Hálfrar aldar afmæli Félags tamningamanna var haldið hátíðlegt þann 17. febrúar og af því tilefni var boðið til afmælissýningar í Lýsishöllinni í Fáki.
Félag tamningamanna var stofnað 10. apríl 1970, og er því gott betur en hálfrar aldar gamalt, en vegna heimsfaraldurs var afmælinu frestað á sínum tíma. Á starfsævi sinni hefur félagið haft það hlutverk að verja hagsmuni íslenska hestsins og talað fyrir sanngirni í allri meðferð, umönnun, tamningu og þjálfun hans.
Félagið bauð hestamönnum öllum til veislunnar sem var afar vegleg. Sýningaratriðin voru á heimsmælikvarða með tamningameisturum félagsins og afreksknöpum. Boðið var upp á afmælisköku og söngatriði auk þess sem saga félagsins var rituð og gefið út afmælisrit í tilefni hálfrar aldar afmælis. Málverkasýning Péturs Behrens, eins af stofnendum félagsins, setti hátíðlegan blæ á sýninguna.
Sylvía Sigurbjörnsdóttir, formaður félagsins, var afar ánægð með daginn og sýninguna í heild sinni. „Dagurinn var mjög ánægjulegur, sérstaklega var gaman að sjá hversu mikill áhugi meðal almennings er að bæta við sig þekkingu því hér var nánast setið í hverju sæti og fullt hús af fólki í allan dag.
Þetta er einstakt tækifæri að fá að fylgjast með meisturum félagsins og okkar fremstu knöpum og deila með okkur hinum hvernig þau temja og þjálfa hesta sína. Segja má að atriðin hér í dag hafi verið mjög fjölbreytt en áttu öll það sameiginlegt að hafa virðingu og kærleik í samskiptum við hestinn að leiðarljósi.“
Fyrrum formönnum félagsins var þakkað fyrir störf sín sem og stofnendum félagsins. Gullmerki Félags tamningamanna var veitt Trausta Þór Guðmundssyni fyrir störf sín í þágu félagsins og íslenska hestsins. Það var einróma álit gesta að sýningin hafi verið afar skemmtileg og vel heppnuð í alla staði.