Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Njótum þess að lesa þegar haustvindar blása.
Njótum þess að lesa þegar haustvindar blása.
Líf og starf 14. október 2021

Bókaunnendur athugið!

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Frásagnarlist hefur fylgt mann­kyninu frá alda öðli og þykir greinarhöfundi fátt betra en að fá í hendurnar fallega bók. Enn betra ef hún vekur áhuga. Nú síðast fyrir fimm til tíu árum gekk sá hræðsluáróður um heiminn að bækur færu hverfandi, fólk læsi fremur svokallaðar rafbækur í Kindle eða af öðrum nærtækum skjáum. Samkvæmt vitrum mönnum hefur reyndar slíkur hræðsluáróður átt sér hliðstæðu af og til síðastliðin 40 ár, eða allt frá því að tölvur urðu semi-algengar.

Í dag hefur rafbókahræðslan hins vegar snúist við og telja menn að þær séu ekki endilega móðins lengur. Fólk leiti stöðugt oftar í þær innbundnu. Smekkleg hönnun bókakápa getur æst skilningarvitin jafnframt því að snerting þungrar bókar gefur huglæg fyrirheit um gleðistundir. Því er ekki úr vegi að tolla í tískunni, leggja land undir fót (með tilliti til lista hér fyrir neðan) og verða sér úti um nokkrar kiljur að kostnaðarlausu enda helst slíkur gjörningur við þá tísku sem ber hvað hæst í dag – að endurnýta. Og já, minnka skjánotkun.

En að öllu háði óslepptu, þá er hér yfirlit yfir einhverja þá staði sem lofa góðu þegar kemur að ódýrum eða ókeypis bókakosti. Notuðum auðvitað, við endurnýtum, Íslendingar!

Höfuðborgarsvæðið og nærumhverfi

Í Reykjavík og nágrenni hefur þó nokkuð færst í aukana það sem kallað er framhaldslíf bóka.

Finna má skiptistaði víðs vegar um bæinn og einnig hafa verið settir upp lokaðir kassar með glerrúðu þar sem hentugt er að setja bækur og fá sér aðrar í staðinn. Má upp telja göngugötur bæði í Mjódd og á Eiðistorgi – bókasöfn Mosfellsbæjar, Grófar, Gerðubergi, Garðabæ, Kringlunni, Sólheimum og Árbæ bjóða bæði upp á að kaupa ritefni á slikk eða ókeypis.

Bókasafn Kópavogs er t.d. með „100 kr. bókamarkað“ í fyrstu heilu viku hvers mánaðar, á annarri hæð Þjóðarbókhlöðunnar er að finna svokallað gjafaborð þar sem má gefa eða sækja sér bækur og við Vesturbæjarlaug, Breiðholtslaug, Laugardalslaug og Ásvallalaug Hafnarfirði a.m.k. er að finna staði af svipuðu tagi. Svo má gera sér ferð í nytjaverslanir á borð við Góða hirðinn í Fellsmúlanum eða Nytjamarkað ABC á Nýbýlavegi 6 í Kópavogi.

Fyrir þá sem staðsettir eru utan höfuðborgarsvæðisins, eða huga sér til hreyfings er hér ófullkominn listi yfir nokkra staði sem geta glatt lesglaða.

Austurland
Egilsstaðir

Nytjamarkaður Rauða krossins hefur þó nokkuð úrval skemmtilegra bóka sem vert er að líta á.

Neskaupstaður

Nytjamarkaðurinn Steinninn, sem finna má á bæjarbryggjunni rétt hjá búðinni Pan – Egilsbraut 8, tekur við bókum auk þess að vera með mikið magn af gömlum og nýjum bókum til sölu á kostnaðarverði. Hann er opinn á miðvikudögum 16-18 og á laugardögum 13-15.

Eskifjörður

Nytjaverslun Rauða krossins á Eskifirði hefur gott úrval bóka sem gaman er að renna augum yfir. Verslunin er staðsett fyrir ofan kjörbúðina á Strandgötu 50.

Reyðarfjörður

Bókasafn Reyðarfjarðar tekur við vel með förnum bókum sem hugað er framhaldslíf auk þess að deila þeim á hin bókasöfnin sem tilheyra Fjarðabyggð. Vert er að nefna, burtséð frá bókakosti, þá skemmtilegu hugmynd sem fengin var að láni frá bókasafninu á Fáskrúðsfirði – að boðið er upp á blómaafleggjara af „afleggjaraborðinu“ sem eru stórfenglegir að sjá. Hefur afleggjaraborðið heldur betur slegið í gegn á báðum stöðum.

Fljótsdalshérað

Á Héraði er á bókasafninu skiptibókamarkaður fyrir það allra vinsælasta, Andrésar andar syrpur og svo bækur Rauðu seríunnar. Þangað er sannarlega vert að gera sér ferð.

Suðurland
Höfn í Hornafirði

Nýheimar er þekkingarsetur Hafnar í Hornafirði og þar má meðal annars finna bókasöluvagn þar sem verðið á ritefni er um hundrað krónur. 

Einnig er hægt að taka stefnuna á nytjamarkað heimamanna sem kallaður er Hirðingjarnir, en þar er nokkurt úrval sem gaman er að líta á. Sá markaður er við hliðina á Veiðarfæragerðinni og opinn á fimmtudögum milli kl. 16.30 og 18.30.

Flúðir

Á bókasafninu á Flúðum er hilla þar sem hægt er að skilja eftir bækur og velja sér aðrar á móti. Einnig er gaman að líta við í Litlu Melabúðinni sem auk þess að bjóða upp á dýrindis grænmeti hefur bókaskáp þar sem skipti bóka fer fram.

Reykjanesbær

Bókasafn Reykjanesbæjar hefur bókastand þar sem má næla sér í bók og skilja aðra eftir auk þess sem vert er að líta á nytjamarkaðinn Kompuna, Smiðjuvöllum 5.

Vestmannaeyjar

Bókasafn Vestmannaeyja tekur við öllum bókum og gefur þeim framhaldslíf á einn eða annan hátt. Aðspurður sagði bókavörður: "....já, við tökum við öllum bókum og reynum að koma þeim út. Í hverri einustu viku er verið að gefa okkur bækur, stundum oft í viku. Eins erum við með skemmtilega hringekju fulla af kiljum, þú kemur með kilju að heiman sem þú hefur lesið og tekur aðra í staðinn.."

Norð og Norðvesturland
Vestur-Húnavatnssýsla

Á nytjamarkaði Hvammstanga, Gærunum er að finna stórgott úrval bóka á lágu verði og um að gera að líta við. Markaðurinn er opinn 11 - 16 á laugardögum, frá miðjum júní og fram í miðjan ágúst. 

Austur-Húnavatnssýsla

Á bókasafni Austur-Húnvetninga er staðsett svokölluð skiptibókahilla einungis ætluð kiljum sem má skilja þar eftir og taka svo aðrar sem hugurinn girnist.

Akureyri

Rauði krossinn á Akureyri er með bókamarkað fyrsta miðvikudag og fimmtudag í mánuði og er þar að finna fjöldann allan af ódýrum bókum. Einnig er athugunarvert að líta inn í Hertex og Fjölsmiðjuna en þar má finna afar skemmtilegt úrval.

Amtmannsbókasafnið hefur hafið verkefni sem kallast „Bókakassar“ en þar er að finna bækur í kössum hjá Backpackers, í Berlín, Akureyrar­sundlaug og í Axelsbakaríi. Slíkir kassar eru svo væntanlegir í Sunnuhlíð og í Glerárssundlaug innan skamms þar sem fólki er frjálst að skipta út bók eða bara taka það sem þeim líst á. Einhver minntist svo á að hægt væri að finna barnabækur bæði í KA-heimilinu og Boganum.

Vesturland og Vestfirðir
Borgarnes

Í Borgarnesi við aðalinngang verslunar­innar Nettó hafa heldri borgarar bæjarins sett upp snyrtilega bóka­aðstöðu þar sem velja má sér bækur og greiða örlítið fyrir í þar til gerðan bauk. Ekki er ætlast til að aðrir komi með bækur að heiman en þeir sem að verkefninu standa en upplagt að njóta góðs af úrvalinu. Á bókasafni bæjarins eru stundum settir upp litlir bókamarkaðir þar sem er að finna bækur sem safnið vill losa sig við og er verðið þar um 200–500 krónur.

Akranes

Á Akranesi er forvitnilegt að litast um í nytjamarkaðnum Búkollu, en þar má meðal annars finna bækur á vægu verði. Verslunin er opin fimmtu-, föstu- og laugardaga frá 12-15.

Króksfjarðarnes

Hjá Handverksfélaginu Össu sem er í gamla kaupfélagshúsinu hefur verið bókamarkaður í mörg ár. Bókin kostar 300 krónur, en fólk má líka koma með bók á markaðinn og fá aðra í staðinn. Þangað er um að gera að koma og næla sér e.t.v. í handverk í leiðinni.

Flateyri

Flateyri státar af einni skemmtilegustu bókabúð landsins, Gömlu Bókabúðinni, sem selur gjarnan notaðar bækur ódýrt og eftir vigt. Hægt er því að losa sig við bækur þangað og versla sér svo sem eins og 250–300 grömm af einhverri gleði í staðinn.

Súðavík

Gamlan símaklefa er að finna í Súðavík þar sem fólk getur skilið eftir bækur eftir lestur og tekið sér aðrar í staðinn.

Norðurfjörður

Í Verzlunarfélaginu, verslun þorpsins, er hægt að nálgast skemmtilegar og áhugaverðar bækur og þá skilja aðrar eftir ef vill. Og nú er um að gera að viða að sér lesefni fyrir haust og vetrarmánuðina, þannig að hægt sé að liggja í dvala fram á vor. /SP

Skylt efni: Bækur | Nytjamarkaðir

Staða harmonikunnar sterk
Líf og starf 30. desember 2024

Staða harmonikunnar sterk

Félag harmonikuunnenda í Reykjavík heldur úti starfi fyrir harmonikuunnendur, sa...

Nýr heimsmeistari í skák
Líf og starf 30. desember 2024

Nýr heimsmeistari í skák

Nýr heimsmeistari í skák var krýndur 12. desember síðastliðinn. Hann heitir Domm...

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu
Líf og starf 27. desember 2024

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu

Á seinni hluta nítjándu aldar hófu kvenfélög að stinga upp kolllinum hérlendis, ...

Jólin komu snemma fyrir norðan
Líf og starf 27. desember 2024

Jólin komu snemma fyrir norðan

Það mátti greina spennu og tilhlökkun í augum Þingeyings sem óðamála sagði umsjó...

Sinn er siður í landi hverju
Líf og starf 27. desember 2024

Sinn er siður í landi hverju

Líkt og Íslendingar eiga Grænlendingar og Færeyingar sér sterkar jólahefðir sem ...

Ár umbreytinga og innsæis
Líf og starf 27. desember 2024

Ár umbreytinga og innsæis

Eins og siður er kastaði völva Bændablaðsins beinum sínum og opnaði fyrir flæði ...

Hvað er í jólamatinn og af hverju?
Líf og starf 23. desember 2024

Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Spurning dagsins: Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...