Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Skemmtileg mynd af Auði og hestum á góðri stundu.
Skemmtileg mynd af Auði og hestum á góðri stundu.
Mynd / Úr einkasafni
Líf og starf 13. desember 2021

Gefur út lita- og verkefnabók um líkama hestsins

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Hesturinn er að mínu mati ígildi hins fullkomna íþróttamanns, er magnaður, ekki bara krafturinn heldur einnig geta hestsins til að bera knapa og um leið hafa getu til að sýna ótrúlega fimi og styrk,“ segir Auður Sigurðardóttir hestanuddari.

Hún býr og starfar á Blönduósi og er búin að vera með í smíðum undanfarna mánuði lita- og verkefnabók um líkama hestsins. Nú stendur yfir söfnun á Karolina fund til að aðstoða Auði við útgáfu bókarinnar.

Efni bókarinnar er, eins og nafnið gefur til kynna, um líkama hestsins, fróðleikur um vöðva, staðsetningu þeirra, beinagrindina, hlutverk þeirra og ýmis annar fróðleikur. Bókin er samsett af fróðleik sem Auður hefur sett upp á einfaldan hátt, myndum sem má lita og skrifa inn á og svo spurningar og púsl sem lesandinn getur unnið með. Allt efni bókarinnar hefur hún unnið sjálf, myndir, texta og verkefnin. Bókin er hugsuð fyrir allt hestaáhugafólk, á öllum aldri, börn og fullorðna. Blaðamaður settist niður með Auði til að spyrja hana út í bókina, hestanuddið og áhuga hennar á íslenska hestinum.

Auður hefur haft meira en nóg að gera í hestanuddinu og náð góðum árangri í starfi sínu.

Áhuginn er klárlega til staðar

– Um hvað snýst verkefnið sem er í gangi hjá þér núna með bókina og hver er tilgangur og markmið bókarinnar?

„Hugmyndin kviknaði aðallega þegar ég byrjaði að búa til netnámskeið þar sem notandinn getur keypt aðgang að námsgrunni þar sem hann hefur aðgang að ýmsu efni, til dæmis hvernig á að byrja að þjálfa hest með brokkspírum, hvernig það á að bera sig að við teygjuæfingar fyrir hestinn og ýmislegt fleira. Þá áttaði ég mig á því að efni af þessu tagi er af mjög skornum skammti á íslensku. Einnig byrjaði ég að halda námskeið fyrir hestamannafélögin og fann að það var einmitt sama vandamálið og oft spurð hvar fólk gæti fundið upplýsingar á íslensku.

Það er vaxandi áhugi á því að læra meira um líkama hestsins, vöðvabyggingu, hvernig hann hreyfir sig og þess háttar. Oft er það í tengslum við vandamál sem upp geta komið hjá hestinum annaðhvort í þjálfun eða hjá hinum almenna hestamanni sem nýtur þess að ríða út. Flestir vilja að hestinum líði eins og best verði á kosið og fólk vill læra meira um hvernig það getur búið þannig um. Einnig hélt ég nokkur námskeið fyrir börn og ungmenni og komst að því að á hefðbundnum reiðnámskeiðum er ekki lögð mikil áhersla á þennan þátt og kannski er það bæði vegna þess að efnið er af skornum skammti og kannski vegna þess að þau eru ekki þannig uppsett. En áhuginn er klárlega til staðar,“ segir Auður.

Höfuðhlutverk vöðvanna, úr nýju bókinni.

Kemur út í desember

Bókin á að ná til breiðs aldurshóps og því valdi Auður að hafa hana í formi lita- og verkefnabókar. Hún segir að bókin muni snerta á mörgum þáttum og upplýsingarnar verði aðgengilegar, auðskiljanlegar og vonandi kveikja meiri áhuga hjá lesendum að vita meira og læra meira um líkama hestsins. Bókin er á lokametrunum og kemur væntanlega út nú í desember.

Þakklát fyrir stuðninginn

– Það er dýrt að gefa út svona bók og þú hefur verið að safna fyrir henni á Karolina fund, hvernig hefur það gengið og er enn hægt að styrkja þig þar?

„Staðan er vonum framar, þetta er alveg að hafast. Fresturinn til að styrkja verkefnið fer að renna út en þá ætti ég að geta byrjað ferlið og senda bókina í prentun. Ég er afar þakklát öllum þeim sem lögðu hönd á plóginn og hjálpuðu mér og hestafólki almennt á Íslandi að gera þetta að veruleika. Ég er afar spennt að heyra hvað fólki finnst og ef allt gengur upp er aldrei að vita nema ég fari í frekari bóka/efnisútgáfur af þessu tagi, það væri allavega draumurinn,“ segir Auður hlæjandi.

– Þú hefur mikinn áhuga á hestum og starfar m.a. sem hestanuddari. Af hverju hefur þú svona mikinn áhuga á hestum og hvað er svona heillandi við íslenska hestinn?

„Já, þegar stórt er spurt. Áhugi minn á hestum hefur verið til staðar síðan ég man eftir mér. Ég var svo heppin að geta fengið að vera í sveit sem stelpa og ást á dýrum og náttúrunni fékk svo sannarlega byr undir báða vængi við þá lífsreynslu. Ég fékk mér þó ekki minn eigin hest fyrr en á fullorðinsaldri þegar ég kynntist manninum mínum og við sameinuðumst í áhuga okkar á hestum og reiðmennsku. Hestamennska getur þó birst í svo ótal myndum.

Ég elska að fara á hestbak og fara í ferðir með góðu fólki en ég uni mér afar vel að stússast í kringum hestana, spá í hegðun, hreyfingar, eðli þeirra og persónuleika hvers og eins. Þegar við fluttum til Noregs 2015, maðurinn minn var að temja þar, vissi ég ekki alveg hvað ég ætlaði að gera. Ég er með Bsc í sálfræði frá HÍ og var jafnvel að spá í meistaranám, og rakst svo á auglýsingu frá Nordisk heste- og hundeterapiskolen og áður en ég vissi var ég búin að skrá mig í þriggja ára nám í hestanuddi og sjúkraþjálfun. Það var skemmtilegasta nám sem ég hef farið í, engin spurning,“ segir Auður og heldur áfram:

„Þar meðhöndlaði ég alla mögulegar tegundir af hestum, og við Íslendingar erum afar stolt af íslenska hestinum okkar og það er mjög skiljanlegt, hann er svo samofin menningu okkar og uppruna. Það lærði ég fljótt þegar ég fór að meðhöndla aðrar tegundir hesta og ræða við hestaeigendur sem rækta, þjálfa og ríða út á öðrum hestategundum. Það skilja ekki allir þessa sérstöku tengingu sem við Íslendingar eigum við hestinn okkar. Það hjálpar líka að íslenski hesturinn er mjög meðfærilegur í umgengni sem hjálpar alltaf þegar maður þarf að meðhöndla hesta á þennan hátt. Enda þekktur fyrir einstaklega gott geðslag og yfirvegun.“

Nýja bókin verður lita- og verkefnabók.

Hestanuddari, ekki dýralæknir

– Hestanuddari, hvað gerir hann og hvernig gengur hjá þér að vinna við það og hvað ertu aðallega að gera í því sambandi?

„Hestanuddari byrjar á því að greina, skoða og veita svo meðhöndlun eftir þörfum. Fyrsti tíminn fer yfirleitt í það að ég byrja á því að fara með eiganda/þjálfara yfir heilsusögu hestsins. Einnig er farið yfir hvert vandamálið eða vandamálin eru en stundum vill eigandinn bara fá ástandsskoðun á hestinn. Líkamleg skoðun fylgir yfirleitt þar á eftir sem og stundum hreyfigreining. Stundum tel ég þörf á að fara yfir reiðtygi, járningar, tannheilsu, knapann sjálfan eða annað sem getur haft áhrif. Meðferðina svo framkvæmi ég eftir því hvað kemur úr greiningu og skoðun.

Meðferðin sjálf tekur yfirleitt um 45-60 mínútur. Stundum getur eitt skipti gert mikið en stundum þarf fleiri skipti og/eða reglulegir tímar eins og bara hjá okkur þegar við förum til sjúkraþjálfara. Þetta fer alveg eftir því hvað við erum að eiga við hverju sinni. Stundum vísa ég líka beint á dýralækni ef mig grunar að eitthvað sé í gangi sem ég ræð ekki við eða það er einhver óvissa með heilsu hestsins. Sem nuddari má ég aldrei sjúkdómsgreina, ég er ekki dýralæknir, en ég vísa á dýralækni ef mér finnst ástæða til. Í lokin útbý ég nákvæma skýrslu yfir hvað var farið yfir og ráðlegg eiganda t.d. æfingar sem hann getur gert til að hjálpa ferlinu, oftar en ekki er það sú vinna sem skilar mestu.“

Frábær viðbrögð

– Hvernig hefur þér verið tekið sem hestanuddari og hvernig gengur starfið?

„Við hjónin fluttum aftur heim 2019 og fann ég mér þá vinnu. Ég var með stóra drauma um að geta kannski unnið sem hestanuddari í fullu starfi, en gallinn er sá að það krefst mikillar líkamlegrar vinnu og markaðurinn ekki nógu stór til að vera með tekjur allt árið af því. Þannig að ég ákvað að reyna að hafa þetta sem aukavinnu með annarri vinnu, helgar og í fríum.

Viðbrögðin hér heima hafa verið frábær. Og ég er búin að vera svo lánsöm að geta ferðast um landið, fengið að meðhöndla hesta á öllum aldri, á öllum stigum þjálfunar og hitt yndislega hestaeigendur unga sem aldna. En svo veiktist ég og síðan hefur það verið erfitt fyrir mig líkamlega að sinna þessu eins og ég hefði viljað, en ég reyni að fara t.d. á höfuðborgarsvæðið eða Suðurlandið reglulega og sinna fastakúnnum og þeim sem ég kemst yfir.

Ég hef líka lagt áherslu á að fólk getur bókað mig til að halda stutt nuddnámskeið sem eru hönnuð fyrir alla sem hafa áhuga á að sinna hestinum sínum á þennan hátt og þau hafa fengið afar góðar undirtektir. Bæði hestamannafélögin hafa sýnt því mikinn áhuga sem og hópar sem hafa tekið sig saman og fengið mig til sín,“ segir Auður.

Mjög ánægð með hestaeigendur

- Er eitthvað að lokum sem þú vilt koma á framfæri?

„Já, ég er afar ánægð að upplifa það að hestaeigendur hér á landi, og þá sérstaklega unga fólkið okkar, er mjög duglegt að huga að öllum þáttum sem koma að velferð hestanna okkar. Viljinn til að læra meira um líkama hestsins og t.d. skilja hvernig hann hreyfir sig getur ekki annað en skilað sér í enn betri skilning á hvernig við getum búið þannig um hnútana að við getum haft gaman saman, og er það ekki akkúrat það sem hestamennskan snýst um?

Hesturinn er að mínu mati hinn fullkomni íþróttamaður, líkami hestsins er magnaður, ekki bara krafturinn heldur einnig geta hestsins til að bera knapa og um leið hafa getu til að sýna ótrúlega fimi og styrk,“ segir Auður um leið og hún gerir sig klára í að fara að nudda næsta hest og ljúka við bókina sína. 

Burt með gerviefnin
Líf og starf 21. janúar 2025

Burt með gerviefnin

Stöðugt rakastig jarðvegs tómataræktar á Ítalíu kom skemmtilega á óvart nú á lið...

Gallabuxnafár, grátið við skákborðið og brúðkaup MC
Líf og starf 20. janúar 2025

Gallabuxnafár, grátið við skákborðið og brúðkaup MC

Það ríkti engin lognmolla í skákheiminum á milli jóla og nýárs. Heimsmeistaramót...

Janúar er mánuður briddsins
Líf og starf 17. janúar 2025

Janúar er mánuður briddsins

Fjölmörg briddsmót fóru fram um jólin hér og þar um landið. Sums staðar þóttu br...

Kría – barnapeysa
Líf og starf 17. janúar 2025

Kría – barnapeysa

Peysan er prjónuð úr einföldum Þingborgarlopa og einum þræði af LoveStory saman....

Bústörf yfir hávetur
Líf og starf 15. janúar 2025

Bústörf yfir hávetur

Verkefni bænda halda áfram þrátt fyrir hátíðarhöld og lögbundna frídaga. Hér eru...

Heimabakað brauð
Líf og starf 15. janúar 2025

Heimabakað brauð

Brauðbakstur er merkilega einföld iðja en um leið afskaplega flókin. Hveiti, vat...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 13. janúar 2025

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn stígur gætilega til jarðar þessi fyrstu skref ársins, uppfullur forv...

Stiklað á stóru
Líf og starf 9. janúar 2025

Stiklað á stóru

Bændablaðið kom tuttugu og þrisvar sinnum út árið 2024. Hér eru endurbirtar sjö ...