Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Bakkafjörður.
Bakkafjörður.
Mynd / Auðunn Níelsson, Markaðsstofa Norðurlands
Líf og starf 13. mars 2024

Áframhaldandi búseta talin möguleg

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Við Langanesströnd sem liggur að botni Bakkaflóa stendur Bakkafjörður ásamt bæði Miðfirði og Finnafirði. Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar frá árinu 2023 eru þar búsettir alls 62 – sem er helmings fækkun frá árinu 2001 – og fellur Bakkafjörður því í hóp þeirra brothættu byggða sem verkefni Byggðastofnunar hefur haldið utan um nú í nokkur ár.

Undanfari þátttökunnar, sem hófst árið 2019 og áætlað er að ljúki nú í árslok, var sá að álitamál þótti hvort byggðin væri of veik til þess að grunnur væri fyrir áframhaldandi búsetu. Í kjölfarið var skipuð nefnd á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar, sem kannaði mögulegar aðgerðir til þess fallnar að styrkja stöðu byggðarlagsins. Þann 15. mars 2018 kom fram samþykkt á fundi þar sem nefndin ákvað að yfirfara tillögur starfshóps er vörðuðu málefni byggðarinnar í Bakkaflóa, meta gildi þeirra og gagn og bæta við tillögum eftir atvikum. Var meðal annars lagt til að byggðarlag Bakkafjarðar yrði tekið inn í verkefni Brothættra byggða sem svo gekk eftir.

Gaman er að segja frá því að áður hét þorpið Höfn, en á seinni hluta 19. aldar myndaðist þorp í kringum útgerð og verslun í landi Hafnar við Bakkafjörð. Þorpið er nú í daglegu tali kallað Bakkafjörður.

Í þorpinu sjálfu stendur „gamla bryggjan“ en á níunda áratug síðustu aldar var ný höfn gerð rétt sunnan við þorpið og er þaðan töluverð smábátaútgerð.

Með þátttöku byggðarlagsins í verkefni Byggðastofnunar hafa árlegar styrkveitingar ýtt hinum ýmsu verkefnum úr vör, en í lok síðasta árs stóðu fjárveitingar í alls 60.263.680 milljónum króna. Stóðu styrkþegar fyrir hinum ýmsu hugmyndum, allt frá uppsetningu ærslabelgs og aðstöðu til fjarvinnslustarfa til sjósundskýlis í Finnafirði og harðfiskvinnslu 

Niðurstöður úthlutunar Frumkvæðisstyrks

Nú í lok febrúarmánaðar sl. voru niðurstöður úthlutunar Frumkvæðissjóðs 2024 fyrir Bakkafjörð kynntar með pomp og pragt, en hvert þátttökubyggðarlag innan verkefnis Brothættra byggða fær tiltekna upphæð árlega.
Taka skal fram að fjármagnið er ætlað til að styðja verkefni íbúa og framtíðarsýn viðkomandi byggðarlags í heild sinni, en úthlutun fjármunanna er í höndum verkefnisstjórnar Bakkafjarðar. Í verkefnastjórn eru sveitarstjórinn Björn S. Lárusson, Sigurður Guðmundsson oddviti, Hildur Halldórsdóttir innan SSNE (Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra) auk tveggja fulltrúa íbúa, þeirra Mariusz Mozejko og Gunnlaugs Steinarssonar og svo Helga Harðardóttir og Kristján Þ. Halldórsson frá Byggðastofnun.

Romi Schmitz.

Aðspurð segir Romi Schmitz, nýsettur verkefnisstjóri Bakkafjarðar, styrkveitinguna hafa farið vel fram - en í Bakkafirði höfðu borist alls 14 umsóknir sem ígiltu að heildarupphæð rúmum 23 milljónum króna. Hafði sjóðurinn 10,5 milljónir króna til ráðstöfunar sem úthlutað var til 12 verkefna, en á bak við þau standa alls níu aðilar. Hæsta styrkinn fékk Krzysztof Krawczyk, sauðfjárbóndi í Miðfjarðarnesi, til að koma sér upp aðstöðu gæslu og þjálfunar smalahunda, alls 1,6 m. kr.

Styrkveitingar af ýmsum toga

Hér á eftir er yfirlit yfir þann fjölda áhugaverðra verkefna sem nú eru í startholunum, enda sterkur vilji þorpsbúa til uppbyggingar samfélagsins og ötullega unnið að styrkveittum viðfangsefnum.

- Bakkasystur ehf. Hátíðin Grásleppan 2024, þar sem þessi mikilvægi fiskur í sögu Bakkafjarðar er heiðraður með hátíðlegum hætti. Um ræðir framhaldsverkefni sem hófst fyrir ári, en vilji er fyrir því að festa hátíðina í sessi. 1,1 m. kr.

Sóttu Bakkasystur ehf. einnig um, og fengu styrkveitingu fyrir verkefnið: Sögusýning, margmiðlun og varðveisla, sem byggir á verkefni undir nafninu Gunnólfsvíkurfjallið er svo blátt. Er áætlað að yfirfæra heimildirnar um Gunnólfsvíkurfjallið á stafrænt form og þannig forsenda fyrir frekari vinnslu minja og þróun á miðlun sýningar. 600 þús. kr.

- Jóhanna Magnúsdóttir, eigandi hússins Bjarg og fyrirtækisins Bjargvættir, hlaut styrk fyrir verkefnið: Útivist, heilsa, umhverfi og núvitund / Retreat Center Bakkafirði. Gerð viðskiptaáætlunar og uppbygging heilsutengdrar ferðaþjónustu með áherslu á umhverfi og sjálfbærni. Vill Jóhanna að auki vera í samstarfi við aðra ferðaþjónustu á svæðinu og með frekari afþreyingu virkja þannig ferðamenn til að stoppa lengur. 1 m. kr.

Í nafni Bjargvætta ehf., fyrirtækis Jóhönnu, hlaut hún annan styrk til þess að halda áfram uppbyggingu gistiheimilisins Bjargs og ganga þar frá umhverfis- og öryggismálum. Þarna er um framhaldsverkefni að ræða undir nafninu Umhverfis- og öryggismál, en Jóhanna hlaut áður styrk fyrir ári síðan. Markmiðið er að reka þar menningartengda ferðaþjónustu. 500 þús. kr.

Reimar Sigurjónsson lista- og hagleiksmaður tekur hér við styrkveitingu fyrir hugmynd sína um fuglaskoðunarskýli

- Langanesbyggð var veittur styrkur fyrir verkefnið Velkomin til Hafnar með áherslu á skiltagerð. Hlaut Langanesbyggð áður 1,5 m. kr. styrk frá SSNE til þess að koma upp yndisreit með útilistaverkum úr rekavið á Hafnartanganum. Styrkurinn nú er fyrir gerð upplýsingaskilta við verkin. 700 þús. kr.

- Reimar Sigurjónsson, lista- og hagleiksmaður, hlaut styrk fyrir verkefnið Fuglaskoðunarskýli við Finnafjarðará. Áætlar Reimar að setja upp fuglaskoðunarhús við ós Finnafjarðarár, þá hluta Fuglastígs Norðausturlands og bætast þannig í hóp mögulegrar afþreyingar á svæðinu. 1 m. kr.

- Svanhildur Ármundsdóttir hlaut styrk fyrir verkefnið Samræmd upplýsingaskilti á Bakkafirði. Sér Svanhildur fyrir sér að hanna og setja upp skilti sem upplýsa fólk um áhugaverða stað. 1 m. kr.

- Víðir Már Hermannsson hlaut styrk fyrir verkefnið Frisbígolf á Bakkafirði. Framhaldsverkefni sem felst í því að klára völlinn á Bakkafirði. 700 þús. kr.

Framhaldsverkefnið Frisbígolf á Bakkafirði hlaut styrkveitingu til áframhaldandi uppbyggingar.

- North East Travel ehf., sem reka bæði gistiheimili og veitingastað Bakkafjarðar, fengu styrk fyrir tvö verkefni. Annað þeirra ber nafnið Afþreyingarþjónusta North East Travel, sem gengur út á að bjóða upp á skipulagðar afþreyingaferðir á Bakkafirði, eins konar ferðaskrifstofu með þjónustu norðaustursvæðisins í huga. Samstarf við aðila í svipaðri stöðu sem gætu í sameiningu þjónustað ferðamenn. 900 þús. kr. Hitt verkefni North East Travel er hátíðin Bakkafest 2024 – nokkurra daga hátíð tónlistar, matar og uppákoma. Hóf hátíðin göngu sína árið 2021 og dregur að fólk í nokkra daga. 900 þús. kr.

Að lokum hlaut fyrirtækið Bergholt 1 ehf. styrkveitingu fyrir verkefnið Bergholt, sem einnig er nafn á elsta steinhúsi Bakkafjarðar. Hefur Bergholt staðið í miðbænum frá árinu 1926 og snýst verkefnið um áframhaldandi endurbætur og uppbyggingu upprunalegs útlits þess. Útbúa þar aðstöðu fyrir listamenn sem geta komið þar til dvalar. 500 þús. kr.

Framlenging með von um meðbyr

Segir Romi vinnslu verkefna síðastliðinna ára hafa gengið vonum framar en upphaflega var áætlað að Bakkafjörður yrði undir hatti Brothættra byggða frá 2019–2023. Nýverið fengu þau framlengingu fram til ársloka 2024 enda segir Romi að nóg sé af verkefnum sem þurfi frekari byr.

Skylt efni: brothættar byggðir

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...