Galdrarnir gerast á hverri æfingu
Sextíu manns koma að uppsetningu söngleiksins vinsæla Lands míns föður sem sýndur verður í Freyvangsleikhúsinu, innan skamms, en fjörutíu ár eru síðan verkið var fyrst sett upp.
Freyvangsmenn eru ekki þekktir fyrir annað en að láta vel til sín taka á sviðinu enda er hér um þróttmikinn söngleik að ræða sem fjallar um stríðsárin í Reykjavík og hvaða áhrif hernámið hafði á íslensku þjóðina, bæði sem einstaklinga og þjóðlífið í heild.
Verkið og textar söngva eru eftir Kjartan Ragnarsson í leikstjórn Ólafs Jens Sigurðssonar, tónlist samdi Atli Heimir Sveinsson og er tónlistin í höndum fagmanna undir stjórn Stefáns Boga Aðalsteinssonar.
Draumur að vera með dáta
Land míns föður fjallar um unga parið Sæla og Báru sem er að hefja búskap akkúrat í upphafi stríðsins og ákveður Sæli að fara á sjóinn í stað þess að vinna fyrir herinn eins og margir velja. Bára situr heima ásamt móður sinni, henni Þuríði, og þær mæðgur opna þvottahús með það fyrir augum að þjónusta hermennina. Þvottahúsið er vinsælt eins og nærri má geta og streymi ungra myndarlegra manna lítur þar inn daglega. Kynni takast með Báru og Tony, breskum liðsforingja, og í fjarveru Sæla fella þau hugi saman. Samband þeirra ber ávöxt, en svo fer að Tony er sendur í stríð og lætur lífið, Sæli kemur heim af sjónum og þarf að taka afdrifaríka ákvörðun.

Formaður leikfélagsins, Jóhanna Sigurbjörg Ingólfsdóttir, segir mikið líf og fjör á sviðinu enda 25 manns í u.þ.b. 40 hlutverkum auk fimm manna hljómsveitar sem deilir með þeim sviðinu.
„Ætli við séum ekki í kringum sextíu manns alls, enda heilmargir sem koma að leikritinu þótt þeir séu ekki endilega að leika. Þetta er mjög stórt leikrit enda þriðjungur leikaranna sem leika fleiri en einn karakter,“ segir Jóhanna. „Þetta er mjög skemmtilegt verk sem inniheldur allt sem góð saga þarf að bera með sér, ástir og átök, sorg og sigra. Sagan gerist einnig á tímum hernámsins hér á landi sem gefur verkinu sagnfræðilegt gildi – og þó sagan sem slík sé skáldskapur þá er þetta samt saga fólks þessa tíma og eflaust margir sem tengja við hana á einn hátt eða annan.“ Jóhanna segir búninga frá stríðsárunum hafa verið örlítið föndur, a.m.k. hermannanna. „Það er gaman að segja frá því að Glímufélag Íslands lánar okkur glímubúninga frá 1940, eitt aðalhlutverkanna, hann Sæli, er Íslandsmeistari í glímu sem var vinsæl á þessum tíma.
Þetta hefur annars gengið glimrandi vel og leikstjóranum tókst meira að segja að plata mig til þess að taka að mér hlutverk Þuríðar þó nokkuð sé um liðið að ég hafi stigið á svið,“ segir Jóhanna hlæjandi og segist þó njóta sín vel í hlutverkinu.
„Við áætlum að venju sextán sýningar, en eins og er eru komnar tíu í sölu, uppselt á frumsýninguna en svo sýnt allar helgar í mars til að byrja með og miðana má kaupa hjá tix.is. Það má svo kannski geta þess að í ár eru 80 ár síðan stríðinu lauk og reyndar 40 ár síðan Land míns föður var fyrst sett á svið, þá í Leikfélagi Reykjavíkur. Þannig þetta er heilmikið afmælisár!“

Þar sem galdrarnir gerast
„Freyvangsleikhúsið er eitt öflugasta leikfélag landsins og hefur á að skipa úrvals fólki á öllum póstum. Það er risaáskorun að takast á við verk eins og Land míns föður þar sem reynir á svo marga mismunandi þætti. Mjög krefjandi fyrir hvern einasta aðila sem kemur að sýningunni,“ segir leikstjórinn, Ólafur Jens Sigurðsson.
„Í stuttu máli sagt hefur allur þessi flotti hópur staðið sig frábærlega í þessari vinnu. Við erum á hárréttum stað í ferlinu núna miðað við tímann sem er til stefnu. Galdrarnir gerast á hverri æfingu og við njótum hverrar mínútu í vinnunni,“ segir Ólafur