Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Kótilettan stendur alltaf fyrir sínu.
Kótilettan stendur alltaf fyrir sínu.
Mynd / Mummi Lú-Kótilettan
Líf og starf 28. júní 2024

Gerum okkur dagamun

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það til hliðsjónar mun í næstu blöðum birtast yfirlit yfir helstu skemmtanir og húllumhæ hérlendis.

Hér til hliðar má sjá brot af því helsta sem er á döfinni í júnímánuði, fyrir þá sem vilja gera sér dagamun, en uppákomur næstu vikna verða á dagskrá í næstu blöðum. Hér er um auðugan garð að gresja og næsta víst að ekki komist allt á lista.

Hins vegar fyrir þá sem vilja koma á framfæri hvers konar skemmtunum, opnunum eða uppákomum, má hafa samband í gegnum netfangið sigrunpeturs@bondi.is og við reynum okkar besta til að koma því að.

Hinseginhátíð Vesturlands verður haldin í fjórða skipti í ár og mun renna saman við hina sívinsælu Brákarhátíð, helgina 27.–30. júní nk.

Brákarhátíðin er rótgróin skemmtun sem haldin hefur verið í Borgarnesi síðan 2009 og fest sig í sessi sem fjölskyldu- og skemmtihátíð. Bátasiglingar björgunarsveitarinnar, dögurður kvenfélagsins, dansleikur, götugrill og skreytingar víða um bæinn gleðja viðstadda en ákveðið hefur verið að sameina þetta allt í stærstu bæjarhátíðar- og partíhelgi Vesturlands, nóg af regnbogum, gleði, hamingju og glimmeri ... enda verður hápunktur helgarinnar gleðiganga Hinseginhátíðar Vesturlands á laugardeginum ásamt fjölbreyttri skemmtidagskrá að henni lokinni.

Goslokahátíð Vestmannaeyja – þar sem endalokum eldgossins á Heimaey 1973 er fagnað ár hvert býður upp á heljar tónlistarveislu frá fimmtudeginum 4. júlí, en þá eru tónleikar með hljómsveitinni Vinir og vandamenn sem mun flytja ýmsar menningarperlur Eyjamanna. Fram koma einnig Bjartmar og bergrisarnir á föstudeginum svo og Sibbi og lundarnir sem trylla lýðinn á föstudagsnóttunni. Til viðbótar við tónlistina verða ýmiss konar viðburðir af öllu tagi þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Húsið Kirkjubær stendur þarna á fyrsta degi gossins í Heimaey árið 1973. Degi síðar höfðu glóandi hraunslettur
kveikt í húsinu. Mynd / Ævar Jóhannsson, 1973 - timarit.is

Grill- og tónlistarfestivalið Kótilettan verður nú haldin í fjórtánda sinn dagana 12.–14. júlí, en í bland við tónleikahald hefur hún fest sig í sessi sem ein stærsta grillveisla landsins.

Skipa íslenskir matvælaframleiðendur stóran sess í hátíðinni en þar koma saman helstu kjötframleiðendur og söluaðilar landsins auk Sölufélags garðyrkumanna svo eitthvað sé nefnt og um að gera að bragða á íslensku kjöti, grænmeti og öðru góðgæti, auk þess sem hægt er að kynna sér heitustu grillin á markaðnum í dag

Yfir daginn er boðið upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla fjölskylduna, sem er haldin í Sigtúnsgarðinum.Það má svo ekki gleyma tónlistaratriðunum, en meðal þeirra sem stíga á svið eru hin margfrægu Írafár, Síðan skein sól, Páll Óskar, Stefán Hilmarsson, Jóipé X Króli, Stjórnin, GDRN, Emmsjé Gauti og Stuðlabandið. Mun tónlistarfólkið stíga á svið bæði inni í Hvítahúsinu og einnig á glæsilegu útisviði.

Rétt er að taka fram að uppselt hefur verið á hátíðina síðastliðin þrjú ár og má ekki láta miðasöluna fram hjá sér fara sem fer einungis fram á kotilettan.is

Júnímánuður

Fimmta helgin, 28.–30. júní

Alla laugardaga frá lok júní fram til loka ágúst stendur yfir Sumarmarkaður á Selfossi í Tryggvagarði, á milli kl. 10–16.

Bæjarhátíðin á Höfn í Hornafirði – Humarhátíð 2024 verður haldin með pomp og prakt 27.–30. júní 2024. Boðið verður upp á humarsúpu í bland við fjölbreytta og skemmtilega dagskrá.

Íbúar Bakkafjarðar tilkynna skemmtilegustu sveitahátíðina, Bakkafest 2024, helgina 28.–29. júní 2024 á tjaldsvæði Bakkafjarðar. M.a. koma fram þeir JóiPé og Króli, Færibandið, Stebbi Jak og Drottningar ...en einnig verður hægt að fara í frisbígolf, taka þátt í sápubolta og zumba, skella sér í sundpartí og vera viðstaddur vígslu fuglaskoðunarhúss á Felli.

Hinseginhátíð Vesturlands verður haldin í fjórða skipti í ár og mun renna saman við hina sívinsælu Brákarhátíð, helgina 27.–30. júní nk.

Júlímánuður

Fyrsta helgin, 5.–7. júlí

Bryggjuhátíð Stokkseyrar verður haldin helgina 6.-7. júlí. Bmx Brós opna hátíðina í ár laugardaginn 6. júlí, en fjölbreytt dagskrá verður í boði. Til að mynda munu hringekja og hoppukastalar standa á Bankatúninu, veltibíllinn verður á staðnum svo og tvíeykið Skoppa & Skrýtla!

Írskir dagar – Í byrjun júlí í ár halda Skagamenn hátíðlega hina Írsku daga til að minnast keltneskrar arfleifðar sinnar. Um ræðir sannkallaða fjölskylduhátíð enda sækir fólk að úr öllum áttum til þess að upplifa þessa írsk-íslensku menningarblöndu. Fjölbreytt skemmtun í boði og hver veit nema keppnin um rauðhærðasta Íslendinginn verði haldin!

Markaðshelgin í Bolungarvík hefur verið haldin ár hvert síðan 1992 en um ræðir blöndu af öflugu markaðstorgi og yfirgripsmikilli tónlistar- og fjölskylduskemmtun.

Heim í Búðardal – Bæjarhátíð í Búðardal er haldin annað hvert ár og hefst nú með upphitun fimmtudaginn 4. júlí kl. 22:00 á Vínlandssetri, þar sem bæði verður pub quiz og trúbador. Á föstudagskvöldið 5. júlí hefst bátakeppni við Búðardalshöfn klukkan 18, þar sem bátarnir skulu vera heimagerðir. Margt fleira skemmtilegt mun gleðja gesti og um að gera að njóta helgarinnar.

Fjölskyldu og menningarhátíð Hveragerðis, Allt í blóma, verður haldin þessa helgi, mikil fjölskyldu- og skemmtidagskrá í Lystigarðinum auk þess sem fram koma þekktir tónlistarmenn á borð við Jón Jónsson, Stebba Jak, Jógvan Hansen og Stefán Hilmarsson. KK rekur svo endahnútinn á gleðina en hann kemur fram á sunnudeginum klukkan 20 í Reykjadalsskála. Miðasala fer fram á tix.is.

Goslokahátíð Vestmannaeyja býður upp á heljar tónlistarveislu frá fimmtudeginum 4. júlí en einnig verða ýmiss konar viðburðir af öllu tagi þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Þjóðlagahátíð á Siglufirði verður haldin dagana 3–7. júlí þar sem verður boðið upp á dansa, námskeið og tónleika með pomp og prakt.

Önnurhelgin, 12.–14.júlí

Dagana 11.–14. júlí fer festivalið Kótilettan fram að venju á Selfossi, hönd í hönd við Stóru grillsýninguna. Stanslaust stuð, grill og gleði, miðasala á kotilettan.is.

Sandara- og Rifsaragleði verður haldin 11.–14. júlí í Snæfellsbæ – skemmtilegasta helgi ársins í þeim bænum. Grill, tónlistaratriði, íþróttir og allt þar á milli og allir velkomnir.

Vopnaskak fer fram á Vopnafirði 12.–14. júlí. Geta gestir notið Bustarfellsdagsins, litahlaups, sápurennibrautar, hoppukastala, dorgað svolítið og hlýtt á vopnfirska tónlistarveislu svo eitthvað sé nefnt.

Hríseyjarhátíð fer fram dagana 12.–13. júlí þar sem boðið er upp á fjölskylduvæna dagskrá sem felst m.a. í óvissuferðum um eyjuna, fjöruferð, leiktæki, kvöldvöku, varðeld og söng.

Flughátíðin „Allt sem flýgur“ - Skemmtileg fjölskylduhátíð á Hellu dagana 12.–14. júlí. Svæðið er ein samfelld flugsýning frá föstudegi til sunnudags og má skoða vélarnar, sitja við flugbrautina og fylgjast með allskonar loftförum á svæðinu leika listir sínar. Gestir eiga svo von á karamellurigningu á laugardeginum, grillveislu og kvöldvöku í kjölfarið.

Náttúrubarnahátíð á Ströndum, dagana 12.–14. júlí þar sem fjölskylduvæn útivistardagskrá gleður gesti. Allt frá náttúrujóga, brúðuleikhúsi, bogfimi, kajakferðum, ýmiss konar smiðjum, tónleikum með Gunna og Felix auk þess sem sagðar verða drauga- og tröllasögur í Sagnahúsinu á laugardagsnóttina kl. 21. Um ræðir afar skemmtilega fjölskylduhátíð þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Klifurhátíð verður haldin á Seyðisfirði, 12.–14. júlí en fengu aðstandendur hátíðarinnar styrk frá Uppbyggingarsjóði Austurlands og hátíðin því eins konar uppskeruhátíð. Formlega hefst hátíðin á föstudagseftirmiðdegi, klifrarar streyma niður Fjarðarheiðina og safnast saman á tjaldsvæðinu sem er staðsett í hjarta bæjarins. Á föstudagskvöldinu verður farið í saunu í Sjóbaðsstofunni SAMAN og svo má stinga sér til sunds í sjónum. Kvöldvaka, brenna og huggulegheit verða í gangi en svo er bara að klifra! Svæðin eru tvö, hvort sínum megin í firðinum. Til gamans verður keppni þar sem sá klifrari sem klifrar flestar leiðir í sem fæstum tilraunum yfir helgina hlýtur vegleg verðlaun að launum.

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...