Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Aigle stígvél eru frönsk og afar smart.
Aigle stígvél eru frönsk og afar smart.
Líf og starf 23. júlí 2024

Gúmmístígvél fyrir sumarið

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Fyrir þá sem áætla að njóta sumarsins hérlendis er ekki seinna vænna en að fjárfesta í góðum og helst vistvænum gúmmístígvélum.

Stígvél komu hér fram á sjónarsviðið á síðustu öld og þóttu mikil bylting fyrir landsmenn enda þykir engum gott að vera votur í fæturna. Voru þau stígvél úr sama hrágúmmíi og bíldekk enda hagnaðist víst Goodyear-umboðið þó nokkuð fyrir framleiðslu á hvort tveggja.

Á meðan saga gúmmís teygir sig yfir í fornar siðmenningar á borð við Maya-þjóðirnar var notkun þess á þeim tíma heldur takmörkuð. Upphaflega áttaði fólk sig á að safa gúmmítrjáa mætti nota við gerð bolta, ýmissa íláta og skjólfatnaðar, en það var ekki fyrr en á 18. öld sem gúmmí hlaut meiri athygli frá hinum vestræna heimi.

Fyrstu skrefin

Árið 1735 kynntist franski landkönnuðurinn Charles-Marie de la Condamine því að heimamenn Amazon notuðu gúmmí við gerð vatnsheldra íláta. Honum þótti þetta svo forvitnilegt að hann tók með sér sýni aftur til Evrópu og kynnti þannig gúmmí fyrir vísinda- og iðnaðarheiminum. Þetta undraefni varð fljótt eftirsótt, en þó hvorki nægilega sterkt né sveigjanlegt til þess að hægt væri að nýta það að ráði – fyrr en bandaríski uppfinningamaðurinn Charles Goodyear fann rétta blöndu þess við þá brennistein og önnur efni. (Dekkjafyrirtækið Goodyear nefndi akkúrat fyrirtæki sitt í höfuðið á honum árið 1898).

Rannsóknir sem gerðar hafa verið á undanförunum árum hafa þó sýnt fram á að oft er mikið magn af blýi, kadmíum og þalötum notað við framleiðslu regnfatnaðar, þar á meðal stígvéla, og nærri má geta að sú blanda er alls ekki af hinu góða.

Umhverfisvæn ákvörðun

Því má líta á listann hér að neðan og kaupa sér stígvél sem unnin eru með umhverfisverndarsjónarmið alheimsins í huga. Athugið að ef pantað er yfir netið bætist sendingarkostnaður við og svona...

Will's Vegan Store er vörumerki sem framleiðir vegan skófatnað, fatnað og fylgihluti. Vörumerkið selur úrval af vatnsheldum skóm, en eina gerð regnstígvéla, sem bera heitið WVSport Waterproof Country Boots. Verð: $124–$186, eða 17–25 þúsund ísl. kr.

Merry People's regnstígvélin eru framleidd úr náttúrulegu gúmmíi og límd saman með vegan lími, en fyrirtækið býður að auki upp á 12 mánaða ábyrgð. Þau allra vinsælustu eru Chelsea ökklastígvél sem kosta $60–$170, eða 8–24 þúsund kr.

Thesus er merki sem framleiðir sjálfbæran skófatnað úr vistvænum efnum á borð við endurunnið gúmmí og endurunnið nælon. Nýverið kynnti Thesus 'Anyway Rainboot', handsmíðuð ökklastígvél frá fjölskyldurekinni verksmiðju í Portúgal. Þessi dásemd kostar $158, eða 22 þúsund ísl. kr.

Everlane er tískumerki sem framleiðir fatnað, skó og fylgihluti og hefur á síðastliðnum árum tekið framförum er kemur að framleiðslugagnsæi svo og notkun endurunninna efna.

Ökklastígvél úr gúmmíi eru hvað vinsælust og mega neytendur m.a. fræðast um frá hvaða verksmiðju hver og ein stígvél koma. Verð ökklastígvélanna vinsælu er í lægri kantinum, eða $34–$85, eða 5–12 þúsund ísl. kr.

Native er þekkt fyrir að búa til vatnsvæna skó sem hægt er að nota nánast hvar sem er. Sugarlite línan þeirra er afar vinsæl en þar innihalda skórnir blöndu af hefðbundnu EVA (Ethylene-vínyl acetate/létt og endingargóð froða) og sykurreyrsefni. Þessir vatnsheldu skór kosta $32–$55 eða 4–8 þúsund ísl. krónur.

Þegar kaupendur hafa nýtt skó sína til fullnustu má senda þau aftur til fyrirtækisins, en þar verða þeir endurunnir sem efni fyrir leiksvæði í gegnum Remix Project sem hægt er að kynna sér betur á vefsíðu fyrirtækisins.

Grey Label er hollenskt vörumerki sem framleiðir regnstígvél úr náttúrulegu gúmmíi fyrir börn, fáanleg í sex mismunandi litum.

Stígvélin eru framleidd með lífrænum striga að innan en fyrirtækið er GOTS vottað og allar umbúðir PVC-lausar og unnar úr endurunnum efnum. Verð: $57, eða þúsund ísl. kr.

Aigle er franskt vörumerki sem hefur selt fatnað og skó fyrir öll veður, en er sérstaklega þekkt fyrir regnstígvél sín. Þau eru framleidd úr náttúrulegu gúmmíi og innihalda staðlaðar gerðir um 30 til 35% af endurunnu gúmmíi frá Víetnam og Taílandi, í gegnum FSC vottað kaupferli. (Forest Stewardship Council, viðurkenning sjálfbærs skóglendis). Fyrirtækið er afar vistvænt en það endurnýtir einnig 54% þess úrgangs sem verður til á framleiðslustað þess og endurnýtir 90% af óunnnu gúmmíi. Geri aðrir betur. Fyrir þá sem hafa áhuga á að versla þar stígvél er verðið af ýmsum toga, frá $28–$430 eða 4–60 þúsund ísl. kr.

Að lokum verður að taka fram að auðvitað standa gömlu góðu gúmmískórnir alltaf fyrir sínu ef gengur illa að panta ofangreind stígvél af netinu. Þá má finna hér og hvar um landið, m.a. eru Viking gúmmískór hjá Fóðurblöndunni í stærðum 36–47 á kr. 6.500 og hjá Byko, undir heitinu „Klassískir gúmmískór“, í stærðum 19–47 á kr. 5.695, svo eitthvað sé nefnt.

Gúmmítúttur standa alltaf fyrir sínu.

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...