Gilsárstekkur
Valur og Guðný fengu Gilsárstekk leigðan af ríkinu haustið 2013. Fóru í að byggja íbúðarhús og fluttu í það í desember 2014.
Þau hófu búskap þá um vorið og keyptu lömbin það haust.
Býli: Gilsárstekkur.
Staðsett í sveit: Norðurdal í Breiðdal.
Ábúendur: Valur Þeyr Arnarson og Guðný Harðardóttir.
Fjölskyldustærð (og gæludýra): Sólveig Björg, 7 ára, Sólrún Líf, 4 ára, Dagbjartur Örn, 2 mánaða og verðandi smalahundurinn Kubbur.
Stærð jarðar? 1.200 hektarar og ræktað land um 22 hektarar svo er heyjað á annarri jörð um 10 hektara.
Gerð bús? Sauðfjárbú.
Fjöldi búfjár og tegundir? 270 ær og 4 hænur.
Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum? Guðný sinnir börnum og heimili nú í fæðingarorlofinu ásamt því að koma á stofn kjötvinnslunni Breiðdalsbiti ehf. Valur sinnir gegningum og öðrum tilfallandi viðhaldsverkefnum á búinu og að auki við málningarvinnu þegar hún gefst.
Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Öll bústörfin eru skemmtileg þegar vel gengur. Sauðburðurinn er hvað lang skemmtilegastur að allra mati. Aftur á móti verður öll vélavinna afskaplega leiðinleg þegar tækin bila.
Hvernig sjáið þið búskapinn fyrir ykkur á jörðinni eftir fimm ár? Verðum búin að fylla fjárhúsin af fé, um 500 hausa og vonandi með kjötvinnslu líka í hlaðinu.
Hvaða skoðun hafið þið á félagsmálum bænda? Samstaða bænda er ekki mikil að okkar mati, sameiginlegir hagsmunir okkar virðast hafa gleymst.
Hvernig mun íslenskum landbúnaði vegna í framtíðinni? Vel ef við höldum rétt á spilunum og höldum á lofti sjálfbærni hans.
Hvar teljið þið að helstu tækifærin séu í útflutningi íslenskra búvara? Helstu tækifærin gefast ef við sýnum fram á heilnæmi og sjálfbærni við framleiðslu þeirra. Líka mikil tækifæri í að selja ferðamönnum vörur okkar.
Hvað er alltaf til í ísskápnum? Smjör og mjólk
Hver er vinsælasti maturinn á heimilinu? Kjöt og karrí.
Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Þegar við settum okkar fyrstu lömb á hús sem við sóttum í Öxarfjörð.