Reksturinn í góðum höndum
Bústjóri og fjósameistari Flateyjar á Mýrum taka nú við keflinu en lesendur geta fylgst með fjölskyldunni á Instagram-reikningi Bændablaðsins á næstu tveimur vikum.
Þau Birgir Freyr Ragnarsson og Vilborg Rún Guðmundsdóttir tóku við rekstri Flateyjarbúsins haustið 2016, en búið er eitt stærsta kúabú landsins. Birgir kemur frá Akurnesi í Nesjum, skammt frá flugvellinum í Hornafirði þar sem rekið er stærðarinnar sauðfjárbú auk kartöfluræktar. Vilborg kemur frá bæ í Vatnsleysu í Biskupstungum þar sem stundaður er blandaður búskapur með kýr, sauðfé og hross.
Býli, staðsetning? Flatey á Mýrum í Hornafirði.
Ábúendur, fjölskyldustærð (og gæludýra)? Vilborg Rún Guðmundsdóttir, Birgir Freyr Ragnarsson og Hjörtur Logi Birgisson. Kettirnir þrír, þau Junior, Skoppa og Skrítla.
Gerð bús og fjöldi búfjár? Mjólkurframleiðsla, kjötframleiðsla og akuryrkja. Fjósið er lausagöngufjós með fóðurgangi fyrir miðju. Kúnum í fjósinu er skipt í fjóra hópa: geldstöðu, velferð, lágnytja og hánytja. Fóðurkerfið er frá Triolet. Það gefur 24 sinnum á sólarhring. Það eru fjórir mjaltaþjónar frá Lely af gerðinni A4. Í Flatey eru 230 árskýr, 180 uxar og 230 kvígur á öllum aldri.
Hvers vegna veljið þið þessa búgrein? Okkur bauðst þetta tækifæri að taka við bústjórn í Flatey haustið 2016 og langaði að takast á við þá áskorun.
Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum? Hann byrjar alla morgna í fjósinu á milli kl. 7 og 8 og fram til kl. 10. Þá er verið að sinna mjöltum og umhirðu gripa. Að því loknu er hinum ýmsum bústörfum sinnt, s.s. fóðrun, þrifum og viðhaldi. Dagurinn endar svo þar sem hann byrjaði í mjöltum og umhirðu gripa.
Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Skemmtilegast er þegar gengur vel, sama hvort það er í fjósinu eða úti á akri. Leiðinlegast er þegar gripir veikjast og þegar er ótíð.
Hvað er það jákvæða við að vera bóndi? Fjölbreyttir vinnudagar og þegar vel gengur og maður sér árangur eftir margra mánaða vinnu.
Hverjar eru áskoranirnar? Að framleiða mikið af afurðum: mjólk, kjöt og korn og af sem bestum gæðum og magni.
Hvernig væri hægt að gera búskapinn ykkar hagkvæmari? Með auknum afurðum.
Hvernig sjáið þið landbúnað á Íslandi þróast næstu árin? Þetta verður blómlegt og tækifærin liggja víða.
Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Þegar við náum þeim markmiðum sem við sjálf höfum sett okkur.
Bændurnir í Flatey á Mýrum taka yfir Instagram Bændablaðsins næstu tvær vikurnar.