Glæsilegir trébátar af öllum stærðum og gerðum
Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir
Bátaeign í Noregi er gríðarlega mikil og bátamenning samofin norsku þjóðinni. Um 750 þúsund skemmtibáta eða báta í eigu einstaklinga er að finna í landinu og er verðmæti þeirra metið á um 75 milljarða norskra króna.
Árlega nota Norðmenn um 6 milljarða norskra króna til bátakaupa og er því ljóst að um dágóðan skerf í hagkerfinu er um að ræða.
Áætlað er að fjórða hvert heimili í landinu eigi bát, eða ríflega 500 þúsund heimili, og er mesta eignin á suður- og vesturlandinu þar sem þriðja hvert heimili á bát. Átta af tíu bátum eru úr plasti eða glertrefjum en aðeins 10 prósent þeirra er úr tré.
Víða í landinu eru haldnar trébátasýningar og var blaðamaður Bændablaðsins á ferð á einni slíkri á dögunum, Hardanger Trebåtsfestival. Sú sýning, eða hátíð, var að þessu sinni haldin í 18. sinn í Norheimsund í Harðangursfirði þar sem hver glæsibáturinn á fætur öðrum var til sýnis gestum og gangandi til yndis og ánægju.