Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Þær eru myndarlegar Hringskonur, en þær vor m.a. með sölubás á Landsmóti hestamanna nú í júlí.
Þær eru myndarlegar Hringskonur, en þær vor m.a. með sölubás á Landsmóti hestamanna nú í júlí.
Mynd / Aðsendar og timarit.is
Líf og starf 8. júlí 2024

Dugur og elja ofar öllu

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Eitt þeirra mætu kvenfélaga sem hér á landi sitja er Kvenfélag Hringsins sem hefur unnið óslitið að líknar- og mannúðarmálum í áratugi.

Á sama tíma og hornsteinn Landspítalans var lagður þann 19. júní árið 1926 lagði Kvenfélagið Hringurinn lokahönd á byggingu Hressingarhælis Hringsins. Um ræddi myndarlegt hús sem stóð á landi mitt á milli Reykjavíkur og heilsuhælis Vífilsstaða og samkvæmt grein 6. tbl. íslenska kvennatímaritsins 19. júní áætluðu félagskonur kvenfélags Hringsins að þegar jörðin Kópavogur losnaði úr ábúð hæfu þær þar búskap Hressingarhælinu til handa. Gekk það eftir og við tóku þó nokkrar úrbætur. Túnið sléttað og ræktað upp, gripahús reist og þar innan hýstar átta kýr, tveir hestar og eitt hundrað hænsfuglar, en búskapurinn var rekinn í 17 ár með allnokkrum hagnaði.

Vegferð til aðstoðar bágstöddum

Fram að þessu höfðu þessar myndarkonur unnið ötullega að söfnun fjár til aðhlynningar berklaveiku fólki en með dugnaði hafði þeim tekist að láta byggja vandað hressingarhæli fyrir sextíu sjúklinga. Var sú ákvörðun tekin er í ljós kom, árið 1921, að ríkið tæki við legukostnaði berklasjúklinga, en brýn þörf var hins vegar á húsnæði fyrir þá sjúklinga sem væru á batavegi en ekki vinnuhæfir enn um sinn. Þótti elja kvennanna framúrskarandi. „Hringurinn hefir á liðnum árum lagt fram mikið fé til hjálpar berklaveiku fólki. En nú verður starf hans enn meira, er hann sameinar það alt á einum stað. Það er meira en lítill dugnaður, sem Hringkonur hafa sýnt í því að koma hælinu upp, og þeim er trúandi til að gera hælið skemtilegt og vistlegt heimili handa þeim, er þar dvelja meðan þeir eru að ná fullri heilsu“, segir í blaðagrein þessa tíma.

Stofnandi Kvenfélags Hringsins, fröken Kristín Vídalín Jacobson

Á vefsíðu Kvenfélags Hringsins kemur fram að fröken Kristín Vídalín Jacobson, sem þarna stýrði kvenfélaginu af myndugleik, hefði á námsárum sínum í Kaupmannahöfn legið sárþjáð í veikindum í um hálft ár. Hét hún því að ef hún yrði heilsuhraust á ný „... skyldi hún gera það sem í hennar valdi stæði til að bæta hag þeirra sem þyrftu að stríða við veikindi og efnaleysi.“ - Kristín sjálf kom af efnuðu fólki og naut þess í veikindum sínum, en sá að þeir sem minna máttu sín þyrftu aðstoðar við. Þetta heit efndi hún og boðaði til stofnfundar Hringsins þann 26. janúar 1904 í húsnæði Hússtjórnarskólans á efri hæð í húsi Iðnaðarmannafélagsins (Iðnó) við Tjörnina í Reykjavík.

Til liðs við Kristínu gengu alls 45 konur og hóf félagið vegferð sína til aðstoðar bágstöddum. Var lögð áhersla á ýmiss konar líknarstarfsemi, greitt var undir legukostnað berklasjúklinga og fengu bágstaddar sængurkonur bæði mjólkurgjafir sem og barnaföt. Fjármögnunin fór fram á þann hátt að kvenfélagskonur héldu leiksýningar sem þótti hin besta skemmtun, og líkt og enn í dag, stóðu fyrir happdrætti, mörkuðum og kaffisölu, svo eitthvað sé nefnt, auk peningagjafa utan frá.

Stofnun Barnaspítalans

Árið 1940 greindi frétt Morgunblaðsins frá því að nýverið hefði Kvenfélagið Hringurinn gefið ríkissjóði hælið, að ósk þess síðarnefnda – og fylgdu því allir innanstokksmunir. Var hælið nýtt sem holdsveikispítali og hæli vanvita samkvæmt fréttum Morgunblaðs áttunda áratugarins, en búið Kópavog rak Hringurinn áfram þar til vorið 1948 þegar ríkið keypti það.

Þáttaskil urðu um þetta leyti í starfsemi félagsins sem nú gerði það að markmiði sínu að safna fjármunum svo hægt væri að reisa barnaspítala. Ákveðið var þó að halda enn hluta fjármagns sem til safnaðist og veita í þágu berklaveikra, en ríkust var þörfin á spítala barnanna.

Seigla og kapp einkenndi næstu ár þessara mætu kvenna sem hófu þegar í stað viðræður við landlækni og heilbrigðismálaráðherra um möguleika á stofnun barnaspítala. Lítið varð úr þeim viðræðum að sinni, en nokkrum árum síðar, árið 1951, tóku kvenfélagskonur upp þráðinn og buðust til að leggja fram þann sjóð er þeim hafði safnast, svokallaðan Barnaspítalasjóð, í fyrirhugaða stækkun Landspítalans – með þágu barna fyrir augum. Varð svo úr að fyrst um sinn voru Barnaspítala ráðstafaðar tvær deildir og gaf Kvenfélagið Hringurinn einnig allan útbúnað sem til þurfti þar innan, til viðbótar við þær 7 milljónir sem áður höfðu veist spítalanum.

Barnaspítali Hringsins var svo tekinn í notkun sem sér álma árið 1965 og hefur kvenfélagið keypt þangað allan búnað síðan, auk þess að taka að sér að leggja til innanstokksmuni og allan annan nauðsynlegan búnað þegar geðdeild barna og unglinga opnaði fimm árum síðar sem göngudeild á Dalbraut. Kvenfélagið hefur einnig veitt fjármunum sínum til samfélags Sólheima í Grímsnesi, skóla blindra og sjónskertra, til Reykjadals, á gjörgæslu- og
nýburadeildir Landspítalans, til Krabbameinsfélagsins, til náms- styrkja hjúkrunarfólks og áfram mætti lengi telja.

Árið 2002 færðu Hringskonur Barnaspítalanum 200 milljónir króna til kaupa á búnaði og byggingar nýs húsnæðis sem vígt var ári síðar, á 99 ára afmæli kvenfélagsins við hátíðlega athöfn. Öll starfsemin, bráðamóttaka barna, barnadeildir í Fossvogi og á Landspítalanum, vökudeildin, göngudeild, dagdeild og önnur starfsemi voru loks flutt í nýja húsið þann 3. apríl 2003.

Í dag eru í Kvenfélagi Hringsins vel á fjórða hundrað konur sem standa keikar við fjáröflun enda verkefnin ærin og starfið ósérhlíft á hæsta máta.

núverandi formaður, Anna Björk Eðvarðsdóttir.
Nýjar fjáraflanir Hringsins

Aðspurð segir Anna Björk Eðvarðsdóttir, núverandi formaður Hringsins, fjáraflanir þeirra Hringskvenna í nokkuð föstum skorðum og oftar en ekki tengdar jólunum, eins og margir vita. Þar megi telja jólabasarinn, jólakaffið og happdrættið í Hörpu sem fer fram árlega, en einnig selji þær jólakort, sem er mismunandi ár hvert.

„Svo má ekki gleyma Veitingastofunni í anddyri Barnaspítala Hringsins, sem við rekum,“ segir Anna Björk brosandi. „Við erum annars alltaf að leita nýrra tækifæra til að safna í Barnaspítalasjóð. T.d. hannaði Hildur Hafstein afar fallegt hálsmen fyrir okkur, bæði úr gulli og silfri, sem hefur slegið í gegn og einnig létum við hanna jólanælu, sem er alltaf vinsæl.

Hún bætir við að þær verði með sölubás á Landsmóti hestamanna, nú í annað skiptið. Selji þar handverk Hringskvenna, aðallega úr íslenskum lopa – peysur, sokka og þess háttar. „Okkur var svo vel tekið á Hellu árið 2022 að það var engin spurning að vera með aftur í ár og við erum mjög spenntar að hitta Landsmótsgesti nú í júlí. Síðan þegar líður á sumarið, einbeitum við okkur að Reykjavíkurmaraþoninu, en við höfum átt marga góða hlaupara, sem hafa safnað frábærlega vel í Barnaspítalasjóð,“ segir Anna og bætir við að þær séu afar þakklátar fyrir velvilja almennings í garð starfsins og hvað þeim er alls staðar vel tekið.

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...