Fyrsti heiðursborgari Flóahrepps
Sigríður Jóna Kristjánsdóttir, eða Sigga á Grund eins og hún er alltaf kölluð, var gerð að fyrsta heiðursborgara Flóahrepps á dögunum.
Sigga varð áttræð þann 30. maí síðastliðinn og hélt þá fjölmenna veislu á veitingastaðnum Vatnsholti í Flóa þar sem hún tók við heiðursnafnbótinni.
Sigga er útskurðarmeistari á heimsmælikvarða og liggja listaverk hennar víðs vegar innan lands sem utan.
„Það er alveg ljóst að Sigga á Grund hefur með verkum sínum stuðlað að jákvæðri ímynd sveitarfélagsins og er ævistarf hennar í listinni stórkostlegt afrek í þágu lands og þjóðar,“ segir Hulda Kristjánsdóttir, sveitarstjóri Flóahrepps.
Meðal þekktra verka Siggu er útskurður á gangtegundum íslenska hestsins og fundarhamar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna.