Fræ í frjóa jörð
Fræbankar hafa á síðustu árum skotið upp kollinum hér og þar, en Svanhildur Halla Haraldsdóttir hjá bókasafni Gerðubergs í Breiðholti telur samfélagið æ áhugasamara varðandi skref í átt að sjálfbærni.
„Þetta er allt í áttina,“ segir hún. „Martyna Karolina Daniel heitir sú sem hefur umsjón yfir verkefni fræbankanna í heild sinni, en við hjá bókasafni Gerðubergs höfum auk þess mikinn áhuga á öllu sem viðkemur hringrásarkerfinu.
Við höfum staðið fyrir ýmsum uppákomum, meðal annars tilraunaræktun af ýmsu tagi og höfum kallað eftir því að fá að ættleiða plöntur. Oft á fólk úr sér vaxnar og allt of háar stofuplöntur sem fá nægt rými hér í Gerðubergi, enda hátt til lofts og vítt til veggja.“
Fræbanki er nú staðsettur í bókasafninu og segir Svanhildur frá því að falleg kommóða, merkt fræbankanum, sé úr geymslu safnsins, áður ætluð undir skjöl, en tilvalið að geyma þar ýmislegt smálegt.
Í skúffum hennar leynast því haganlega brotin fræumslög úr blöðum sem starfsmenn hafa, til gamans, gert úr úr sér gengnum plöntubókum. Nýtt þannig blað
síðurnar, enda hringrásin þeim ávallt ofarlega í huga.
Framtíðarsýn grænna málefna
Deildarstjóri Gerðubergs, Ilmur Dögg Gísladóttir, segir hugmyndina að fræsafni hafa komið frá fræbönkum almenningsbókasafna í Osló. Starfsfólk bókasafnanna hér hafi verið afar duglegt við að sækja sér endurmenntun og fræðslu á norrænum ráðstefnum bókasafna þar sem gegnumgangandi áhersla á græn málefni er dæmi um framtíðarsýn.
„Við höfum velt fyrir okkur hvernig við getum stutt grænan lífsstíl og þar innan, til dæmis, hvernig við getum auðveldað fólki að hefja ræktun. Við í Gerðubergi erum í samstarfi við Seljagarð, grenndargarð og gróðurhús við Jaðarsel í Seljahverfi, en þau útvega okkur fræ frá sér auk þess sem við kaupum fræpoka og deilum út. Einn fræpoki getur þannig nýst mörgum. Þetta er einfalt verkefni sem gefur samt svo mikið, enda sterk sýn um sjálfbært og sjálfbjarga samfélag,“ segir Ilmur.
Fræsöfn sem þessi má einnig finna á amtmannsbókasafninu á Akureyri, og nú í fjórum söfnum Borgarbókasafnsins; í Gerðubergi, Grófinni, Sólheimum og Úlfarsárdal. Öllum er frjálst að ná sér í fræ án endurgjalds en einnig má koma með afgangsfræ og gefa í fræsöfnin.
„Við lítum annars á þetta sem hluta af stærra þema hjá okkur, og það er Græna bókasafnið,“ heldur Ilmur áfram. „Hugmyndin er einnig innblásin frá Norðurlöndunum þar sem áherslan er lögð á græn málefni, hvernig hægt er að vinna með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í gegnum grænar áherslur og upplifunin, þegar fólk heimsækir bókasöfn, að það fái vísbendingar um lífsstíl. Við í Gerðubergi sýnum til dæmis gestum að hægt er að rækta plöntu af avókadósteini og svo settum við í mold poppbaun sem spíraði, við vinnum með afleggjara af hinu og þessu og erum með plöntuskiptamarkað. Einnig höfum við verið með viðburði tengda því að planta fræjum, endurnýtum mjólkurfernur í pottana sem fræin fara í, við höfum kynnt gestum okkar hversu mikilvægir ormar eru við gerð moltu og fengið í heimsókn sérfræðing þess efnis.“
Markaðir og fræðsla
Ilmur segir að til viðbótar hafi þau verið með ýmiss konar skiptimarkaði og nú, eftir fyrstu vikuna í apríl, er stefnt á að halda skiptimarkað þar sem óskað er eftir eldhúsáhöldum, bollum, pottum eða þvíumlíku.
„Fólk á oft yfrið meira en það þarf á að halda, á meðan suma vantar ýmislegt og því upplagt að líta við og koma á markaðinn. Við höfum nægt húsrými í Gerðubergi og því vel hægt að setja upp ýmiss konar markaði enda eru þeir undantekningarlaust vel sóttir, endurgjaldslausir og öllum ætlaðir. Sólheimasafnið hefur einnig verið mjög virkt hvað varðar markaði og upplagt að kynna sér þessa starfsemi okkar safnanna betur.
Af öðrum viðburðum má nefna upplýsingar um gámadýfingar, sem fara nú misvel í fólk, en þetta var innlegg í þágu þess að sporna við matarsóun. Þetta er tiltölulega viðkvæmt málefni, en kemur að mismunandi lífsstíl hvers og eins og við sem bókasafn viljum veita innblástur, enda deilihagkerfi, ræktun og fræðsla okkur hugleikin og gámadýfingar eiga þar vel við. Sjálf fáum við hvata frá öðrum söfnum, fyrir hvað þau standa og hver þeirra sýn er. Við viljum vera hjartað í hverfinu og höfða til ólíkra hópa á meðan við höfum samt okkar grunngildi eða rauðan þráð sem er græn stefna,“ segir Ilmur.
Margþætt munasafn
Munasafn má einnig finna innan veggja bókasafns Gerðubergs, en áskrift þar er hægt að samnýta í munasöfn annarra bókasafna og eru afar vel sótt. Það segir Ilmur annan vinkil, enda upplagt að geta náð sér í vöfflujárn, snjóskóflu eða annað þegar þess þarfnast.
Þarna séu munir sem eru ekki notaðir dagsdaglega og því óþarfi að að eiga. Bókasöfn höfuðborgarsvæðisins bjóði öll upp á nytsamlega þjónustu af ýmsu tagi og þótt munasafn sé ekki að finna í safni Árbæjar er þar aðstaða til að taka upp snið og sauma enda í boði tvær saumavélar auk einnar overlock- vélar fyrir þá sem vilja.
Ráðgjöf og kennsla á vélarnar er svo einu sinni í mánuði, auglýst í viðburðardagskrá safnsins. Á vefsíðu bókasafnanna er ýmislegt nytsamlegt í boði, hvort sem eru markaðir, fræðsla eða annað og um að gera að leita eftir því sem áhugi er fyrir eða þörf er á.
„Svo er rétt að geta þess að margir hafa sjálfsagt tekið eftir bókaskiptistöðunum okkar þar sem má ná sér í ókeypis bækur. Þær er að finna víða núorðið, ekki bara á söfnunum heldur oft í grennd við sundlaugar eða matvöruverslanir sem styðja við hringrásarkerfið.
Við erum bókaþjóð og dýrmætt að halda í það. Með tilliti til þess verður að benda á bókasafnið sem stofnun, sem dæmi um hringrás, enda mikil og góð nýting bóka og ársgjald bókasafnskorts jafnvirði einnar skáldsögu í raun,“ segir Ilmur að lokum.