Bifröst hefur skyldum að gegna gagnvart nærumhverfi sínu og landsbyggðinni allri
Skólahald í Norðurárdal í Borgarfirði má rekja allt aftur til ársins 1955 þegar Samvinnuskólinn flutti að Hreðavatni. Nú er boðið upp á nám á háskólastigi á staðnum. Háskólinn á Bifröst er fjölbreytt menntastofnun sem býður nemendum sínum upp á fræðslu, þekkingu og þjálfun í viðskiptafræði með ýmsum áherslum, auk viðskiptalögfræði og úrval félagsvísindagreina. Hlutverk skólans er að búa nemendur undir ábyrgðar-, forystu- og stjórnunarstörf í innlendu og alþjóðlegu samkeppnisumhverfi.
Samvinnuskólinn, Samvinnuháskólinn, Viðskiptaháskólinn á Bifröst og Háskólinn á Bifröst eru ein og sama stofnunin. Framan af var skólinn deild innan Sambands íslenskra samvinnufélaga og í eigu þess, en frá 1990 hefur hann verið sjálfseignarstofnun. Skólinn hefur breyst mikið frá stofnun og hafa þær breytingar átt sér stað í takt við breyttar aðstæður og auknar menntunarkröfur samfélagsins. Í upphafi var um að ræða fárra mánaða nám, en í dag útskrifast nemendur skólans með BS- eða BA-gráðu eftir þriggja ára háskólanám eða meistaragráðu eftir fimm ára nám en skólinn hóf kennslu á meistarastigi sumarið 2003.
Byggðamálin eigi að vera á dagskrá skólans
Í sumar tók nýr rektor við keflinu á Bifröst, Margrét Jónsdóttir Njarðvík, en hún er ættuð frá Fljótstungu í Hvítársíðu. Aðspurð segist hún hlakka mjög til að takast á við krefjandi störf við Háskólann á Bifröst. Hún taki við góðu búi en vissulega fylgi þó ætíð nýir siðir nýjum herrum.
„Ég vil efla tengsl Bifrastar og nærumhverfisins. Og byggðamálin eiga að vera á dagskrá skólans, þau eiga að fá sinn sess í kennslunni,“ segir hún.
Nýsköpun snýst ekki eingöngu um tölvur og tækni
„Bifröst hefur skyldum að gegna gagnvart nærumhverfi sínu og landsbyggðinni allri.“ Nú þurfi að stuðla að nýsköpun í dreifbýli sem Margrét segir að snúist ekki eingöngu um tölvur og tækni. Til að mynda þurfi að hjálpa öllum þeim er sinna framleiðslu og nýsköpun í dreifbýli að koma vörum sínum á markað.
„Þarna geti Háskólinn á Bifröst komið sterkur inn með sín góðu tengsl og þekkingu á viðskiptalífinu.“
Margrét nefndi einnig að henni þætti vænt um að fá tækifæri til að setjast í sama stól og séra Guðmundur Sveinsson, sem var fyrsti skólastjóri Samvinnuskólans eftir að skólinn flutti að Hreðavatni. Hún hafi kynnst Guðmundi sem nemandi við Fjölbrautaskólann í Breiðholti en þann skóla stofnaði hann og mótaði eftir að hann lauk störfum á Bifröst. Alkunna er að Guðmundur var mikill skólamaður sem innleiddi nýjungar í menntun, m.a. eflingu starfs- og verknáms. Í anda þeirra hugsjóna sem Guðmundur stóð fyrir telur Margrét mikilvægt að efla Háskólagáttina en hún býr nemendur sem ekki hafa stúdentspróf undir nám á háskólastigi.
„Úti um allt land eru hópar fólks sem ekki hafa lokið stúdentsprófi, Gáttin opnar þessu fólki nýja leið og með kröftugu fjarnámi er skólinn vel í stakk búinn til að stuðla að aukinni menntun úti í hinum dreifðu byggðum.“
Vill efla byggðina á Bifröst
Margrét vill efla byggðina á Bifröst. Hún leggur ríka áherslu á að starfsfólkið búi á staðnum eða í nærliggjandi sveitum.
Á dögunum réð hún tvo nýja stjórnendur að skólanum; tvær kraftmiklar konur sem báðar búa í Borgarbyggð og þekkja vel til skólans, þær Halldóru Lóu Þorvaldsdóttur frá Brekkukoti í Reykholtsdal, sem ráðin var kennslustjóri, og Þorbjörgu Valdísi Kristjánsdóttur frá Laxholti í Borgarfirði, sem ráðin var alþjóðafulltrúi.
Nýr kennslustjóri með sterkar rætur í Borgarfirði
Halldóra Lóa starfaði áður sem náms- og starfsráðgjafi við skólann. Halldóra situr einnig í sveitarstjórn Borgarbyggðar, þar sem hún er m.a. formaður byggðarráðs og situr fyrir hönd sveitarfélagsins í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Hún á sterkar rætur og stóran frændgarð í Borgarfirði; t.a.m. var Þórir Steinþórsson frá Gautlöndum langafi hennar en hann var lengi skólastjóri Héraðsskólans í Reykholti og sinnti því starfi samhliða búskap á staðnum. Hún er full tilhlökkunar að takast á við ný störf á nýjum vettvangi sem hún þekkir þó býsna vel.
„Reynslan úr námsráðgjöfinni er mér mjög dýrmætt veganesti þegar kemur að því að móta kennsluna í skólanum,“ segir hún. Mikilvægt sé að hafa í huga þarfir ólíkra nemenda enda hafi skólinn löngum verið í fararbroddi í innleiðingu og þróun nýrra kennsluhátta, t.d. sé skólaárinu skipt upp í lotur og fjarnám skólans sé öflugt. Allt stuðli þetta að því að hjálpa nemendum að takast á við krefjandi störf. Gott námsumhverfi skiptir miklu en það opnar nýjar leiðir fyrir fjölbreytta námshópa.
Fyrrverandi fóstra Keikó orðin alþjóðafulltrúi á Bifröst
Þorbjörg Valdís, jafnan kölluð Tobba, þekkir vel til alþjóðamálanna. Hún vann áður hjá Rannís og sem alþjóðafulltrúi á Hvanneyri. Áður en alþjóðamálin tóku yfir starfaði hún í fræðsludeild Fjölskyldu- og húsdýragarðsins.
„Þegar ég vann í Húsdýragarðinum var ég að reyna að prófa að búa annars staðar. En einn daginn þegar ég vann þar var hringt í mig og mér boðið að verða fóstra háhyrningsins Keikó sem þá hélt til í kví sinni í Vestmannaeyjum. Mitt hlutverk var að gefa honum, sjá um að hann fengi hreyfingu og félagslega þjálfun og vera talsmaður hans við fjölmiðla. Ég fylgdi honum eftir til Noregs þar sem hann dó úr lungnabólgu.“
Þrátt fyrir að Keikóævintýrið hafi verið heillandi var borgfirska taugin römm og Tobba flutti aftur heim í Laxholt. Vinnan með Keikó opnaði henni þó nýjar dyr og skapaði margs konar alþjóðlegar tengingar sem hún gat nýtt síðar í sínum störfum.
Tobba segir lífið á Bifröst líka vera ákveðið ævintýri og undir það taka þær Halldóra og Margrét, sem áréttar jafnframt að mikilvægt sé fyrir okkur öll að lifa í vexti. Þar komi Bifröst sterk inn enda sé það markmið hennar og von að henni takist, í samvinnu við sitt fólk, að skapa á hverjum degi ný ævintýri og að nemendur og starfsmenn nái að vaxa og dafna í tilsniðnum blómapottum sem henta hverjum og einum.