Kornskurður á Búlandi
Kornskurður á Búlandi í Austur-Landeyjum haustið 1981. Mynd sem birtist í þriðja tölublaði Freys árið 1982.
Þar er grein sem segir frá sjö bændum í Austur-Landeyjum sem tóku sig saman um að rækta korn á alls ellefu hekturum. Meðaluppskeran var yfir ellefu tunnur (hkg) á hektarann. Þetta framtak þótti merki um þá sókn sem átti sér stað í kornrækt á þessum árum.
„Þótt þráðurinn hafi ekki slitnað um áratuga skeið í íslenskri kornrækt verður að segja að litlu hafi mátt muna að svo færi,“ skrifar Matthías Eggertsson, höfundur greinarinnar og ljósmyndarinn. Hann var einn ritstjóra Freys.