Femínískur krosssaumur
Bjargey Anna Guðbrandsdóttir hefur vakið athygli með litlum útsaumsverkum þar sem ýmsum áleitnum og ögrandi skilaboðum kvennabaráttunnar er haldið á lofti. Verkefnið sitt kallar hún Píkusaum.
„Mig langaði að leggja eitthvað af mörkum, eitthvað annað en bara læka á Facebook. Þetta er mín leið til að tjá mig, koma mínum skoðunum á framfæri. Vera með femínísk skilaboð og aktífisma án þess að hrópa á torgum. Mér fannst líka svo viðeigandi að nota þetta kvenlega handverk í baráttuna, mig langaði ekki að sauma bara eitthvað heldur eitthvað með skilaboð, taka þátt,“ segir hún.
Handíðir í heimsfaraldri
Bjargey Anna er sveitastúlka þó hún hafi á sínum fullorðinsárum lifað og starfað utan sveitarinnar, hún er fædd á Mel á Mýrum árið 1976 en skottaðist svo þremur árum síðar með foreldrum og þremur eldri systkinum yfir á næsta bæ, Staðarhraun, þar sem í hópinn bættust fjögur börn. Bjargey er líffræðingur með mastersgráðu í stjórnun og stefnumótun.
„Þetta byrjaði nú bara alveg óvart,“ segir Bjargey en þannig háttaði til í Covid að litlar systurdætur hennar voru að sauma út í púða og í kjölfarið fann hún í pússi sínu gamalt óklárað saumaverkefni og lauk við það.
Þetta kveikti áhuga hennar og á vafri um veraldarvefinn uppgötvaði hún að margar konur úti um allan heim eru að vinna með slagorð kvennabaráttunnar í útsaumi af öllu tagi. Hugmyndin er því ekki hennar að öllu leyti en engu að síður bætir hún við eigin hönnun og íslenskum slagorðum, notar gamlar íslenskar uppskriftir og saum, til dæmis riddarasaum.
„Sísí Ingólfsdóttir með sína frábæru afsakið seríu var svo auðvitað líka innblástur fyrir mig,“ segir Bjargey.
Saumar ekki hvað sem er
Þó uppistaðan í Píkusaumi séu kvenleg baráttuslagorð þá berast Bjargeyju óskir um ýmiss konar sérsaum. „Ég sauma ekki hvað sem er, það verður að samræmast gildum mínum en ég hef svo sem ekki verið beðin um að sauma neitt hræðilegt.“ Hún nefnir sem dæmi verk sem hún saumaði fyrir Bistro í Borgarnesi, „Bjórinn blessi heimilið“. Eins hefur hún verið beðin um að sauma „Vísindin blessi heimilið“. Af hefðbundum verkum Píkusaums er „Ég þori, get og vil“ vinsælast. „Fokk feðraveldi“ gengur líka vel út,“ segir saumakonan sposk.
Bjargey hefur líka gert tilraunir með að sauma út eftir myndum og hefur með frábærum árangri saumað út fallega andlitsmynd af Vigdísi Finnbogadóttur. „Ég er feimin við að kalla mig listakonu en það felst í þessari vinnu mikil sköpun og tjáning,“ segir hún og er ánægð með góð viðbrögð sem hún hefur fengið með uppátækinu. Hún fær sendar hugmyndir en það eru auðvitað einhverjir sem eru feimnir við orðið „Píkusaumur“ og þó ótrúlegt sé birtist það mest í börnunum, systkinabörnum Bjargeyjar, sem sótroðna við að þurfa að nota orðið píka og hefur Bjargey lúmskt gaman af því.
Píkusaum má finna á Facebook og Instragram og næstu verkefni þessarar laghentu jafnréttiskonu er að setja saman pakka með efnum og uppskriftum svo aðrir geti hagnýtt getu sína í saumaskap eftir hugmyndum Bjargeyjar.