Himbrimi
Himbrimi er nokkuð stór vatnafugl og er einn af einkennisfuglum íslenskra heiðavatna. Fullorðinn fugl getur verið allt að 3,5 kg. Hann er einn af tveimur tegundum brúsa sem verpa hér á Íslandi en frændi hans, lómurinn, er mun minni. Brúsar eru mjög fimir sundfuglar og miklir kafarar. Fæturnir eru mjög aftarlega á búknum sem gerir þá afar sérhæfða vatnafugla, geta kafað djúpt og langt eftir fiskum. Þetta gerir það að verkum að þeir eru eiginlega frekar vonlausir á landi og geta ekki gengið heldur ýta sér áfram á maganum. Þeir koma ekki á land nema til að verpa og verpa þá alveg við vatnsbakkann til að geta auðveldlega spyrnt sér út í vatnið aftur. Himbrimar eru líka nokkuð þungir til flugs, vængjatökin eru kraftmikil og hávær. Þegar þeir lenda þá lækka þeir flugið rösklega, lenda á maganum og renna sér eftir vatninu. Himbrimar eru nokkuð plássfrekir, þeir helga sér óðöl á varptímum og reka aðra himbrima í burtu. Nánast undantekningarlaust er bara pláss fyrir eitt par á minni vötnum og eingöngu á stærstu vötnum þar sem finna má fleiri en eitt verpandi par.