Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Magdalena Falter, Arnar Sigurðsson og Svava Björk Ólafsdóttir.
Magdalena Falter, Arnar Sigurðsson og Svava Björk Ólafsdóttir.
Mynd / Aðsend
Líf og starf 10. nóvember 2020

Frumuræktun ávaxta, mjólkurbíll og matarsóun

Höfundur: smh

Hacking Hekla, svokallað lausnamótið (hackathon) fyrir landsbyggðina, var haldið helgina 16.–18. október á Suðurlandi. Þetta er fyrsta lausnamótið af fleirum slíkum sem fyrirhuguð eru víðs vegar um landið og ganga út á að þróa lausnir fyrir tilteknar áskoranir tengdar matvælaframleiðslu sem landsbyggðin þarf að takast á við. Frumkvöðlar unnu þá með hugmyndir varðandi sjálfbærni í matartengdri nýsköpun. Vinningshugmyndin heitir Ómangó og gengur út á óhefðbundna framleiðslu suðrænna ávaxta, þar sem þeir eru ræktaðir með frumuræktun í stað plönturæktunar upp frá fræi.

Þessi fyrsti viðburður var haldinn í samstarfi við Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) og Nordic Food in Tourism og var unnið með sjálfbærni í matartengdri nýsköpun. Lausnamótin ganga út á snarpar vinnulotur – gjarnan 24 til 48 klukkutíma. Níu teymi voru skráð til leiks sem þróuðu áfram sín verkefni og kynntu fyrir dómnefnd. 

Kemur upp úr rannsókn á nýsköpun á landsbyggðinni

Fyrirbærið „Hacing Hekla lausnamót“ er runnið undan rifjum Magdalenu Falter og doktorsverkefni hennar, þar sem hún rannsakar nýsköpun á landsbyggðinni. Til að hrinda verkefninu í framkvæmd fékk hún til liðs við sig verkefnastjórann Svövu Björk Ólafsdóttur, sem hefur góða reynslu úr stuðningsumhverfi frumkvöðla og hefur stýrt öðrum lausnamótum. „Við tökum stefnuna á Vestfirði og Norðurland á næsta ári og vonandi klárum hringinn 2022–2023. Við erum á fyrstu stigum í viðræðum við samstarfsaðila á svæðunum fyrir næsta ár, segir Svava. „Við munum þróa fókus hvers lausnamóts með samstarfsaðilum á hverju svæði en höfum orðið vör við mikinn áhuga fyrir því að halda í matartenginguna,“ bætir hún við.

Í næstu sætum á eftir Ómangó voru verkefni sem snúa annars vegar að því að endurvekja hlutverk mjólkurbílsins og hins vegar að minnka matarsóun. Í öðru sæti var Mjólkurbíllinn, en hugmyndin er að með því láta hann ganga í endurnýjun lífdaga – sem mikilvægan samfélagslegan hlekk – megi nota hann til að tengja framleiðendur og frumkvöðla betur saman við neytendur. Í þriðja sæti var verkefnið Leifur Arnar, þar sem lagt er upp með að minnka matarsóun á þeim hlekkjum virðiskeðjunnar þar sem fyrirtæki liggja. Vandamálið verður leyst með smáforriti og miðlægu svokölluðu uppvinnslueldhúsi – sem leggur heildsölum og stórverslunum lið með því að gefa matvörunum, sem eru renna út á tíma, annað tækifæri.

Veflægt lausnamót og Hugmyndaþorp

„Vegna COVID-19 fór lausnamótið alfarið fram á netinu og nýttu þátttakendur nýja samsköpunar-lausn „Hugmynda-þorpsins“ –hugmynda-þorp.is – við þróun verkefnanna. Arnar Sigurðsson frá sprotafyrirtækinu Austan mána þróar lausnina samhliða Hacking Hekla lausnamótinu. „Á þeim tímum sem við lifum verður sífellt mikilvægara að virkja krafta úr sem flestum áttum samfélagsins inn í nýsköpun og þróun sem getur tekist á við áskoranir framtíðar. Með hugmyndaþorpinu er sköpunarferlið gert opið, gagnsætt og hvetjandi. Það var frábært að sjá Hugmyndaþorpið lifna við með þátttakendum Hacking Hekla. Inni í því deildu þátttakendur vandamálum, hugmyndum og verkefnum og lögðu grunn að opnu vistkerfi nýsköpunar fyrir Suðurlandið,“ segir Svava. Mögulegt er að skoða verkefnin sem tóku þátt í lausnamótinu inni á vef Hugmyndaþorpsins; hugmyndaþorp.hackinghekla.is.

Ráðgjöf í boði Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga

Þátttakendum verður í kjölfarið boðið upp á vinnusmiðju um næstu skref og hvert teymi fær þar að auki ráðgjafartíma með ráðgjöfum SASS. Ingunn Jónsdóttir, ráðgjafi hjá SASS, segir að þau séu virkilega ánægð með hvernig til tókst um þessa helgi og þau hlakki til að sjá sem flest af þessum verkefnum verða að veruleika. Þeirra framlag verði því að veita þessa ráðgjöf. 

Nordic Food in Tourism er norrænt samstarfsverkefni sem er ætlað að vekja athygli á þeim verðmætum sem liggja í staðbundinni matvælaframleiðslu og matargerð bæði fyrir heimamenn og erlenda gesti. Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, sem starfar hjá Nordic Food in Tourism og hjá Íslenska ferðaklasanum segir að hún hafi orðið vitni að mikilli sköpunargleði og krafti þessa helgi, þar sem fólk vann að hugmyndum sínum af miklum eldmóði. „Það er einstakt að fá tækifæri til að kynnast þessum hugmyndum og eldhugunum á bakvið þær og vettvangur eins og Hacking Hekla gefur þessum aðilum tækifærið á að miðla, læra og þróa hugmynd að raunverulegri þjónustu eða vöru,“ segir hún um verkefnið.  

Leitað að samstarfsaðilum á Vestfjörðum og Norðurlandi

Að sögn Svövu er Hacking Hekla lausnamótið nú formlega farið af stað á ferðalagi sínu um landið og leitar að samstarfsaðilum á Vestfjörðum og Norðurlandi. „Markmið Hacking Hekla er að draga fram í sviðsljósið það öfluga frumkvöðlastarf sem á sér stað á landsbyggðinni og tengja saman frumkvöðlasenurnar í dreifbýli og þéttbýli á Íslandi. Sömuleiðis á verkefnið að virkja skapandi hugsun og styðja við nýsköpun og fjölgun atvinnutækifæra á svæðinu,“ segir Svava. 

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...