingu í búnaði til átöppunar á flöskur. Vínbændurnir á svæðinu, sem alla jafnan eru í samkeppni, ráða því sameiginlega til sín verktaka í því að tappa á flöskur og kemur viðkomandi verktaki þá með allar græjur til verksins. Sem dæmi um afköstin þá tekur ekki nema tæplega viku að tappa víni á 135 þúsund flöskur.

Korktappi úr korki

Það er orðið næsta sjaldgæft að fá léttvín í heldur ódýrari flokknum sem er með ekta korktappa en það er þó tilfellið með léttvínið frá Adega do Cantor. Fyrir því eru gefnar þrjár meginástæður: Portúgal er stærsti framleiðandi heims á korki og því er um að gera að nota þarlendan kork, korkur andar og gefur rauðvíninu réttan þroska og svo er einfaldlega mikil hefð fyrir því að nota korktappa í léttvínsflöskur!

Ferðaþjónustan mikilvæg

Þegar vínið er komið á flöskur er það tilbúið til sölu en Adega do Cantor selur léttvín sitt víða um heim þótt stór hluti framleiðslunnar sé seldur heima á búinu sjálfu. Skýringin felst í því að stór hluti af rekstri búgarðsins er ferðaþjónsta og þá sér í lagi skoðunarferðir um búgarðinn og vínframleiðsluna og svo að sjálfsögðu starfsemi tengd því að smakka mismunandi drykki og sala þeirra. Þúsundir sólþyrstra ferðamanna sækja heim búgarð sir Cliff Richard og fáir fara þaðan án þess að hafa keypt nokkrar flöskur. Það er óhætt að segja að viðskiptahugmyndin sé afar góð, að sameina búskap, ferðaþjónustu og þekkt nafn úr poppheiminum. Fyrst þetta gengur í Portúgal, því þá ekki á Íslandi t.d. með Björk sem megin aðdráttarafl?

Snorri Sigurðsson
 

Skylt efni: Vínþrúgur | Cliss Richard

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði
Líf&Starf 16. mars 2022

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi leikritið „Ekki um ykkur” eftir Gun...