Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Hreppslaug á góðum degi í júní 2013.
Hreppslaug á góðum degi í júní 2013.
Mynd / Kristín Jónsdóttir
Líf&Starf 22. júní 2016

Hreppslaug fyrr og nú

Höfundur: Guðrún J. Guðmundsdóttir og Borgar Páll Bragason
Fyrir 88 árum réðst Ungmenna­félagið Íslendingur í það stórvirki að byggja steinsteypta laug, 25 metra að lengd, í landi Efri-Hrepps í Skorradal.
 
Hefur laugin allar götur síðan gegnt mikilvægu hlutverki í sveitinni, ekki síst sem samkomustaður sveitunga og gesta, einkum að kvöldi til. 
 
Upphafið
 
Það er engum blöðum um það að fletta að bygging steinsteyptrar laugar af þessari stærð var gífurlegt afrek á sínum tíma og ber vott um mikinn stórhug og þann mikla kraft sem bjó í ungmennahreyfingunni í byrjun tuttugustu aldar. 
 
Á þessum tíma var mikill áhugi á hvers kyns íþróttaiðkun innan hreyfingarinnar, þ.á m. sundíþróttinni, og þar sem þá voru almennt ekki til laugar fór sundkennsla almennt fram í köldum ám og lækjum víðs vegar um land og sundmót sömuleiðis. 
 
Þegar Umf. Íslendingur var stofnað árið 1911 mun það hafa verið eitt fyrsta verkið að láta hlaða stíflu úr torfi í síki nálægt Andakílsá, var vatnið þar ylvolgt þar sem það blandaðist heitu vatni úr uppsprettu í brekkunni fyrir ofan. 
 
Þarna í síkinu fór sundkennsla fram um árabil en menn voru stórhuga og höfðu hug á að byggja alvöru laug til að efla sund­íþróttina. Samningar tókust við landeigendur í Efri-Hreppi, Guðrúnu J. Guðmundsdóttur og Þorstein Jónsson, þann 13. mars árið 1928 var svo undirritaður samningur þess efnis að Umf. Íslendingur skyldi eignast landspildu sem var 370 metrar að ummáli og leyfi til að nota í laugina heitt vatn úr uppsprettu í landi Efri-Hrepps.
 
Hreppslaug byggð
– ekki auðleyst verkefni
 
Var nú hafist handa við byggingu laugarinnar og frá sjónarhóli nútímamannsins hefur þar verið unnið ótrúlegt þrekvirki. 
 
Allt efni til byggingarinnar var flutt á staðinn á hestvögnum,  en fyrst hafði timbur og annað efni verið flutt sjóleiðina úr Borgarnesi að Skiplæk við Skeljabrekku. Mun sú sjóferð hafa verið ævintýri hið mesta. 
Var efnið flutt á pramma aftan í  hriplekum vélbáti sem var ekki í betra standi en svo að einn maður var hafður í því að halda með handafli lausri skrúfu í vélinni alla leiðina. 
 
Sjógangur var mikill og var sá sem var á prammanum svo hræddur um að báturinn sykki að hann stóð tilbúinn alla leiðina með beittan hníf til að geta skorið prammann lausan ef illa færi. En heilu og höldnu komst farmurinn á leiðarenda, var þá eftir að flytja hann, svo og alla möl, langa leið á hestvögnum. Loks var öll steypan handhrærð á trépalli og hellt í mótin. Var öll þessi vinna að langmestu leyti unnin í sjálfboðavinnu og komu þar margir að.
 
Laugarhús til margra hluta nytsamlegt
 
Búningsklefar voru byggðir við norðurenda laugarinnar, voru það þrír klefar með bárujárnsþaki. Var fyrirkomulagið á tímabili þannig að einn klefi var fyrir konur, einn fyrir karla og einn fyrir hesta, því allir komu jú ríðandi eða gangandi á þeim tíma.  
 
Sundkennsla hófst í Hreppslaug þegar árið 1930 og hafa sundnámskeið verið haldin þar allar götur síðan. Um árabil tíðkaðist það að börn og unglingar úr Borgarnesi sæktu sundkennslu í laugina, lágu nemendur þá við í tjöldum í eina eða tvær vikur á bökkum Andakílsár. Var þá sett upp mötuneyti í einum klefanum til að elda fyrir þá en þegar náttúran kallaði var hlaupið á lítinn kamar sem komið var fyrir yfir læknum sem rann úr lauginni. 
 
Um tíma var starfrækt eins konar spunaverksmiðja í einum klefanum en Skorradalshreppur fékk að setja þar upp spunavél sem spunnið gat á 25 spólum, komu þá bændur með lopa úr sinni eigin ull og spunnu úr henni band. Lét hreppurinn þá steypa gólf og þak í þann klefa og setja upp ofn með heitu vatni, þótti það fáheyrður lúxus. Síðar fengu konur þau forréttindi að nota þennan klefa sem var sá eini sem einhver ylur var í, það var svo löngu síðar að heitt vatn var leitt í sturtu í einn klefann.
 
Þessir gömlu klefar gegndu þannig ýmsum hlutverkum í gegnum tíðina, sem búningsklefar, hesthús, mötuneyti og spunaverksmiðja. Það var ekki fyrr en eftir miðja síðustu öld að hafist var handa við byggingu núverandi laugarhúss sem hlaut nafnið Laugabúð, var það fullklárað 1969. Hélt ungmennafélagið fundi sína þar, þarna var lengi vel bókasafn sveitarinnar og einnig var húsið leigt út til barnakennslu og ýmissar félagsstarfsemi.
 
Margt brallað í gegnum tíðina og ýmislegt gengið á
 
Ýmsar sögur eru til frá fyrstu árum laugarinnar. Á þeim tíma var melurinn ofan laugar ógróinn og henti það oft að aurskriður féllu úr melnum og gilinu og runnu út í laugina. 
 
Eitt sinn féll svo mikil skriða í grynnri enda laugarinnar að hann náði upp á bakka, gerðu þá skólapiltar á Hvanneyri sér það að leik að ríða þar niður í vatnið og sundríða síðan um laugina.
 
Á fyrstu árum laugarinnar var þar enginn heitur pottur, var þá búin til stífla í gilinu ofan laugarinnar. Var pollurinn sem þar myndaðist einn helsti samkomustaður fyrstu kynslóðar sundlaugargesta að kvöldi til. Heimildir herma að fyrir dansleiki í sveitinni hafi ungir menn legið sérlega lengi í heita vatninu uppi í gili, það hafði nefnilega heyrst að sæðisfrumur þyldu illa mikinn hita og til að minnka líkur á óheppilegum afleiðingum skemmtunarinnar var talið æskilegt að drepa þær sem flestar! Síðar var steyptur lítill pottur, 1,5 fm að stærð, sem hægt var að standa í, rann vatn í hann úr gilinu og þaðan í laugina. Ein ástæða þess að potturinn var byggður var að aurskriður úr gilinu runnu gjarnan beint út í laugina, en nú tók potturinn að hluta við aurnum. Tók nú þessi pottur við sem kvöldsamkomustaður næstu kynslóða, þótti með ólíkindum hve margir gátu troðist í þennan litla pott, eitt sinn töldust í honum þrettán fullorðnir. Var það fastur liður að allir unglingar sveitarinnar fjölmenntu í Hreppslaug að loknum vinnudegi á sumrin, var þá oft liðið að miðnætti en á þeim tíma var laugin ógirt og öllum opin allan sólarhringinn árið um kring. Á síðari árum létu heilbrigðisyfirvöld loka þessum gamla potti en í dag eru þrír heitir pottar við Hreppslaug. 
 
Hreppslaug friðlýst
 
Árið 2014 var Hreppslaug friðlýst „á grundvelli staðbundins menningarsögulegs gildis og fágætis“.  Að mati Minjastofnunar Íslands hefur Hreppslaug gildi frá sjónarhóli byggingarlistar sem óvenjulegt steinsteypumannvirki, hannað af Sigurði Björnssyni, yfirsmið Hvítárbrúar. Einnig hafi hún mikið menningarsögulegt gildi sem vitnisburður um félags- og íþróttastarf ungmennafélaganna og sem mikilvægur staður í menningar- og félagslífi héraðsins. Hreppslaug er eitt af elstu dæmum um upprunalegt steinsteypt mannvirki sem tengist hagnýtingu heits vatns í þágu sund- og baðmenningar. 
 
Hreppslaug í dag
 
Nú sem fyrr á árum er rekstur Hreppslaugar í höndum Umf. Íslendings sem er lítið félag með rúmlega 200 félaga. Þar sem laugin og búningsklefarnir eru barn síns tíma krefjast mannvirkin mikils viðhalds og viðgerða. Þannig hefur þrotlaus sjálfboðavinna félaga í Íslendingi verið grundvöllur þess að halda lauginni opinni fyrir sundlaugargesti yfir sumarið. Þá er laugin einnig notuð fyrir sundkennslu hjá grunnskólanemum við grunnskóladeild GBF á Hvanneyri, vor og haust og fyrir sundnámskeið fyrir félaga í Umf. Íslendingi.
 
Undanfarnar vikur hafa staðið yfir umfangsmiklar framkvæmdir við að helluleggja, múra og mála laugina þannig að vænta má að laugin og umhverfi hennar verði upp á sitt besta í sumar.
 
Hreppslaug er opin frá 18–22 þriðjudaga til föstudaga og 13–22 laugardaga og sunnudaga en lokað er á mánudögum. Kvöldopnunin hefur aflað lauginni vinsælda og hafa margir haft gaman af líflegum umræðum í heitu pottunum á sumarkvöldum. Önnur sérstaða laugarinnar er hið sírennandi heita vatn úr uppsprettunum ofan laugarinnar svo og hið náttúrulega umhverfi með birkivaxinni grasbrekku nánast að laugarbarmi. Stefnt er að því að laugin verði klár fyrir sumaropnun 10. júní.
 
Guðrún J. Guðmundsdóttir
og Borgar Páll Bragason.

6 myndir:

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....