Ferskir, lífrænir ávextir frá Andalúsíu í áskrift
„Viðbrögðin hafa vægast sagt verið ótrúlega góð, við erum hreinlega hrærðir yfir þessum góðu viðtökum og hvað fólk hér á Norðurlandi og þá einkum í Dalvíkurbyggð hefur stutt dyggilega við bakið á okkur og hvatt okkur áfram,“ segir Bessi Ragúels Víðisson, Dalvíkingur sem ásamt félaga sínum, Borja López Laguna, kallaður Bor, er í startholunum með innflutning á ferskum lífrænum ávöxtum frá Spáni undir nafninu Fincafresh.
Ávextirnir verða seldir í áskrift og sent er frítt í fyrirtæki sem panta fyrir ákveðna upphæð. Þjónustusvæðið er Tröllaskagi, Eyjafjörður og Húsavík. Bessi er lögreglumaður á Dalvík, hann kynntist Bor árið 2019 þegar hann flutti frá Madrid á Spáni til Dalvíkur til að spila fótbolta með Dalvík/Reyni.
„Aldrei hefði mig grunað hvað líf mitt átti eftir að breytast mikið eftir að ég eignaðist hann sem vin,“ segir Bessi. Planið hjá Bor var að fá Sheilu kærustu sína til Íslands og búa þar eitt sumar og taka stöðuna að því loknu.
Sheila kom og fékk vinnu í Íþróttamiðstöðinni á Dalvík en Bor fékk stöðu sem stuðningsfulltrúi í Dalvíkurskóla og síðar meir kennarastöðu, en hann er menntaður kennari frá sínu heimalandi.
Tungumálakennsla í heita pottinum
Bessi segir þau Bor og Sheilu hafa unnið hug og hjörtu Dalvíkinga með jákvæðni sinni og kærleika. „Þau hafa frá upphafi borið sig eftir að komast inn í samfélagið á Dalvík og tala bæði íslensku mjög vel,“ segir hann og rifjar upp að þegar þeir kynntust hafi sig langað að læra spænsku og fóru leikar þannig að Bessi kenndi Bor íslensku og ensku raunar líka, en hann launaði greiðann með því að kenna honum spænsku.
„Kennslustundir fóru yfirleitt fram í heita pottinum í Sundlaug Dalvíkur og þar töluðum við til skiptis, íslensku, ensku og spænsku, um tuttugu mínútur hvert tungumál. Fólk sem ekki þekkti okkur rak stundum upp stór augu þegar við vorum að spjalla saman og sífellt að skipta um tungumál,“ segir hann.
Hugmyndin að Fincafresh, sem er spænskt orð og líkast til nær herra- eða búgarður því best í íslenskri þýðingu, má rekja til þess að Bor kom eitt sinn í kaffi til Bessa. „Ég tók fram fjórar appelsínur, skar eina í sundur og hún reyndist ónýt,“ segir hann og skar hvern ávöxtinn á fætur öðrum í sundur þangað til loks fannst ein sem var næstum því æt. Bor spurði hvaðan þessar appelsínur væru keyptar, það væri alls ekki árstíð þessa ávaxtar á þessum tíma.
„Það var eiginlega þá sem ég áttaði mig á að Íslendingar eru í sérflokki hvað það varðar að láta bjóða sér gamla ávexti, við þekkjum ekkert annað,“ segir Bessi. Þegar hann spurði Bor hvar Spánverjar kaupi appelsínur þann tíma sem þær vaxa ekki á Spáni svaraði hann: Hvergi, við borðum bara það sem er nýtt.“
Fundu ávaxtabónda í Andalúsíu
Í framhaldinu ákváðu þeir félagar að flytja sjálfir inn ferska ávexti fyrir vini og ættingja, en sáu fljótt að það myndi aldrei borga sig vegna mikils flutningskostnaðar.
„Næsta hugmynd var að flytja inn ávexti fyrir allan bæinn og þetta stækkaði sífellt eftir því sem við veltum vöngum lengur yfir þessu og nærliggjandi byggðarlög voru tekin með í dæmið. Það varð úr að við stofnuðum fyrirtæki um þennan innflutning á ferskum gæðaávöxtum á góðu verði. Hugmyndin var aldrei að við yrðum ríkir á þessu tiltæki, við viljum einfaldlega gefa fólki tækifæri á að kynnast glænýjum lífrænum ávöxtum frá Andalúsíu,“ segir Bessi.
Bróðir Bor, Femin, gekk til liðs við þá félaga. Hann fór til Andalúsíu í leit að álitlegum bændum sem ræktuðu lífræna ávexti. Bessi og Bor fóru einnig út til Spánar og ræddu við bændur og fundu einn sem þeir heilluðust af og eru í mestu samstarfi við.
„Hann er með allt milli himins og jarðar má segja, allt lífrænt og sjálfur er hann mikið gæðablóð. Það skiptir okkur máli að finna bændur sem rækta í smáum stíl, eru ekki með stóriðnað, því við vorum hræddir um að það hefði áhrif á gæðin,“ segir Bessi.
Fincafresh býður nú upp á ávaxtakassa sem í er blanda af þeim ávöxtum sem eru í uppskeru hverju sinni. Í boði eru tvær stærðir, 4 kílóa kassi og 2,5 kíló. Þeir eru sendir til Íslands um leið og þeir eru tilbúnir, fara beint til félaganna á Dalvík sem koma þeim strax til kaupenda.
Vinnum í að halda verðinu niðri
Ekið er heim að dyrum með kassana ef viðskiptavinur óskar þess. Einnig hafa þeir sett upp nokkra staði þar sem þeir staldra við í ákveðinn tíma og kaupendur geta sótt kassann sinn þangað og lækkað þannig sendingarkostnaðinn.
„Þannig vinnum við í því að halda verðinu niðri,“ segir Bessi. Og bætir við að þeir séu ánægðir með hversu margir hafi skráð sig í áskrift, „því án áskrifenda myndi þetta viðskiptamódel aldrei virka.“
Stefnt er að því að fyrstu kassarnir komi til landsins í lok september.