Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Búsvæðaskiptingin er byggð á manntali og kvikfjártali 1703 og jarðabókinni 1702–1714.
Úr Ástand Íslands um 1700. Lífshættir í bændasamfélagi, Byggð og búsvæði, bls. 164.
Búsvæðaskiptingin er byggð á manntali og kvikfjártali 1703 og jarðabókinni 1702–1714. Úr Ástand Íslands um 1700. Lífshættir í bændasamfélagi, Byggð og búsvæði, bls. 164.
Mynd / aðsendar
Líf og starf 16. október 2024

Harðindi til lands og sjávar

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Í nýrri bók: Ástand Íslands um 1700, lífshættir í bændasamfélagi, er fjallað um bændur og býlin í landinu, byggð og ólík búsetusvæði, félagshópa og stéttir í gamla bændasamfélaginu. Sögufélag gefur út.

Ástand Íslands um 1700, lífshættir í bændasamfélagi er safn ellefu greina eftir sjö höfunda og fjallar um ástand lands og þjóðar við upphaf 18. aldar frá ýmsum hliðum. Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, ritstýrði verkinu.

Guðmundur Jónsson. Mynd / sá

„Þetta er eins konar ástandsskoðun,“ útskýrir Guðmundur. „Mikilvægir þættir samfélagsins eru skoðaðir í miklum smáatriðum. Við gerum það af því að við höfum alveg einstök gögn að byggja á og getum farið inn á hvern bæ, hvert heimili og heilsað upp á hvern mann,“ segir hann.

Umboð til samfélagsskoðunar

Bókin byggist mest á manntali frá árinu 1703, jarðabók frá 1702–14 og kvikfjártali 1703.

„Þessar þrjár umfangsmiklu heimildir samþættum við með því að setja þær í gagnagrunn,“ segir Guðmundur. Þessar einstæðu heimildir séu til af því að í kjölfar langvarandi harðinda á Íslandi hafi Danakonungur, Friðrik IV, stofnað sérstaka rannsóknarnefnd.

„Í hana voru skipaðir Árni Magnússon, prófessor og handritasafnari, og Páll Jónsson Vídalín, stórbóndi í Víðidalstungum, mikill valdsmaður og einn helsti lögspekingur Íslands á þessum tíma. Þeir voru vinir, gamlir skólafélagar, og mjög gagnrýnir á margt sem aflaga fór í samfélaginu. Þeir fengu langt erindisbréf frá konungi þar sem þeir voru beðnir um að afla upplýsinga um ástand Íslands og jafnframt að kanna hvað aflaga hafði farið í stjórn landsins og verslun. Þeir höfðu því geysilega víðtækt umboð konungs til að kanna margar hliðar samfélagsins,“ segir hann jafnframt.

Ómagar, þurfamenn og flakkarar

„Við byrjum á að lýsa harðindunum, hvað olli þeim og hvaða afleiðingar þær höfðu á mannfólkið,“ heldur Guðmundur áfram. „Þá er breið lýsing á efnahagslegu og félagslegu umhverfi bænda og búaliðs. Svo er mannfólkinu lýst með hjálp manntalsins, hversu margir landsmenn voru og hvernig samsetning íbúanna var. Þar tökum við meðal annars eftir því að mjög fátt er um ung börn og gamalt fólk. Slík aldurssamsetning segir að þarna hafi gengið eitthvað mikið á, af því að börnin og gamalmennin falla í harðindum, það er segin saga.“

Ýmsar athuganir aðrar eru gerðar, svo sem á stærð og gerð heimila og fjallað um þann gríðarlega ómagafjölda sem var á þessum tíma í landinu. Hefur hann aldrei mælst eins mikill. Þannig voru 14–15% allra landsmanna ómagar, þurfamenn eða flakkarar.

Allt að 20 hjáleigur á býli

Samfellt kuldaskeið var á Íslandi á árabilinu 1696 til 1702 og árin á undan höfðu einnig verið erfið, allt frá 1686. Sigríður Jörundsdóttir lýsir þessu mikla kuldaskeiði í einum kafla bókarinnar en það var ekki aðeins á Íslandi heldur einnig í norðanverðri Evrópu.

Auk þess lækkaði sjávarhiti þannig að fiskur fór frá landinu og mikið fiskileysi varð suðvestan- og vestanlands. Afleiðingum harðindanna er lýst nokkuð nákvæmlega en þær birtust í ýmsum myndum, skepnufelli, bjargarskorti og mannfelli af völdum hungurs. Fólksflótti var frá harðbýlum svæðum norðan- og austanlands til Suður- og Vesturlands sem leiddi víða til byggðaeyðingar. Yfir 500 býli fóru í eyði, langmest hjáleigur.

Þá taka við nokkrir kaflar um ólík búsvæði á landinu, jörðum og býlum er lýst og eignarhaldi þeirra. Sérstakur kafli er um höfuðbólin.

„Á þessum tíma voru býlin miklu fjölbreyttari að stærð og gerð en í dag og efnalegur munur á bændum miklu meiri,“ segir Guðmundur. „Við könnuðum meðal annars fjölda ábúenda á hverju lögbýli og fundum út að á meira en fjórðungi þeirra var margbýlt, mest í Ísafjarðarsýslu. Þá voru hjáleigur á fjórðungi jarða og var langhæsta hlutfallið í Gullbringusýslu. Oftast voru þær ein eða tvær á býli en á Stokkseyri voru þær 19 að tölu.“

89 prósent eignalaus

Höfundar skoðuðu einnig stærð jarða eftir verðmæti þeirra og hvernig þær dreifðust yfir allt landið. Um fimmtungur jarða var tíu kýrverð eða minna að verðmæti og ef hjáleigubændum er bætt við þann hóp þá voru smábændurnir um 40 allra bænda.

„Við könnuðum eignadreifinguna, hverjir áttu hvað. Við bjuggum til lista með nöfnum 1% ríkustu landeigendanna, 13 manns, og greinum frá eignum þeirra, stöðu og ættartengslum. Brynjólfur Thorlacius á Hlíðarenda í Fljótshlíð trónir þar á toppnum. 

Síðan sýnum við eignadreifinguna almennt í samfélaginu. Þá kemur í ljós að 89% búandi manna eiga ekkert en 11% eiga allar jarðirnar. Þetta er mjög mikil eignasamþjöppun, bæði miðað við Ísland í dag en líka önnur lönd á þessum tíma,“ segir hann.

Þéttbýlissvæði allvíða

Guðmundur segir ýmislegt hafa komið á óvart eftir því sem línur skýrðust á vinnslutíma bókarinnar. Til dæmis hin gríðarmikla samþjöppun eigna. Einnig að þéttbýli hafi verið talsvert á Íslandi á þessum tíma.

„Við ímyndum okkur að Ísland í gamla daga, í bændasamfélaginu svokallaða, hafi almenna reglan verið dreifð byggð stakra býla. En í ljós kemur að allmörg svæði voru þéttbýl, aðallega vestanlands. Á Snæfellsnesi var stærsta þéttbýlið á landinu, þar voru hátt í 500 manns búsett á nokkrum lögbýlum á Hellissandi og Rifi. Einnig var þéttbýlt á Stapa og fleiri jörðum þar um slóðir og sömuleiðis á Seltjarnarnesi. Það voru þannig nokkrir staðir á landinu þar sem fólk skipti hundruðum. Íslendingar hafa þó ekki kallað þessi þéttbýli bæi af því að þetta er allt innan lögbýla, heldur fremur hverfi,“ segir hann enn fremur.

Konur áttu 36% prósent jarðeigna

Þá hafi verið forvitnilegt að sjá stöðu kvenna varðandi eignir. Konur hafi yfirleitt ekki staðið fyrir búi nema þær væru ekkjur eða ógiftar. Aðeins 11% kvenna hafi verið húsráðendur en engu að síður hafi konur átt talsverðar eignir. Erfðalög voru á þann veg að synir erfðu tvo þriðju en dætur þriðjung.

„Konur áttu um 36% allra jarðeigna. Þær sem voru efnum búnar létu eiginmanninn um fjársýslu búsins og forsvar. Konan hafði ekki fjárræði og ákvæði voru um hversu hún mátti eyða miklu af eignum búsins á ári. Kona gat þannig átt eignir en ekki ráðstafað þeim að vild,“ útskýrir Guðmundur.

Einstakt á alþjóðavísu

Um það hvort einhverjar fyrri alda hafi verið kortlagðar á sambærilegan hátt segir Guðmundur svo ekki vera og kveður verkefnið einstakt.

„Þetta er einstakt og er bókin ein nákvæmasta lýsing sem gerð hefur verið á lífsháttum í gamla bændasamfélaginu fyrir tíma þjóðfélagsbreytinganna á 19. og 20. öldinni. Ég held að margar þjóðir myndu öfunda okkur af þessum upplýsingum. Við höfum nákvæmari upplýsingar um svo marga hluti í samfélaginu sem ekki eru fyrir hendi frá þessum tíma í nálægum löndum. Til dæmis var ekki tekið manntal í Danmörku fyrr en 1769, en það var ekki með nöfnum,“ segir hann.

Flókið og yfirgripsmikið

Guðmundur segir þetta flóknasta sagnfræðiverkefni sem hann hafi unnið að um sína daga. Það kostaði mikla yfirlegu að smíða gagnagrunninn en einnig að tengja á milli manntalsins og jarðabókanna. Óskar Guðlaugsson og Ólöf Garðarsdóttir eiga mestan heiðurinn af því.

Kvikfjártalið sé líka einstakt, að hafa skrá yfir allar skepnur á bújörðum og þar er jafnvel ástandi dýranna lýst. Um 37% kvikfjárskýrslna hafa ekki varðveist og eru jarðabók Múlasýslna og Skaftafellssýslna glataðar, eyðilögðust líklega í brunanum mikla í Kaupmannahöfn 1728 þegar nokkur hluti af safni Árna Magnússonar brann. Höfundarnir höfðu þó sínar aðferðir til að afla gagna úr öðrum áttum til að fylla í eyðurnar.

Mörg mannár liggja að baki bókinni. Sjö hafa unnið að þessu viðamikla verkefni sem staðið hefur með hléum frá árinu 2017. Eru það, auk Guðmundar, Sigríðar, Óskars og Ólafar, þau Árni D. Júlíusson, Björgvin Sigurðsson og Ingibjörg Jónsdóttir. Myndaritstjóri er Inga Lára Baldvinsdóttir. Útgefandi er sem fyrr segir Sögufélag. Bókin er 440 bls.

Staða harmonikunnar sterk
Líf og starf 30. desember 2024

Staða harmonikunnar sterk

Félag harmonikuunnenda í Reykjavík heldur úti starfi fyrir harmonikuunnendur, sa...

Nýr heimsmeistari í skák
Líf og starf 30. desember 2024

Nýr heimsmeistari í skák

Nýr heimsmeistari í skák var krýndur 12. desember síðastliðinn. Hann heitir Domm...

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu
Líf og starf 27. desember 2024

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu

Á seinni hluta nítjándu aldar hófu kvenfélög að stinga upp kolllinum hérlendis, ...

Jólin komu snemma fyrir norðan
Líf og starf 27. desember 2024

Jólin komu snemma fyrir norðan

Það mátti greina spennu og tilhlökkun í augum Þingeyings sem óðamála sagði umsjó...

Sinn er siður í landi hverju
Líf og starf 27. desember 2024

Sinn er siður í landi hverju

Líkt og Íslendingar eiga Grænlendingar og Færeyingar sér sterkar jólahefðir sem ...

Ár umbreytinga og innsæis
Líf og starf 27. desember 2024

Ár umbreytinga og innsæis

Eins og siður er kastaði völva Bændablaðsins beinum sínum og opnaði fyrir flæði ...

Hvað er í jólamatinn og af hverju?
Líf og starf 23. desember 2024

Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Spurning dagsins: Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...